Kærunefnd Jafnréttismála sýndi það enn og aftur í verki að á Íslandi er jafnrétti bara fyrir konur þegar hún vísaði frá máli Halls Reynissonar í liðinni viku. Eins og fram kom í athugasemdakerfinu við fyrri færslu mína um þetta mál var glufa í málatilbúnaði Halls sem gerði nefndinni fært að víkja sér undan því að taka málið til efnislegrar meðferðar. Ég hef áður skrifað um hliðstætt mál en þá kærði karlmaður kvennalán Spron sem var niðurgreidd lánaafurð sem konum stóð til boða árið 2007 (af öllum árum)
Að vísa máli frá vegna aðildarskorts þýðir að kærunefndin lítur svo á að kærandi sé málinu óviðkomandi þar sem hann hafi ekki sýnt fram á að brotinu hafi verið beint gegn sér. Í tilviki kvennalánanna hafði kvartanda blöskrað að sjá niðurgreidda lánaafurð til kvenna auglýsta, en ekki verið að sækja um tiltekið lán sjálfur og verið hafnað. Hallur Reynisson formaði kvörtun sína á sama hátt þegar honum blöskraði að verslun sem hann starfaði hjá, seldi konum vörur á lægra verði en körlum. Hallur hefði skv. þessu átt að kaupa mjólk sjálfur og byggja kæruna á að hann hafi þurft að borga hærra verð fyrir pottinn en konan sem stóð næst honum í röðinni.
Í fréttum hefur komið fram að Hallur er mjög ósáttur við þessa niðurstöðu og að hann hafi farið yfir hana með lögmanni Jafnréttisstofu. Vandamál Halls er hinsvegar það að Jafnréttisstofa deilir bersýnilega áhugaleysi á málinu með Kærunefnd Jafnréttismála.
Um samspil nefndarinnar og Jafnréttisstofu segir í 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 2008:
„Hafi Jafnréttisstofa rökstuddan grun um að stofnun, fyrirtæki eða félagasamtök hafi brotið gegn lögum þessum [Jafnréttislögum] skal hún kanna hvort ástæða sé til að óska eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki málið til meðferðar. Hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum er skylt að láta Jafnréttisstofu í té upplýsingar og gögn sem hún telur nauðsynleg til að upplýsa um málsatvik. Verði viðkomandi aðilar ekki við þessari beiðni Jafnréttisstofu innan hæfilegs frests getur hún ákveðið að þeir greiði dagsektir þar til upplýsingarnar og gögnin hafa verið látin í té. Sé það mat Jafnréttisstofu að umræddar upplýsingar og gögn renni frekari stoðum undir að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna skal hún óska eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki málið til meðferðar og jafnframt tilkynna hlutaðeigandi stofnun, fyrirtæki eða félagasamtökum skriflega um þá ákvörðun sína“
Ef einhver ætti að kannast við þessa lagaklausu þá er það lögmaður Jafnréttisstofu, myndi ég halda. Jafnréttisstofa sagði ekki eitt aukatekið orð um afsláttarmálið fyrr en það komst í hámæli fyrir atbeina Halls. Þá fannst stofnuninni allt í einu hugsanlegt að verið væri að brjóta jafnréttislög með aðgerðinni.
Nú ætlar lögmaður Jafnréttisstofu að láta Hall halda að hún taki málið alvarlega og ætlar að skoða það með honum þegar ekkert er að skoða. Eins og glögglega kemur fram í tilvitnaðri 4. gr. jafnréttislaga gæti stofnunin tekið yfir forræði málsin og gert Kærunefnd Jafnréttismála að taka það til efnislegrar meðferðar … sem er nákvæmlega það sem stofnunin hefði gert ef Hagkaup og fleiri hefðu vogað sér að veita karlmönnum sérstakan afslátt.
Það er þó ákveðinn sigur unninn fyrir karlmenn í þessu máli. Úrskurður þessi mun standa og sem slíkur vera minnisvarði um að karlmenn geta ekki vænst þess að jafnréttislagabrot gegn þeim verði tekin alvarlega á meðan rauðsokka (Kristín Ásteirsdóttir) situr í brúnni. Ég hvet karlmenn til að halda áfram að leggja fram kærur þó jafnréttisiðnaðurinn muni með klækjum og undanbrögðum koma sér hjá því að taka þær til efnislegrar meðferðar. Það kemur að því að áhrifafólk mun sjá í gegnum þennan tvískinnung stofnana jafnréttisiðnaðarins og á endanum mun það leiða til breytinga – þó síðar verði.
SJ
15.11.2011
Blogg