María Lilja Þrastardóttir hefur aldeilis látið að sér kveða að undanförnu og er það kærkomið. Hún virðist ætla að taka við kyndlinum af Sóley Tómasdóttur sem hér áður lyfti grettistaki í að kynna almenningi viðhorf forréttindafemínista.
Í nýlegri Smugugrein sinni, Klámvædd móðurást, lætur María í ljós álit sitt á auglýsingaherferð sem inniheldur meðfylgjandi ljósmynd. Maríu finnst herferðin ósmekkleg með tilliti til þess að konurnar eru mæðgur og vill að fólk staldri við og spyrji sig siðferðisspurninga. Eins og femínista er siður kvartar hún líka yfir því að kroppar kvenna séu notaðir til að selja vöru sem í þessu tilviki er kvenmannsnærföt.
Þá segir María:
„Nú veit ég ekki hvað veldur en velti því þó fyrir mér hvort fólk sé upp til hópa orðið svo gegnsýrt af klámvæðingunni að það átti sig ekki á því á hvað það er að horfa? […] Þarna höfum við tvær fallegar, grannvaxnar konur á undirfötum sem eru auglýst sem „sexy lingerie”. Þær eru klæddar í sokkabönd og liggja ansi frjálslega og opinmynntar með tómt augnaráð við hlið nokkurra viðardrumba, sem mætti hæglega túlka sem reðurtákn“
Að finnast eðlilegt að staldra stundum við og spyrja sig siðferðisspurninga: Já já …
Að finnast óeðlilegt að fataframleiðandi á nærfatnaði fyrir konur noti konur sem módel: úps, aðeins að tapa þér hér.
Að ýja að því að þeir sem sjá raunveruleikann öðrum augum en maður sjálfur séu gegnsýrðir af klámvæðingu: ha!?
Að sjá typpi út úr viðardrumbum: Óborganlegt
SJ
21.11.2011 kl. 21:17
Ég lendi reglulega inni á þessu bloggi og hef haft gaman af því, stundum er ég sammála því sem hér kemur fram og stundum ósammála.
Mér finnst þessi færsla hins vegar óvönduð. Ég er sammála mörgu af því sem María segir í þessari grein. En ástæða þess að ég geri athugasemdir við þessa færslu þína er hversu frjálslega mér finnst þú fara með sannleikann. Ég er sammála þér að það er ekki óeðlilegt að framleiðandinn noti konur sem módel, algjörlega. Þú ert hins vegar að leggja Maríu orð í munn þegar þú segir að hún fullyrði að þeir sem sjáir raunveruleikann með öðrum augum séu sjálfir gegnsýrðir af klámvæðingu. Hún talar eingöngu um að hún sé að velta því fyrir sér hvort ástandið sé þannig. Það er stór munur á því að fullyrða og að velta fyrir sér.
Umræðan um viðardrumbana er áhugaverð. Nú ætla ég ekki að leggja mat á hvort þeir séu tákn um reður eða ekki, en það sem ég velti fyrir mér að sá sem hannaði þessa myndatöku hefur sett þá þarna af ástæðu. Ég gef mér að sá sem það gerði geti talist sérfræðingur í myndmáli, þar sem hann vinnur við þetta. Ég velti fyrir mér hver pælingin á bakvið þá er, hvað dettur þér í hug?
21.11.2011 kl. 22:28
Sæll Sigurður og takk fyrir innleggið.
Já ég get alveg samþykkt það sem þú segir með að ég kann að hafa verið full harkalegur að ætla henni þá meiningu að þeir sem sjái myndefnið ekki með hennar augum séu gegnsýrðir af klámvæðingunni. Hinsvegar sé ég þetta tvímælalaust sem daður við þá hugmynd svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Það viðhorf er svosem ekki alveg óþekkt í kynjaumræðunni og er út af fyrir sig bæði óréttlátt og klárt þöggunartæki.
Í rauninni gagnrýni ég bara tvennt úr greininni hennar. Þetta og það að sjá viðardrumbana sem reðurtákn. Öðru er ég ýmist sammála eða get vel skilið og virt sem skoðanir hennar.
Hvað varðar trjádrumbana þá get ég, eins og aðrir, bara getið mér til um ástæður þess að þeim var stillt þarna upp. Ég held hinsvegar að það sé bara ósköp einföld ástæða fyrir því sem ristir alls ekki svona djúpt. Ég hugsa að þessu hafi bara verið stillt upp vegna þess að sá sem hannði myndatökuna hafi einfaldlega verið að hugsa um fagurfræðilegt gildi myndanna. Nærtækari skýring gæti þannig verið að drumbarnir hafi verið valdir vegna litarins sem alveg eins má segja að kallist á við hörundslit móðurinnar á viðkomandi mynd. Þeir sem hafa gaman af því að velta fyrir sér myndmáli virðast sjá phallusinn víða. Ég held hinsvegar að þeir séu u.þ.b. þeir einu sem það gera.
Hitt þykist ég þó viss um að það að velja mæðgur sem fyrirsætur var úthugsað af þeim sem að þessu stóðu. Þessi auglýsingaherferð hefur án efa skilað hreint ótrúlegum árangri m.v. tilkostnað.
21.11.2011 kl. 23:15
Ég breytti þessari setningu:
„Að fullyrða að þeir sem sjá raunveruleikann…“
í: „Að ýja að því að þeir sem sjá raunveruleikann…“
Þetta var alveg réttmætt hjá þér og óþarfi að láta þetta standa svona.
22.11.2011 kl. 9:15
Mér finnst nærvera þessara viðardrumba beinlínis hlægileg, get ekki með nokkru móti séð hver tilgangur þeirra ætti að vera. En ég er algjörlega sammála þér að valið á fyrirsætunum hafi verið úthugsað af þeim sem hönnuðu þessa auglýsingaherferð.
Að mínu mati eru þessar auglýsingar í það minnsta truflandi. Maður veltir líka fyrir sér hver viðbrögðin væru við svipaðri auglýsingu þar sem til að mynda feðgar væru í svipuðum stellingum og þessar mæðgur? Ég tala nú ekki um ef að um væri að ræða föður og dóttur, væri þá talað um að auglýsingin endurspeglaði feðginakærleik?
Bara smá pælingar.
22.11.2011 kl. 9:25
Já, í þetta sinn er er ég alveg sammála Maríu, alltsvo með að fyrirsæturnar séu mæðgur. Það er líka virkilega áhugaverð pæling hjá þér með feðginin. Ég held að það hefði kallað á enn harkalegri viðbrögð og margir þeirra sem sjá ekkert að þessari herferð hefðu nú skellt sér á þann vagn.