Bækur: The War Against Boys

11.11.2011

Bækur

The war against boys

Ég lét loks af því að kaupa og lesa bókina The War Against Boys eftir Christinu Hoff Sommers. Ég hafði lengi ætlað að gera það en ætli útgáfa Kynungabókar hafi ekki helst orðið til þess að ég lét loks verða af því enda er viðfangsefni Sommers í þessari bók einmitt hvernig forréttindafemínistar hafa komist til óeðlilega mikilla áhrifa innan bandaríska skólakefisins og innleitt þar breytingar, byggðar á hugmyndafræði á grundvelli rannsókna sem litlar eða engar stoðir eiga í raunveruleikanum þegar betur er að gáð. Sommers var mér ekki ókunn þegar ég hóf lesturinn en ég hef lesið talsvert eftir hana á netinu og áður skrifað um afbragðs góða bók hennar; Who Stole Feminism. Hún er fræðimaður og jafnréttisfemínisti sem sagði skilið við grasrótina þegar henni varð ljóst að barátta femínista var að umbreytast í andhverfu sína. Þessi bakgrunnur gerir hana einstaklega beitta í gagnrýni sinni á hugmyndafræði forréttindafemínista sem hún síðan setur fram á vandaðan og skilmerkilegan hátt.

Í bókinni leiðir hún lesandanum fyrir sjónir tilraunir femínista til að endurbæta drengi og uppeldi drengja í gegnum skólakerfið í Bandaríkjunum eftir áherslum sem yfirleitt lúta að því að bæla eðlilega hegðun og flokka hana sem óeðlilega. Það er óneitanlega sláandi að lesa hve langt forréttindafemínistar hafa náð í þessari viðleitni sinni. Sem fyrr beinir hún sjónum sínum að nafntoguðum forréttindafemínistum sem stöðu sinnar vegna hafa mótandi áhrif á þróun jafnréttismála. Stór hluti bókarinnar er þannig helgaður Carol Gilligan prófessor í kynjafræði við Harvard Háskóla sem tókst að markaðssetja hugmyndina um að raddir stúlkna „þögnuðu“ á unglingsárum sökum bælandi áhrifa karllægs skólakerfis. Kenningar Gilligan eru hraktar með sannfærandi hætti í bókinni og gott betur.

Það er þó ekki laust við að hárin rísið við að lesa hvað ýmist illa eða hreinlega órökstuddar hugmyndir geta öðlast viðurkenningu og náð að hafa mikil áhrif. T.a.m. eru rannsóknir Gilligan, af mörgum, enn álitnar hafa verið tímamótarannsóknir sem ættu að hafa mótandi áhrif á það hvernig skólakerfið kemur að mótun barna. Það ber meir og meir á því í íslensku samfélagi að forréttindafemínstar tali um eðlislæga galla karlmanna/drengja og nú sjáum við hvernig þessar hugmyndir eru gefnar út á kostnað skattborgara og beint að börnum í gegnum rit eins og Kynungabók.

Ég mæli hiklaust með þessari bók fyrir alla sem láta sig kynjastríðið varða og segi fullum hálsi að hún eigi sérstakt erindi við okkur nú.

Útgáfuár: 2000
Síðufjöldi: 213

SJ

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: