Kynjafræðiprófessor segir meðlög ekki framfærslu

13.11.2011

Blogg

Þorgerður Einarsdóttir

Forréttindafemínistar tala stundum um að einstæðar mæður séu einu framfærendur barna sinna. Þetta er vitaskuld alrangt þó þetta taki sig kannski vel út í skýrslum og greinum sem ætlað er draga upp mynd af konum sem fórnarlömbum.

Fyrir utan sérstaka fjárhagsaðstoð frá ríki og sveitarfélagi fá einstæðar mæður meðlög úr vasa barnsfeðra sinna sem geta numið háum fjárhæðum og er þessi tekjuauki skattfrjáls fyrir þiggjanda. Engu skiptir þó meðlagsgreiðandi sé í vanskilum, móðir fær alltaf meðlagið sitt frá Tryggingastofnun Ríkisins sem Innheimtustofun Sveitarfélaga sér síðan um að innheimta hjá barnsföður. Stofnunin hefur ansi hreint ríkar heimildir til að innheimta meðlög og til marks um það hvað meðlagsskuldir eru sérsakur skuldaflokkur þá fyrnast þær t.d. aldrei og Ísland hefur gert samning um fjöldamörg lönd um gagnkvæma innheimtu meðlaga brottfluttra skuldara. M.ö.o. það versta sem þú getur skuldað eru meðlög.

Ég rakst á dæmi um þessa rangfærslu í kynjakafla skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins. Þar segir á bls. 12 í word útgáfu skýrslunnar:

„Konur hafa almennt lægri tekjur en karlar og eru oftar einar framfærendur barna. Einstæðar konur með börn voru 15% fjölskyldna árið 2006“

Eins og margir vita þá voru þær Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í Kynjafræði við Háskóla Íslands og Gyða Margrét Pétursdóttir doktor í kynjafræði við sama skóla fengnar til að greina efni Rannsóknarskýrslu Alþingis vegna bankahrunsins út frá kynjafræðilegu sjónarhorni. Þorgerður og Gyða eru engvir aukvisar í sínum fræðum og því ekki hægt að afskrifa það sem þær segja sem gelt róttæklinga. Þær teljast til fræðimanna á sviðinu og koma sem slíkar að kennslu líklega velflestra ef ekki allra ungra forréttindafemínista á Íslandi í dag og síðustu misseri, á launum hjá skattborgurum þess samfélags sem þeim er ætlað að rannsaka og uppfræða.

Það skyldi því engan undra að mér þyki þessi ummæli eftirtektarverð. Ef það er virkilega svo að prófessor í kynjafræði álítur beinharða peninga frá körlum inn á heimili kvenna ekki vera framfærslu, henni og börnum hennar til handa þá er innbyggð skekkja í öllum rannsóknarniðurstöðum viðkomandi fræðimanns sem ætlað er að varpa ljósi á stöðu kynjanna hvað tekjuskiptingu varðar. Ég afréð því að senda Þorgerði erindi og óska skýringa. Hafandi fengið hjá henni greinargóð svör við fyrri erindum var ég þess fullviss að hún tæki vel í erindi mitt að þessu sinni.

Upprunaleg fyrirspurn mín sem ég sendi þann 10. júní hljóðar svo:

„Sæl Þorgerður,

Ég er loksins núna fyrst að gefa mér tíma til að lesa skýrslu ykkar Gyðu Margrétar Pétursdóttur, Greining á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá kynjafræðilegu sjónarhorni, og rakst þar á fullyrðingu sem mig langaði að óska skýringa þinna á.

Á bls. 12 í word útgáfu skýrslunnar segir orðrétt: „Konur hafa almennt lægri tekjur en karlar og eru oftar einar framfærendur barna. Einstæðar konur með börn voru 15% fjölskyldna árið 2006“. 

Fjöldi einstæðra kvenna með börn hefur ekki breyst mikið eftir 2006 og er raunar enn um 15% árið 2010. Ég skoðaði tölur frá Innheimtustofnun Sveitarfélaga en skv. þeim greiddu 10.891 karlar meðlag með alls 18.753 börnum árið 2010. Sé miðað við fjárhæð einfalds meðlags, kr. 21.357,- nemur meðalfjárhæð meðlagsgreiðslna þessara tæplega 11.000 karlmanna kr. 37.290,- á mánuði. Ég held að það sé ekki óvarlegt að reikna með því að meðlagsgreiðendur greiði að meðaltali eitt og hálft meðlag þegar allt er tekið til. Þ.e. aukin meðlög, þátttaka í fata, læknis og tómstundarkostnaði o.þ.h. Ef það er rétt er meðalgreiðsla sem meðlagsgreiðandi greiðir inn á heimili barnsmóður kr. 56.000,- á mánuði burt séð frá því hvort konan búi ein eða með öðrum framfleytanda. Lágmarkslaun eru í dag um kr. 180.000 á mánuði en nettó meðlag upp á kr. 56.000,- jafngildir bruttó tekjum upp á c.a. kr. 100.000,-

Spurning mín er einföld; Er það virkilega svo að í heimi kvennafræðinnar sé ekki litið á beinar greiðslur karla inn á heimili kvenna sem framfærslu, jafnvel þó þessar greiðslur geti hæglega numið allt að 60% viðbót ofan á lágmarkslaun?

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Svarið barst mér svo þann 3. júlí eftir ítrekun af minni hálfu:

„Sæll Sigurður

Ég er ekki alveg viss um að ég skilji spurningu þína en ég skal reyna að svara. Þú spyrð:

„Er það virkilega svo að í heimi kvennafræðinnar sé ekki litið á beinar greiðslur karla inn á heimili kvenna sem framfærslu, jafnvel þó þessar greiðslur geti hæglega numið allt að 60% viðbót ofan á lágmarkslaun?“

Það er ekki þannig að til sé eitthvert endanlegt svar við því hvernig tilteknir hlutir séu „í heimi kvennafræðinnar“ (sem reyndar heitir kynjafræði eftir 1998). Kynjafræðin er þverfræðilegt fræðasvið með fjölmörg sjónarhorn og kenningaskóla eins og önnur fræðasvið.

Textinn sem þú vísar í byggist á opinberum gögnum Hagstofunnar og það liggja fyrir rannsóknargögn um það að konur séu oft einar framfærendur barna sinna. Þú segir í skeyti þínu að ekki sé „óvarlegt að reikna með“ að við meðlag karla bætist tilteknir fjármunir sem geti nemið hálfu meðlagi. Það má vel vera og kannski eru til einhverjar rannsóknir um það. Það eru líka til upplýsingar um að margir karlar borga ekki meðlag, sbr. þessa frétt frá 2010:

http://www.tr.is/tryggingastofnun/frettir/nr/118

Þessi klausa í skýrslunni snýst ekki um þetta, hins vegar er þetta vitaskuld áhugavert og mikilvægt í sínu samhengi.

Með vinsemd og virðingu,
Þorgerður Einarsdóttir“

Það eru nokkrar ástæður fyrir að ég var ekki sáttur við svar Þorgerðar að þessu sinni en augljósasta ástæðan er að spurningu minni var einfaldlega ekki svarað. Ég vildi fá að vita hvort Þorgerður sjálf liti svo á að meðlag teldist ekki framfærsla. Ég ítrekaði því fyrirspurn mína auk þess sem ég útskýrði lítillega helstu þætti varðandi meðlagsgreiðslur og innheimtu þeirra sem kynjafræðiprófessorinn var bersýnilega ekki meðvitaður um. Þetta gerði ég þann 21. júlí:

„Sæl Þorgerður og takk fyrir svarið.

Því miður hef ég kannski ekki gert mig nógu skiljanlegan. Ég biðst forláts og leyfi mér hér að gera aðra tilraun auk þess að leggja fram spurningar sem vöknuðu er ég las síðasta svar þitt.

Í svari þínu segir þú gögn benda til að margir karlmenn greiði ekki meðlag og vísar í því samhengi á frétt af vef Tryggingarstofnunar Ríkisins um vanskil meðlagsgreiðenda. Ég hef nú lesið fréttina en fæ ekki séð að nokkuð í henni fjalli um að menn greiði ekki meðlag, aðeins að meðlagsgreiðendur séu í vanskilum við Innheimtustofun Sveitarfélaga. Í þessu sambandi tel ég vert að benda á að:

 1. Tryggingarstofnun ríkisins greiðir ávallt meðlag til mæðra sem þess krefjast, óháð því hvort barnsfaðir greðir meðlagið eður ei.
 2. Innheimtustofnun Sveitarfélaga getur gert vinnuveitendum að draga meðlög frá launum meðlagsskuldara.
 3. Meðlög eru aðfararhæf og fjöldi karla hefur verið gerður gjaldþrota á grundvelli meðlagsskulda.
 4. Ísland hefur gert samning við margar nágrannaþjóðir um innheimtu meðlagsskulda, hafi meðlagsskuldari búsetu þar í landi.
 5. Þá fyrnast meðlagsskuldir aldrei, ólíkt mörgum öðrum skuldaflokkum.

En þá að spurningum mínum til þín:

Lítur þú svo á að meðlag teljist ekki til framfærslu eins og skilja má af orðum yðar og meðhöfundar, Greiningar á Rannsóknarskýrslu Alþingis frá kynjafræðilegu sjónarhorni, og að þar með sé kona sem þiggur meðlag eini framfleytandi barns síns og barnsföður í tölfræðigreiningu yðar?

Getur þú bent mér á þau gögn Hagstofunnar og þær rannsóknir sem þú segir benda til að konur séu oft einar framfærendur barna sinna?

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Þessu svarar, eða öllu heldur svarar ekki Þorgerður svo loks þann 18. ágúst eftir aðra ítrekun mína:

„Sæll Sigurður

Nú hef ég í tvígang svarað skeytum þínum með upplýsingum og ítarlegum útskýringum á því sem þú spyrð um. Í millitíðinni rekst ég á vefsíðu sem þú heldur úti um femínisma þar sem m.a. er vísað í mig. Þar eru ansi frjálslegar túlkanir á orðum sem ég hef látið falla á opinberum vettvangi og ekkert mið tekið því sem ég hef leitast við að skýra út í skeytum til þín. Ég spyr mig hver sé tilgangurinn með fyrirspurnum þínum þegar ekki er tekið mið af svörunum. Í ljósi þessa álít ég frekari samræður ekki þjóna vitrænum tilgangi en bendi þér á að leita upplýsinga á vef Hagstofunnar og hjá starfsfólki hennar. Bendi þér ennfremur á að bókasafnsfræðingar Landsbókasafns veita aðstoð við heimildaleit.

Kv. Þorgerður Einarsdóttir“

Þó það sé þessu óviðkomandi þá benti ég Þorgerði á að ég hefði skrifað eina færslu þar sem ég vísaði til orða hennar í fréttum sjónvarps. Sú færsla var gerð áður en ég fékk fyrsta svarið frá henni og því ekki hægt að segja að ég hafi ekki tekið mið af því sem hún skrifaði mér – sem reyndar gerði ekki annað en að staðfesta túlkun mína á orðum hennar í fréttunum hvort eð var. En það er annað mál. Í ljósi óánægju Þorgerðar með skrif mín og vitsmuni ákvað ég að birta svör hennar óbreytt og í heild sinni svo réttskólagengnir forréttindafemínistar gætu þá í hendingu séð í hverju villa mín liggur þó sjálfum sé mér fyrirmunað að sjá það.

Ekki veit ég hvernig Hagstofan eða bókasafnsfræðingar eiga að geta staðfest skoðanir Þorgerðar en það er augljóst af skrifum hennar að hún vill ekki gera það sjálf. Ég lít svo á að hún hafi með svörum sínum og skorti á svörum staðfest að hún lítur einmitt svo á að greiðslur karlmanna inn á heimili kvenna hreinlega teljist ekki til framfærslu jafnvel þó að í mörgum tilvikum bæti þessar greiðslur meira en helming ofan á ráðstöfunartekjur konunnar og að dæmi séu um að meðlag með einu barni slagi upp í kr. 100.000 á mánuði.

Þeir feður sem framfleyta börnum sínum í gegnum meðlög hljóta að vera ánægðir með það að samkvæmt fræðilegri skilgreiningu þá taka þeir víst ekki þátt í að framfleyta börnum sínum eftir allt saman.

SJ

, , ,

5 athugasemdir á “Kynjafræðiprófessor segir meðlög ekki framfærslu”

 1. Walter Says:

  Spurning þín til hennar er auðskilin að mínu mati. En eitthvað virðist vefjast fyrir henni að svara.

 2. Sigurður Jónsson Says:

  Velkominn og takk fyrir innleggið Walter.

  Já, mér fannst þessi framsetning hennar alveg verðskulda frekari athugun. Ef grunnforsendur mínar eru réttar eru þarna um 600 milljónir að flytjast á milli heimila í hverjum mánuði sem greiðendur ætla til framfærslu barna en í meðförum Kynjafræðiprófessorsins er bara eitthvað smotterí sem tekur því ekki að tala um.

  Mér finnst það skipta máli.

 3. Páll Says:

  Hvað ætli það taki mörg ár af kynjarannsóknum til að átta sig á að rúmur hálfur milljarður í vasa kvenna sé relevant breyta? Þetta er hrein fölsun hjá Þorgerði segi ég!

 4. Guðmundur Says:

  Það væri líka áhugavert að velta fyrir sér hvort kynið hefur meira fé til ráðstöfunar. Hærri laun karlmanna skýrast hugsanlega að huta vegna þess að þeir þurfa hærri tekjur, m.a. til að greiða meðlög eða framfærslu annarra einstaklinga en þeirra sjálfra.

 5. Sigurður Jónsson Says:

  Velkominn Guðmundur og takk fyrir innleggið.

  Já, þú ert ekki sá eini sem myndi vilja sjá rannsóknir á ráðstöfun tekna kynjanna. Merkilegt nokk, þá hef ég grennslast fyrir um slíkar rannsóknir en þær eru engar. Enn merkilegra er að fjölþjóðlegur hópur fræðimanna hefur lýst áhuga á að gera slíkar rannsókn hérlendis enn ekki fengið brautargengi hjá Rannsóknarstofu í Kvenna- og Kynjafræðum.

  RIKK virðist hafa meiri áhuga á rannsóknum er festa klassískar femínískar kenningar í sessi en að styðja við rannsóknir sem varpa ljósi á þætti í samspili kynja sem aldrei hafa verið skoðaðir.

%d bloggurum líkar þetta: