Þátttakendur óskast í íslenska vændisrannsókn

6.11.2011

Blogg

Hafi einhver hópur kvenna verið gerður ósýnilegur í umræðu um vændi og kynlífsþjónustu þá eru það frjálsar vændiskonur. Ég vil ljá þeim vettvang til að láta rödd sína heyrast ef þær eru þá á annað borð til og reiðbúnar að tjá sína hlið. Mig langar að heyra frá fyrstu hendi hvað starfandi eða fyrrverandi vændiskonum finnst um þá umræðu sem á sér stað um þær og þeirra störf, hvað þeim finnst um núverandi lagaumhverfi og þau viðhorf sem forréttindafemínistar hafa til þeirra.

Óskað er eftir konum til viðtals sem starfa við eða hafa einhverntíman starfað við vændi og/eða aðra kynlífsþjónustu í fullu starfi eða hlutastarfi og fundist þær hafa gert það á sínum eigin forsendum.

Rannsóknin fer þannig fram að þátttakendur þurfa að svara nokkrum spurningum annaðhvort skriflega eða í gegnum síma. Fyllstu nafnleyndar verður gætt og ekki verður gerð krafa um að þátttakendur gefi upp nafn eða aðrar persónuupplýsingar sem gefa til kynna hverjar þær eru. Niðurstaða rannsóknarinnar verður svo kynnt hér að henni lokinni í samandreginni skýrslu.

Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort frjálst vændi fyrirfinnst í íslensku samfélagi og heyra þá hvað frjálsar vændiskonur hafa um sína hagi að segja. Markmið rannsókarninnar er ekki að vera heildræn rannsókn á eðli vændisstarfsemi né heldur umfangi hennar.

Áhugasamir þátttakendur vinsamlegast sendi tölvupóst á netfangið: frjalst.vaendi.rannsokn@gmail.com

SJ

7 athugasemdir á “Þátttakendur óskast í íslenska vændisrannsókn”

 1. Einar Þór Says:

  Uhh, til hvers nákvæmlega? Ekkert af því sem kæmi fram í svona „self-selected“ úrtaki væri marktækt sem stöðulýsing eða hefði forspárgildi. Svona rannsókn væri alveg jafn vísindalega ómarktæk og „rannsóknir“ M.F. þar sem hún fór og pikkaði út illa farnar götuhórur til að sýna fram á að 70% vændiskvenna væri nauðgað og allar vildu hætta eða hvað það nú var. Eða „rannsókn“ Gail Dines um áhrif kláms sem hún framkvæmdi með því að tala við dæmda kynferðisbrotamenn um klámnotkun þeirra…

  Sorry en ég held að illa gerð „rannsókn“ sé verri en engin.

 2. Sigurður Jónsson Says:

  Ég geri mér fyllilega grein fyrir að rannsókn sem þessi verður engin tímamótarannsókn enda ekki ætlað að vera það. Henni er heldur ekki ætlað að vera stöðulýsing á vændismarkaðnum í heild sinni eða hafa nokkurt forspargildi. Hún er aðeins gerð til að kanna þá fullyrðingu femínista að frjálst vændi sé ekki til.

  Ef mér tekst að finna segjum 5 vændiskonur sem segjast frjálsar og tjá sig af fyrstu hendi um fullyrðingar femínista á borð við að viðskipti við þær séu borguð nauðgun þá finnst mér óhætt að segja að búið sé að hrekja þessa algengu fullyrðingu auk þess sem ég held að ég sé alls ekki einn um að vera forvitin um að heyra hlið þeirra kvenna sem mikið er talað UM en enginn talar VIÐ.

  Ertu ekki sammála því að það sé fyrst og fremst það hvernig niðurstöður rannsókna eru túlkaðar sem gerir þær slæmar eða góðar? Ég tek sem dæmi þegar femínistar ætla rannsókn sem byggist á viðtölum við fyrrverandi vændiskonur í einhverskonar kvennaskjólum að gefa heildræana mynd af vændi. Það eru rannsóknir sem eru sjálfsagt oft ágætar ef þær væru sagðar fjalla um þvingað vændi eða skuggahliðar vændis og þess væri getið að niðurstöðurnar endurspegli þetta þrönga úrtak.

 3. Einar Þór Says:

  Það var gefin út bók í fyrra „Hið dökka man“ sem lýsir ágætlega (amk að hluta) vændisbransanum á Íslandi. Þeir sem lýsa vændi sem „pjúra ofbeldi“ hundsa hana einfaldlega og allar aðrar upplýsingar og sjónarmið sem ekki henta, og sé ekki alveg af hverju svona „rannsókn“ myndi ekki bara vera „enn ein illa unnin og sennilega fölsuð áróðursbrella“, svo ég geri nú fólki upp skoðanir og viðbrögð 😉

  Bæði dönsku (http://www.altinget.dk/misc/Prostitution.pdf) og bresku (http://www.londonmet.ac.uk/fms/MRSite/Research/iset/Migrant%20Workers%20in%20the%20UK%20Sex%20Industry%20Policy-Relevant%20Findings2.pdf) skýrslurnar sýna svo ekki verður um villst að setningin „hamingjusama hóran er mýta“ er einfaldlega röng. Ég sé enga ástæðu til að vera að agnúast útí fólk sem ekki samþykkir staðreyndir, hvort sem það eru flat-earthers, sköpunarsinnar eða sjálfskipaðir kynjasiðapostular.

  Og nei, ég er alls ekki sammála því að túlkanir geri rannsóknir góðar eða vondar. Þær eru annaðhvort vel eða illa unnar punktur. Túlkanir þeirra geta aftur á móti verið góðar eða vondar, eins og að láta eins og valið eða „self-selected“ hlutmengi sé góður fulltrúi heildarinnar… well, við erum efnislega sammála hérna, nema um orðalagið 🙂

  Allavega, nauðungarvændi er vandamál, það er staðreynd. Ekki allar vændiskonur eru í nauðungarvændi, ansi hreint margar kjósa að gera þetta ótilneyddar og eru bara sáttar við djobbið, það er líka staðreynd. Raunveruleikinn er á einhverri kúrfu á milli þessara tveggja póla og mér finnst asnalegt að vera stöðugt að hamast á öfgunum í stað þess að skoða hvernig þessi kúrfa er í laginu.

  En hey, endilega safnaðu reynslusögum ef þú heldur að það bæti einhverju við… Ég bara held ekki að það sé gagnlegt fyrir einn eða neinn og verði ekki til að laga umræðuna á neinn hátt… YMMV

 4. Sigurður Jónsson Says:

  Ég yrði ekki hissa ef þetta yrði afskrifað sem fölsun og býst svosem beinlínis við því fyrirfram. Ég hugsaði ágætlega um þetta og veit ekkert hver útkoman verður. Það er vel hugsanlegt að engin svari og þetta falli því um sjálft sig en ég trúi því að umræðan sé af hinu góða og þar við situr. Ég er nú einu sinni bara aumur bloggari sjáðu 😉

  Þegar glímt er við jafn yfirlýsingaglaða þrýstihópa og forréttindafemínista þá reynist það nú létt verk og löðurmannlegt að afsanna staðhæfingar þeirra. Það getur verið þarft útaf fyrir sig þó ekki sé til annars en að halda uppi þeim vinkli. Af fenginni reynslu veit ég að mér mun aldrei takast að fá nokkurn forréttindafemínista til að skipta um skoðun á nokkrum sköpuðum hlut.

 5. Eva Hauksdóttir Says:

  Ef tilgangurinn er sá að gefa konum í þessum bransa tækifæri til að segja sína hlið, þá er kannski alger óþarfi að tala um rannsókn.

 6. Sigurður Jónsson Says:

  Hafið þið lesið eitthvað af eigindlegum kynjafræðirannsóknum? Ef þessi rannsókn þolir ekki aðferðerðafræðilegan samanburð við slík hávísindi þá skal ég bæði borða hattinn minn og loka þessari síðu.

 7. Eva Says:

  Kynjafræðirannsóknir eru ekki vísindi.

%d bloggurum líkar þetta: