Enn á sér stað lífleg umræða um aðgerðir Stóru systur og er það vel. Ég er þó ekki viss um að umræðan hafi alfarið tekið þá stefnu sem hópurinn vildi. þetta sést m.a. á því að meðlimir hópsins og áhangendur hans hafa sagt umræðuna á „villigötum“ en það er algengt að forréttindafemínistar segi þetta um umræðu sem er þeim ekki að skapi og þá sérstaklega þegar þeir mæta málefnalegum mótrökum.
Eitt af því sem hefur verið rætt er hin svokallaða sænska leið og gæði hennar. Þ.e. sú leið sem löggjafinn hér á landi fór að fyrirmynd svía þegar kaup á vændi voru gerð ólögleg en sala þess lögleg. Þessi leið er mjög umdeild og raunar eru bara Ísland og Svíþjóð sem hafa kosið að fara þessa leið. Það er svo efni í aðra færslu en ég læt nægja að geta þess að margir hafa fært fyrir því sannfærandi rök að aðgerðir sænskra forréttindafemínista hafi kannski haft meira með trúarofstæki þeirra sjálfra að gera frekar heldur en að þær bæru hag vændiskvenna fyrir brjósti. Það er t.d. gert hér á bloggi Evu Hauksdóttur.
Gunilla Ekberg er sænskur forréttindafemínisti. Hún er stundum sögð höfundur sænsku leiðarinnar og hefur sem slík þegið boð til Íslands á vegum kvennasamtaka. Þá var Gunilla íslenskum yfirvöldum að einhverju leyti til ráðgjafar við setningu nýju vændislaganna um árið.
Hér sýnir þessi ráðgjafi íslensku ríkisstjórnarinnar, í örstuttu myndbandi, að huganlega er nokkuð til í því að eitthvað annað en takmarkalaus umhyggja fyrir konum ráði alltaf för hjá henni. Myndbrotið er tekið úr heimildamyndinni könskriget, sem ég einfaldlega get ekki hætt að mæla með og finnst að allir, sem á annað borð láta sig forréttindafemínisma varða, ættu að horfa á. Auk þess að vera hárbeitt ádeila þá hefur hún ótvírætt skemmtanagildi, jafnvel fyrir þá sem alla jafna nenna ekkert að spá í femínisma.
Gunilla fer hér ekkert í grafgötur með það að ungum konum geti reynst það skeinuhætt að vera á móti henni og vinkonum hennar í femínistahreyfingunni. Við skulum rétt vona að fréttakonan sem Gunilla bannfærði í lok myndbrotsins þurfi aldrei að leita hjálpar hjá hinum réttsýnu og algóðu sænsku femínistum.
SJ
28.10.2011 kl. 22:48
Norðmenn tóku líka upp þessa leið við mikinn ófögnuð vændiskvenna. Nú, tveimur árum síðar bendir margt til þess að það hafi verið mikil mistök. Ég kem inn á afleiðingar laganna í Noregi hér: http://www.norn.is/sapuopera/2011/09/dolgaloegin_og_afleiingar_eirr_1.html
29.10.2011 kl. 12:15
Takk fyrir ábendinguna Eva, ég var einmitt búinn að lesa þessa færslu hjá þér en gleymtdi Noregi af einhverjum ástæðum þegar ég skrifaði þessa færslu.
Norðmenn eru jú búnir að ganga enn lengra í þessum málum en við. T.d. er hægt að lögsækja norska ríkisborgara fyrir kaup á frjálsu vændi í öðrum löndum. Jafnvel þó það sé löglegt í viðkomandi landi.