Jafnréttisþversögnin (Likestillingsparadokset) – með íslenskum texta

7.1.2012

Blogg, Myndbönd

Mótunarhyggja er snar þáttur í femínískri hugmyndafræði, þá einkum meðal forréttindafemínista. Mótunarhyggja felur í sér þá skoðun að kyn séu líffræðilega eins að öðru jöfnu. Það sem síðan stjórni kyngervi, þ.e. stuðli að kvenlegu og karlmannlegu atferli, sé samfélagið sem hafi mismunandi væntingar til kvenna og karla og móti kynin samkvæmt því. Heitustu fylgjendur mótunarhyggju segja því sem svo að ef kynin mættu nákvæmlega sömu framkomu í samfélaginu myndu þau vera eins m.t.t. kyngervis.

Andstæða mótunarhyggju er eðlishyggjan sem felur í sér þá skoðun að kynbundinn mun megi rekja til líffræðilegra þátta sem hafi þróast með okkur frá upphafi þróunarsögu mannkyns. Þ.e. að atferli karla og kvenna megi skýra með líffræðilegum mun s.s. ólíkrar hormónaframleiðslu sem geri karla að körlum og konur að konum.

Ég hef á stundum fengið harkaleg viðbrögð frá forréttindafemínstum fyrir að efast um gildi mótunarhyggju og jafnvel verið kallaður fáviti sem ekkert mark sé takandi á fyrir það eitt að efast um að mótunarhyggja væri reist á traustum grunni. Í bókinni Professing Feminism er þessi tilhneyging femínista til að afneita eðlisþáttum kölluð eðlisafneitun (Biodenial). Þessi viðbrögð, og sú staðreynd að Kynungabók byggir á hugmyndum um mótunarhyggju gerðu mig sérstaklega áhugasaman um þetta málefni.

Árið 2008 var Noregur valið það land þar sem mest jafnrétti ríkti. Margt er líkt með okkur og norðmönnum þegar kemur að femínískri hugmyndafræði og stöðu hinnar svokölluðu jafnréttisbaráttu. Eitt af því sem norðmenn hafa undrað sig á er að eftir því sem meira jafnrétti kemst á, því kynbundnara verður starfsval. Þ.e. hin margumtöluðu kvenna- og karlastörf virðast, ef eitthvað er, festast í sessi sem slík. Þetta hafa norðmenn kallað Norsku Jafnréttisþversögnina.

Árið 2010 var sýnd í Norska Ríkissjónvarpinu (NRK) heimildaþáttaröðin Heilaþvottur (Hjernevask) en í henni lögðu þáttagerðarmennirnir Harald Eia og Ole-Martin Ihle það á sig að kanna forsendur að baki hinum ýmsu hugmyndum sem pólitískir þrýstihópar halda gjarnan fram. Í fyrsta þætti þáttaraðarinnar er nefnist einmitt Jafnréttisþversögnin (Likestillingsparadokset) er sjónum beint að  mótunarhyggjunni og hún skoðuð í ljósi nýlegra uppgötvana á raunvísindasviðum eins og líffræði. Ég hef nú íslenskað þennan fyrsta þátt af Hjernevask og geta áhugasamir séð þáttinn sem er tæpar 40 mínútur á afspilunarlista Youtube rásar minnar með því að smella hér. Til þess að kalla fram íslenska textann þarf að smella á cc hnappinn í neðra hornin myndrammans, hægra megin.


Ég hef ekki í hyggju að þýða hina þætti Hjernevask þar eð erindi þeirra inn í kynjaumræðuna er ekki eins augljóst þó vissulega hafi sumir þættirnir skírskotun í málefni kynja. Ef einhver hefur áhuga á að sjá hina þættina með enskum texta getur viðkomandi sent mér tölvupóst þar sem það þarf lykilorð til að horfa á þá sem ég get sent um hæl.

Njótið.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

,

8 athugasemdir á “Jafnréttisþversögnin (Likestillingsparadokset) – með íslenskum texta”

  1. Gunnar Says:

    Gargandi snilld. Áhugavert efni tekið fyrir á bráðskemmtilegan hátt. Get nú ekki sagt að mér finnist kynjafræðingarnir hafa komið vel út úr þessu svona í samanburði.

    Endilega bímaðu á mig slóðinni og lykilorðunum fyrir hina þættina. Þú ert með mailið mitt.

  2. Theódór Gunnarsson Says:

    Þetta er mjög áhugavert og raunar í ágætu samræmi við hegðun þeirra sem hafa hæst í þeim armi jafnréttisbaráttunnar sem heitir því fráleita nafni „feminismi“.

    Auðvitað getur maður ekki alveg horft fram hjá þeim möguleika að framleiðendur þáttarins séu dálítið hallir undir eðlishyggjuna, sem mér finnst sjálfum eðlilegra, en það er svo augljóst að þessir norsku kynfræðingar hafa engan áhuga á öðrum skýringum en þeim sem hlaða undir pólitíska skoðun þeirra. Sérstaklega var sláandi hvernig karlmaðurinn hló yfirlætislega að þessum villuráfandi vísindamönnum. Það var hins vegar greinilegt að þessir amerísku og bresku vísindamenn sem talað var við voru ekki að rembast við að grafa undan feminismanum, heldur voru þeir einfaldlega að reyna að finna út hvert væri eðli okkar sem tegundar.

    Mér finnst þessi fullyrðing að ekki sé munur á heilastarfsemi karla og kvenna mjög undarleg. Það er svo augljóst að líkami kynjanna er umtalsvert frábrugðinn, einmitt m.t.t. æxlunar og umönnunar barna á fyrstu mánuðum æfinnar. Því skyldi munurinn ekki ná til heilans? Það er t.d. einn munur sem ekki er beinlýnis líkamlegur – þ.e.s. ef heilinn er tekinn út fyrir sviga – en það er kynhneigðin. Venulegir karlmenn girnast konur kynferðislega og venjulegar konur girnast karlmenn. Er þetta ekki heilastarfsemi sem er ólík? Og ef svo er, er þá eitthvað fráleitt að fleira sé ólíkt? Eða er kynhneigðin e.t.v. mótuð? Finnst einhverjum það líklegt?

    Allir foreldrar sem ég hef spjallað við, sem hafa alið upp börn af báðum kynjum eru þeirrar skoðunar að strákar og stelpur fæðist ólík. Sjálfur á ég 5 börn og fyrir mér er þetta augljóst, en auðvitað veit ég að dæmigerður kynjafræðingur myndi halda því fram að ég geti ekki séð og skynjað það sem hann er búinn að þjálfa sig í að sjá, semsé það að ég sé sjálfur svo innmúraður í kynhlutverkin að ég eigi engan möguleika á að stíga út fyrir kassann og sjá hlutina eins og þeir eru.

    Ég er sannfærður um að líffræðilegur munur kynjanna hefur tilhneigingu til að beina kynjunum í vissar áttir, sem aftur hefur áhrif á væntingar samfélagsins til kynjanna, sem aftur mótar kynin enn frekar til að fara í þessar áttir. Hér er um að ræða það sem í stýrifræðinni er kallað pósitíft feedback. Undirliggjandi grunnástæðan er semsé líffræðilegur munur sem samfélagið ýkir. Það getur auðvitað verið jákvætt að draga úr þessum þætti til að auka raunverulegt frelsi fólks, en ég held að það hjálpi engum að afneita sannleikanum. Þvert á móti myndi ég ætla að það hjálpaði fólki að skilja það sem liggur til grundvallar.

  3. Sigurður Jónsson Says:

    Já Theódór, margt í þessu er virkilega áhugavert. Ekki síst hrokafullt viðhorf kynjafræðinganna til annara vísinda- og fræðimanna. Það sló mig einmitt hvernig hann hló að öðrum rannsakendum. Þess má til gamans geta að þessi maður hefur kvartað sáran yfir gerð þáttarins þó honum hafi nú ekki verið gerður annar grikkur en sá að vera leyft að tala fyrir framan upptökuvél.

    Raunar fannst mér líka eftirtektarvert hvað kynjafræðingarnir virtust vera óöruggir í viðtölunum. Þessi sömu óöryggiseinkenni sá maður í Könskriget. Kannski þetta fólk viti hvað hugmyndafræði þeirra er viðkvæm fyrir gagnrýni?

    Mér fannst þó áhugaverðast að sjá rökstuðning fyrir því hvernig kynbundið starfsval kynja og hin „hefðbundnu kynhlutverk“ festast í sessi eftir því sem jafnrétti er betur tryggt. Ef þetta er rétt, og forréttindafemínistar eru í raun að rekja jafnstöðubaráttu fremur en jafnréttisbaráttu, liggur þá ekki í augum uppi að eftir því sem hinni svokölluðu jafnréttisbaráttu miðar áfram fyrir tilstuðlan femínista, því fjær færast þeir markmiðum sínum?

  4. Sigurður Jónsson Says:

    Í þessu sambandi er áhugavert að rifja upp hvað segir í Kynungabók um eðlis- og mótunarhyggju:

    “Kynungabók byggir á femínískum hugmyndum og mótunarhyggju sem er andstæða eðlishyggju. Mótunarhyggja hafnar því að ólíkt eðli kynja sé ástæðan fyrir ólíkri hegðun, hlutverki og stöðu kynjanna”

  5. Einar Steingrimsson Says:

    Mjög áhugaverður þáttur. Geturðu ekki boðið RÚV textunina þina og spurt hvort vilji sé til að sýna þetta þar?

  6. Sigurður Jónsson Says:

    Velkominn Einar og takk fyrir innleggið.

    Ég myndi glaður ljá þeim textaskrárnar ef það hjálpaði. Var nýlega að hvetja Pál til að taka Könskriget til sýningar sem ég hef líka textað og hef hvatt aðra til að senda honum áskorun um það.

    Ef RÚV þyrði að sýna eitthvað af því góða efni sem frændþjóðir okkar hafa framleitt, gæti það haft umtalsverð áhrif á kynjaumræðuna til hins betra. Þessi algjöri skortur á gagnrýni við femínískan áróður er fjölmiðlum og fjölmiðlafólki til skammar.

  7. Eva Hauksdóttir Says:

    Það sem slær mig mest er það viðhorf að þar sem ekki sé búið að sanna 100% að eðlislægur munur sé á kynjunum hvað varðar áhugasvið, þá geti sú kenning alls ekki staðist. Enda þótt ekkert sérstakt bendi til þess að kynin fæðist eins, hlýtur það að vera sannleikur þar til óvéfengjanlegar sannanir finnast fyrir öðru.

    Ég sé reyndar ekki hvaða það á að gera jafnréttisstefnu að afneita meðfæddum muni kynjanna. Ég held t.d. að það myndi koma fleiri konum til góða ef laun í umönnunarstörfum yrðu hækkuð en ef fleiri konur kæmust í stjórnunarstöður.

  8. Sigurður Jónsson Says:

    Já það er óneitanlega hjákátlegt að sjá hvað þessir kynjafræðingar gera miklar kröfur til raunvísinda í ljósi þess hvað margar kenningar þeirra sjálfra eru byggðar á veikum grunni.

    Rétt eins og í tilviki Könskriget voru viðmælendur ekki allskosta sáttir við að orðum þeirra hefði verið sjónvarpað og klöguðu þáttagerðarmenn til Pressens Faglige Utvalg, eins konar siðanefndar fjölmiðla. Það gerði Jørgen Lorentzen, sá sem hvað verst kemur út úr þessum viðtölum en kvörtunum hans var vísað á bug af PFU. Er ekki umhugsunarvert að þetta fólk standi fyrir eitthvað sem þolir ekki dagsljósið og helst eigi bara að tala um innan hópa sem eru „rétthugsandi“?

    Það er svo efni í langa ritgerð hvernig femínistar á íslandi hafa alla tíð siglt undir hentifána hvað varðar eðlis- og mótunarhyggju. Það má kannski segja að því sé hampað sem henti baráttunni hverju sinni. Nú er t.d. vinsælt að tala um að efnahagshrunið megi rekja til eðlisgalla karla og því eigi að hampa konum því þær séu svo vel af guði gerðar. Mér segir svo hugur að í næsta uppgangsskeiði, þegar sókndirfska kemst aftur í tísku, muni femínistar sem talað hafa á þessum nótum ekki kannast við að karlar henti betur sem stjórnendur og viðkvæðið verði á ný að enginn munur sé á körlum og konum.

%d bloggurum líkar þetta: