Kynbundinn refsimunur í hnotskurn

9.10.2011

Blogg

Kynbundinn refsimunur er nokkuð sem femínistum hefur aldrei fundist tilefni til að vekja athygli á í kynjaorðræðunni. Ég er með vilta kenningu um ástæður þess; hún er að konur koma svo glimrandi vel út úr misskiptingu réttvísinnar að það geti varpað skugga á stífbónaðar kenningar femínista um kúguðu konuna, í feðraveldi sem hefur frá örófi alda nostrað við að móta samfélag sem í öllu tilliti gerði konur afturreka í samfélagi manna.

Fyrirbærið er alls ekki óþekkt þó mér sé ekki kunnugt um að því hafi verið gefið þetta heiti áður. Munur á ákærum og refsingum eftir því hvort brotamaður er karl eða kona, hefur verið rannsakaður ágætlega víða erlendis en eftir því sem ég best veit hefur aðeins verið gerð ein rannsókn á þessu hérlendis og var það einmitt fyrr á þessu ári. Jafnréttisiðnaðurinn gætti þess auðvitað að þegja þunnu hljóði þegar höfundur rannsóknarinnar, Helga Vala Helgadóttir kynnti niðurstöður hennar.

Nú í vikunni féll dómur í Hæstarétti sem leiðir okkur skýrt fyrir sjónir hvað kynbundinn refsimunur er og hvað það er sem veldur honum. Þá var ung kona dæmd fyrir að draga sér fé úr vösum skattborgara í starfi sínu hjá Utanríkisþjónustunni. Alls stal konan rétt rúmlega 50 milljónum króna á stuttu tímabili í starfi sínu fyrir sendiráði Íslands í Vínarborg. Ég rifjaði í þessu sambandi upp annan Hæstaréttardóm sem kveðinn var upp árið 2005 í Landssímamálinu svokallaða. Þá var aðalgjaldkerfi fyrirtækisins, sem á þeim tíma var í eigu allra landsmanna, dæmdur fyrir að draga sér 261 milljón króna úr sjóðum fyrirtækisins.

Í því máli hlaut ákærði, Sveinbjörn Kristjánsson, 54 mánaða óskilorðsbundinn dóm. Sendiráðsstarfsmaðurinn, Guðný Ólöf Gunnarsdóttir hlaut hinsvegar 24 mánaða dóm en þar af eru heilir 22 mánuðir skilorðsbundnir. Það þýðir að ef hún situr inni 2/3 fangelsisdómsins, svosem algengt er, mun Guðný ekki sitja inni nema í 40 daga. Setjum þessi tvö mál nú í samhengi:

  • Beinn fangelsisdómur Sveinbjörns er 54 mánuðir.
  • Beinn fangelsisdómur Guðnýjar er 2 mánuðir.
  • Miðað við að Sveinbjörn sitji af sér 2/3 refsingarinnnar, situr hann tæpa 36 mánuði bakvið lás og slá
  • Miðað við sama afplánunarhlutfall situr Guðný aðeins rétt rúmlega 1 mánuð af sér.
  • Frelsi Sveinbjörns er því metið á rúmlega 7 milljónir m.v. þá upphæð sem hann dró sér, deilt niður á þá 36 mánuði sem hann þurfti að sitja inni.
  • Frelsi Guðnýjar er aftur á móti metið á rétt tæpar 38 milljónir miða við sömu forsendur. Reyndar ber að taka fram að hagur Guðnýjar snarversnar ef hún þarf að sitja af sér allan dóminn (sem kannski verður raunin þar eð hann er svo helvíti stuttur hvort eð er) þá er frelsi Guðnýjar ekki metið á nema litlar 25 milljónir króna á mánuði.

Þegar við svo skoðum dóma í máli hennar, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti kemur í ljós að málsvörn hennar byggir að öllu leyti á „málsvörn veiku konunnar“. Þjófnaðurinn var auðvitað afleiðing af veikindum (spilafíknar) sem aftur stafa af því hversu erfitt líf hennar hefur verið. Sérstaklega er tekið fram að hún hafi misst kærasta sinn þegar hún var 19 ára (fyrir rúmlega áratug) og að hún hafi misst vinkonu sína vegna voðaverks. Þá er vikið að því að hún eigi eitt barn og sé ólétt af öðru þegar málið er rekið.

Ég man ekki til þess, og sé ekki í fljótu bragði, að gefinn hafi verið neinn sérstakur gaumur að mótlæti eða erfiðleikum í lífi Sveinbjörns sem vissulega hljóta að hafa verið einhverjir hjá honum eins og öllum öðrum. Hann átti þó þrjú börn þegar hann var dæmdur til refsingar en það var ekki virt honum til vorkunar við dómsuppkvaðningu. Um ákvörðun dómsins að skilorðsbinda nær alla refsingu Guðnýjar segir hinsvegar:

„Þegar allt framangreint er virt þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Við ákvörðun þess hvort skilorðsbinda eigi refsingu ákærðu hefur verjandi ákærðu vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 333/2003, en þar var refsing konu fyrir peningaþvætti og hlutdeild í stórfelldu fíkniefnalagabroti að öllu leyti skilorðsbundin. Fallast má á að aðstæður ákærðu og konunnar séu líkar að því leyti að ákærða á tæplega eins árs gamalt barn og annað á leiðinni“

Það að vísa til annars máls þar sem kona gengur frjáls frá glæp, sem karlmaður hefði aldrei gengið frjáls frá, finnst mér svo sína hvernig kynbundinn refsimunur, konum í hag, er kerfisbundinn og mun verða þar til eitthvað verður að gert. Af einhverjum ástæðum hef ég þó miklar efasemdir um að þær stofnanir sem ættu að láta sig málið varða, s.s. Jafnréttisstofa, muni nokkurntíman gera það. A.m.k. ekki á meðan slíkar stofnanir eru undir stjórn forréttindafemínista.

SJ

,

3 athugasemdir á “Kynbundinn refsimunur í hnotskurn”

  1. Gunnar Says:

    Magnað. Ég held að það sé líka stúdía hvað það er mikill munur á fjölmiðlaumfjöllun í svona málum efitr því hvort krimminn er kona eða karl.

  2. Eva Hauksdóttir Says:

    Ég skrifaði smávegis um refsimun og fórnarlambsfeminisma hér: http://www.norn.is/sapuopera/2011/06/fornarlambsfeminisminn_gengur.html

  3. Sigurður Jónsson Says:

    Velkomin Eva og takk fyrir innleggið. Já, þú skrifar akkúrat um það sem ég hnaut um þegar ég hlustaði á Helgu Völu í útvarpsviðtali. Eins ánægður og ég er að gerð hafi veri rannsókn á þessu hérlendis þá var ég ekki eins ánægður með túlkun hennar á niðurstöðunni.

%d bloggurum líkar þetta: