Jafnstöðulög

3.1.2012

Blogg

Hugtakið jafnrétti er eitt þeirra hugtaka sem hefur verið teygt og skrumskælt á vettvangi kynjastríðsins að því marki að það er nú gjarnan notað til að lýsa einhverju sem því var, í upphafi, alls ekki ætlað að lýsa og hefur engan skyldleika við málfræðilegt inntak sitt. Jafnrétti er enda svo skilgreint í íslenskri orðabók Eddu (þriðju útg): Það að hafa jafnan rétt.

Fyrstu jafnréttislögin voru sett hérlendis árið 1976. Þetta voru Lög um jafnrétti kvenna og karla nr. 78/1976. Árið 1985 voru svo sett ný jafnréttislög en þá var m.a. sú markverða breyting á að þau nefndust nú Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 65/1985 [feitletrun mín]. Bann við mismunun á grundvelli kyns, hefur verið lögfest í áratugi.

Jafn réttur kvenna og karla er þannig í grófum dráttum tryggður með gildandi, og fyrri jafnréttislögum ef við lítum framhjá hinum ýmsu sérlögum sem ganga jafnréttislögum framar og tryggja konum rétt umfram karla. Dæmi um það gætu verið lög um stórmeistaralaun og hinar ýmsu sértæku aðgerðir sem viðgengist hafa hér, jafnvel svo áratugum skiptir. Það er einmitt þessi „jákvæða mismunun“ sem hlýst af því að gera það að markmiði laganna að jafna stöðu kvenna og karla á þann hátt sem nú er í stað þess að tryggja einfaldlega jafnan rétt.

Ekki er lengur talað um að konur og karlar þurfi að standa jafnfætis frammi fyrir lögum og þar með möguleikum til þess að athafna sig í samfélagi okkar, nú skal jafnrétti mælt í niðurstöðutölum. Þ.e. hvert er hlutfall kvenna í heildarlaunum, eignaskiptingu, þátttöku í „fínni störfum“ og þar fram eftir götunum. Það má þannig segja að að forkólfar jafnréttisbaráttunnar í dag berjast ekki fyrir því að karlar og konur hefji hlaupið við sama rásmark heldur skal færa rásmarkið framar fyrir konur uns þær koma á sama tíma og karlar í mark.

Þetta er auðvitað ekki jafnrétti eða jafnréttisbarátta. Þetta kallast með réttu jafnstaða og jafnstöðubarátta og skýrir líklega hversvegna barátta forréttindafemínista virðist hafa harðnað ef eitthvað er, eftir því sem raunverulegt jafnréttti hefur verið tryggt. Að þessu leyti er ég því sammála Femínistafélagi Íslands sem segir einmitt í umsögn sinni um frumvarp til jafnréttislaga þeirra er sett voru árið 2008:

„Femínistafélag Íslands leggur áherslu á það atriði laganna að þeim skuli ætlað að bæta stöðu kvenna frekar en að einblína á réttindi kvenna. Jöfn réttindi kvenna og karla eru sjálfsögð og lög þar að lútandi hafa verið til í áratugi. Því ætti að breyta umfjöllun um lögin í daglegu tali og vísa til þeirra sem jafnstöðulaga“

Umsögnina í heild má nálgast hér en undir hana skrifa þær Auður Alfífa Ketilsdóttir og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir f.h. Femínistafélags Íslands í desember 2007.

Það eru þó líklega ólíkar ástæður að baki þessari skoðun minni og Femínistafélags Íslands, að breyta ætti umfjöllun um lögin í daglegu tali og vísa til sem jafnstöðulaga. Ég held nefninlega að hér á landi séu miklu mun færri jafnstöðusinnar heldur en jafnréttissinnar. Ekki síst vegna þess að eitt fyrsta fórnarlamb jafnstöðubaráttunnar er einmitt jafnréttið sjálft.

SJ

, ,

5 athugasemdir á “Jafnstöðulög”

  1. Guðmundur Says:

    Í umræðu síðustu ára hef ég orðið mjög var við að fólk ruglar saman þessum hugtökum þ.e. jafnrétti og svo jafnræði (það sem þú kallar jafnstöðu).

    Gott er að sjá loksins að það eru einhverjir meðvitaðir um að jafnrétti og jafnræði eru tveir gerólíkir hlutir. Þvingað jafnræði felur oftar en ekki í sér ójafnrétti. Besta dæmið um það er þegar einn aðili er látinn ganga framar öðrum vegna atriða sem skv. siðferðisvitund almennings eiga ekki að hafa áhrif t.d. kyn.

    Ójafnréttið þvingaðrar jafnstöðu bitnar m.ö.o. alltaf á einhverjum. Jafnrétti á auðvitað alltaf að ganga framar jafnræðinu, enda bitnar það ekki á öðrum en þeim sem hafa ekki nýtt þau tækifæri sem bjóðast í lífinu.

    Bestu kveðjur
    Guðmundur.

  2. Kristinn Says:

    Vel orðuð og áhugaverð grein. Það væri gaman að fá álit femínista á þessu. Vonandi gefur sig einhver fram.

  3. Sigurður Jónsson Says:

    Gleðilegt árið herramenn.

    Já, ég notast við orðið jafnstaða af þeirri ástæðu að þetta er það orð sem femínistar hafa notast við. Það var virkilega áhugavert að skoða aðdraganda setningu fyrstu jafnréttislaganna ’75 en skv. upprunalegu frumvarpi áttu þau að heita Lög um jafnstöðu kvenna og karla. Þá átti svokallað Jafnstöðuráð að annast framkvæmd laganna.

    Mér sýnist að heiti laganna hafi verið breytt í umsögn Allsherjarnefndar frá því sem lagt var til í upprunalegu frumvarpi. Nefndin gerir einnig þá breytingartillögu að í 1. grein laganna sé markmið laganna skilgreint sem svo að þeim sé ætlað að tryggja jafnrétti fremur en jafnstöðu. Þ.e. úr:

    „Tilgangur laga þessara er að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum“ skv. fyrstu drögum yfir í;

    „Tilgangur laga þessara er að stuðla að jafnrétti kvenna og karla“.

    Að endingu sigraði jafnréttishugsjónin við gerð þessara laga en jafnstöðuhugsunin fær endanlega uppreisn æru í breyttum lögum ’85 og hefur fylgt okkur æ síðan.

    Þetta segir kannski ákveðna sögu um eðli baráttunnar og ekki síst þann eðlismun sem virðist vera á jafnréttissinnum og forréttindafemínistum.

  4. Eyjólfur Says:

    Gleðilegt ár. Þetta finnst mér einn stærsti og mikilvægasti punkturinn. Að sigla undir gunnfána jafnréttis þegar barist er fyrir misrétti – m.a.s. lögleiðingu þess – er beinlínis hjákátlegt. Jafnstaða er mun betra orð til að lýsa slíku. Tilgangurinn er eins konar jöfnuður og meðalið er hreint og klárt misrétti.

  5. Gunnar Says:

    Hvar eru femínistarnir þegar maður þarf á þeim að halda? 🙂

    Ég væri til í að sjá þá svara þessu.

%d bloggurum líkar þetta: