Mér til undrunar virðast aðgerðir Stóru systur hafa vakið upp umræðu um ólík afbrigði vændis og það hvort eðlilegt sé að banna kynlífsviðskipti tveggja fullveðja og sjálfstæðra einstaklinga. Ég hélt að íslenskt þjóðfélag væri of lítið og of gegnsýrt af pólitískri rétthugsun til að umræða af því tagi gæti átt sér stað.
Það hefur nefninlega verið svo um langt skeið að forréttindafemínstar hafa stjórnað allri umræðu um vændi og matreitt ofan í okkur hina femínísku sýn á vændi. Sýnin sú er heldur nöturleg og engan skyldi undra að flestir ef ekki allir séu á móti vændi í þeirri mynd sem þar er dregin upp. Í stuttu máli má segja að forréttindafemínistar trúi, og krefjist þess að allir aðrir trúi, því að engin kona stundi vændi sjálfviljug og þegar karl greiði konu fyrir kynlíf sé það í eðli sínu nauðgun enda kunni konur sem stundi vændi ekki fótum sínum forráð af ýmsum ástæðum sem þær gera sér jafnan ekki sjálfar grein fyrir sökum heimsku eða sjúkleika.
Svo sterk er þessi sannfæring blóðheitra forréttindafemínista að þeir virðast trúa því að þetta sé hin eina sanna birtingarmynd vændis. Ég hef sjálfur fylgst með umræðum á póstlista Femínistafélags Íslands þar sem blaðaviðtal við konu sem sagðist vera sátt við starf sitt sem vændiskona var afgreitt sem uppdiktuð lygi spjótsveina feðraveldisins. Það að þekkja dæmi um konur sem hafa komið illa út úr vændi þykir, í femínískum kreðsum, jafngilda sönnun á að þannig sé það alltaf og undantekningalaust. Efist nokkur um það er þeim hinum sama, af mismikilli kurteisi, bent á að hann hafi bara ekki hlotið rétta fræðslu.
Það er þó sem betur fer til fólk sem þorir að taka upp hanskann fyrir konur sem starfa í kynlífsiðnaði og benda á að þar fari ekki bara konur með litla heila, eins og forréttindafemínstar virðast vilja að við trúum. Eva Hauksdóttir hefur á bloggi sínu verið dugleg að vísa í erlendar rannsóknir sem benda til þess að þær konur sem forréttindafemínistar vilja bjarga frá sjáflum sér kæri sig oft ekkert um þá hjálp og að sú hjálp sem þröngvað er upp á þær hafi oft síður en svo jákvæð áhrif á líf þessara kvenna. Ég bendi þá sérstaklega á færslur hennar „hvað varð um hórurnar“ og „Þegar stóra systir fær frekjukast“ og ágæta hugleiðingu Kristins á bloggi Andmenningar „Konur sem hata konur“.
Umræðan um gagn eða ógagn vændis- og kynlífsþjónustu verður ekki til lykta leidd hér en eftir því sem ég les meira af báðum pólum umræðunnar verður mér æ betur ljóst að það skortir sárlega aðgreiningu á vændi skv. skilningi forréttindafemínista annarsvegar og hinsvegar þeirra sem trúa því að það geti hvarflað að heilbrigðri konu að selja sig og hún svo gert það sér að skaðlausu.
- Frjálst vændi er nokkuð sem mér finnst ágætlega lýsandi fyrir vændiskonur sem hafa sjálfar valið að starfa við vændi og stjórna sér sjálfar í því.
- Þvingað vændi finnst mér svo jafn lýsandi fyrir vændi sem stafar af óeðlilegri neyð, mansali eða kemur á annan hátt til af einhverskonar þvingun þriðja aðila þar sem vændiskonan stjórnar ekki sjálf hvernig viðskiptum hennar er háttað.
Ef einhverskonar aðgreining sem þessi væri almennt notuð gæti umræðan orðið markvissari og gagnlegri. Ég hef aldrei séð eða heyrt nokkurn mann vera fylgjandi þvinguðu vændi skv. þessari skilgreiningu og ég hef heldur ekki séð femínista segjast vera á móti frjálsu vændi, aðeins uppfræða okkur hin um að það sé ekki til.
Ég ætla því að leyfa mér að fullyrða að nánast öll þjóðin, og meira að segja femínistar, gætu sammælst um löggjöf sem endurspeglaði þetta. Þ.e. að frjálst, milliliðalaust vændi sé leyfilegt en viðskipti með, og kaup á þvinguðu vændi væru ólögleg með öllu.
Svona er maður bjartsýnn.
SJ
31.10.2011 kl. 12:42
Ég er þér ósammála. Ef þeir feministar sem hafa stjórnað umræðunni á Íslandi, þ.e. forréttinda- og fórnarlambsfeministar (yfirleitt fer þetta tvennt saman) eru eitthvað líkir stöllum sínum í Svíþjóð og Noregi, munu þær aldrei samþykkja frjálst vændi. Jafnvel þær sem viðurkenna að frjálst vændi geti verið til, munu halda því fram að tilvist þess auki mansal (enda þótt ekkert bendi til þess að löggjöf hafi áhrif á hlutfall þess) og ofbeldi gegn konum (enda þótt ekkert bendi til þess heldur.)
Auk þess er ég því ósammála að vændi eigi endilega að vera milliliðalaust. Góður milliliður útvegar almennilega aðstöðu, tryggir öryggi starfsfólks og sér því fyrir heilbrigðisþjónustu, heldur uppi hreinlætisstandar, útvegar kúnna og losar fyrirtækið við þá sem hlýða ekki reglum. Ef kona sem ákveður að fara út í vændi er of fátæk til að koma sér upp góðri aðstöðu og á ekki kost á neinni aðstoð, liggur beinast við að fara út í götuvændi sem er mun áhættusamara. Hún þarf þá að fara ein með ókunnugum mönnum á staði sem þeir ákveða en það hefur sýnt sig að konurnar verða helst fyrir líkamsárásum og kynferðisofbeldi við þær aðstæður. Það hlýtur náttúrulega að vera skelfilegt að lenda í mellu“dólg“ en einmitt þessvegna á að lögleiða vændi sem og milligöngu, setja reglur um starfsemina og fylgja þeim eftir.
31.10.2011 kl. 20:04
Já þú segir nokkuð. Líklega var ég of bjartsýnn þarna. Það er allavega ekki erfitt að sjá fyrir sér að þær muni alltaf halda á lofti ósönnuðu samhengi milli frjáls vændis og mansals. Að ímynda sér femínistahreyfingu sem ekki er heit á móti öllu vændi og allri kynlífsþjónustu virkar jú frekar langsótt þegar maður hugsar það til enda.
Hinsvegar þætti mér einhverskonar aðgreining alveg vera til gagns. Þó ekki væri nema fyrir okkur hin. Umræðan tekur allt of oft á sig þá mynd að allir sem svo mikið sem leyfa sér að efast um gæði núverandi laga eru stimplaðir pervertar og nauðgaravinir sem eru fylgjandi mansali. Stjórnmálamenn eru annaðhvort sammála femínistum í þessum málum eða taka ekki afstöðu einmitt út af þessari skoðanakúgun. Ef almennt væri gerð aðgreining á frjálsu og þvinguðu vændi í einhverri mynd mætti kannsk ímynda sér að tillagan um almennt bann við vændiskaupum og auglýsingum hefði mætt einhverri mótstöðu. Varla sér fólk fyrir sér að bann við áfengi hefði runnið svona léttilega í gegnum þingið með þeim rökum að sumir neytendur gætu ekki drukkið sér eða öðrum að skaðlausu?
Athyglisvert sem þú bendir á með milliliðina. Að banna milliliði fannst mér kannski helst til þess fallið að skapa sátt við femínista þar sem þvingað vændi er, eðli málsins samkvæmt, aldrei milliliðalaust.
Ég fór allavega að hugsa um þetta þegar ég sá einhvern benda á finnsku leiðina á blogginu þínu. Hef reyndar ekki enn getað kynnt mér þau lög sjálfur og veit svosem ekki meir.