Kæra Halldóra Björt Ewen

5.10.2011

Blogg

Ég rakst nýlega á grein sem þú hafðir skrifað og sent til Morgunblaðsins undir fyrirsögninni „Femínistar hata karla“. Í greininni gerir þú tilraun til að hrekja nokkur atriði sem þú virðist álíta mýtur í kynjaumræðunni, einkum varðandi viðhorf karla til femínista og markmiða þeirra. Vitaskuld eru femínistar ekki einsleitur hópur en þar eð þú gerir enga aðgreiningu á femínistum í grein þinni þá tek ég því sem svo að þú ætlir engum hópum femínsta að falla utan þess ramma sem þú setur þeim.

Þú byrjar grein þína á að tala um tungumálið sem valdatæki. Þetta er áhugaverðar vangavelltur og ég skora á þig að kynna þér orðfæri jafnréttisumræðunnar í þessu tilliti. Láttu mig vita ef þú rekst á hugtak sprottið úr þeim ranni sem ætlað er að lýsa misrétti sem karlmenn verða almennt meira fyrir. Orðabók Jafnréttisstofu er gagnlegt viðmið. Þetta gætu verið hugtök eins og foreldrajafnrétti, umgengnistálmanir, kynbundinn dauðamunur eða kynbundinn refsimunur svo einhver dæmi séu tekin.

En þá að fullyrðingum þínum. Þú segir:

„Heyrst hefur: Femínistar hata karla. Rétt er: Femínistar berjast gegn því að karlar séu taldir merkilegri en konur aðeins og einvörðungu vegna þess að þeir eru karlar. Það hefur ekkert að gera með hatur eða ást“

Það er vitaskuld erfitt að setja fingur nákvæmlega á karlahatur og karlfyrirlitningu. Einkum er erfitt að fullyrða með nákvæmni hvar fyrirlitningu sleppir og hreint hatur byrjar. Mér hefur þó reynst best að setja sömu mælistiku á það og femínistar nota gjarnan sjálfir þegar þeir benda á meint hatur eða fyrirlitningu í sinn garð og kvenna. Þá finnst mér heldur ekkert úr vegi að minna þig á að femínistar þykjast fullfærir um að greina hatur og fyrirlitningu í sinn garð sjálfir, án allrar aðstoðar karlmanna. Ég held að ég tali fyrir fleiri karlmenn en bara mig sjálfan þegar ég afþakka aðstoð kvenna/femínista við að góðkenna upplifun mína á karlfyrirlitningu og hatri.

Hér eru nokkur dæmi um það sem ég álít vera til marks um karlahatur/fyrirlitningu samkvæmt ofangreindri skilgreiningu:

  • Í fyrrum réttarríkinu Íslandi gerðist það fyrr á þessu ári að maður var dæmdur sekur um kynferðisbrot án þess að fá réttarhöld á gundvelli laga sem femínistar tóku virkan og beinan þátt í að koma á. Hér er ég að vísa til Isavia málsins svokallaða. Bæði það að þetta skyldi geta gerst og það að nánast ekkert var um þetta fjallað eftir að dómur gekk, finnst mér vera til marks um djúpstæða og kerfisbundna karlfyrirlitningu í íslensku samfélagi. Allt annað var uppi á teningnum þegar samskonar mál kom upp á Landspítalanum þar sem meintur gerandi var kona. Sú fékk miskabætur eftir að vinnuveitandi færði hana til í starfi að beiðni þolanda.
  • Eftir að bankahrunið reið yfir okkur hafa femínistar verið óþreytandi við að halda því fram að það hafi dunið á okkur sakir eðlislægra ágalla karlmanna (sem að sjálfsögðu eru vondir). Nafntogaðir femínistar hafa hvað eftir annað komið fram opinberlega með þessar aðdróttanir sínar og látið að því liggja að hrunið hefði ekki orðið ef konur hefðu verið fleiri í stjórnunarstöðum en raun bar vitni. Í Kynjafræðilegri greiningu á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er meira að segja gengið svo langt að taka valdakonur eins og Valgerði Sverrisdóttur, fyrrv. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, út fyrir sviga þar eð þær hafi verið gagnteknar af „styðjandi kvenleika“, eins og það er orðað í skýrslunni, og þ.a.l. ekki færar um að bera ábyrgð á gjörðum sínum eða aðgerðaleysi. Talað er eins og karlmenn hafi lifað í eins konar „vakúmi“ þar sem ekkert skipti máli nema gróði þeirra sér til handa. Skv. þessum málflutningi báru þessir menn aldrei hag fjölskyldna sinna fyrir brjósti og virðast allir hafa átt konur sem höfðu engan atkvæðisrétt þegar kom að rekstri heimilisins í hinu víðara samhengi o.s.fv. Þetta þykir mér vera til marks um bæði hræsni og karlfyrirlitningu.
  • Annað ágætt dæmi um karlfyrirlitningu sem mig langar að benda þér á, kom fram þegar nýju jafnréttislögin voru sett árið 2008. Hinn þjóðþekkti femínisti, Kolbrún Halldórsdóttir, gagnrýndi þá harðlega að einu réttindasamtök sem segja mætti að væru karlréttindasamtök á Íslandi (Félag um foreldrajafnrétti), áttu í fyrsta sinn að fá að tilnefna fulltrúa til setu í Jafnréttisráði skv. hinum nýju lögum. Það er ekki úr vegi að benda á að á sama tíma mátt fjöldi kvenréttindasamtaka tilnefna fulltrúa sinn, þar á meðal hin öfgafullu samtök Femínistafélag Íslands. Svo mjög var Kolbrúnu niðri fyrir að hún líkti félaginu í þessu sambandi við fótboltaklúbb. Við hljótum að geta verið sammála um að þetta ber með sér bæði hroka og karlfyrirlitningu.
  • Þá finnst mér það vera til marks um karlahatur þegar þáverandi talskona Femínistafélags Íslands, Katrín Anna Guðmundsdóttir birti færslu á bloggi sínu um þumalputtaregluna. Í færslunni sagði hún hugtakið eiga rætur sínar að rekja til laga sem heimiluðu körlum að berja konur sínar með priki svo fremi að það væri ekki sverara en þumall hans. Þetta er gömul flökkusaga sem femínistar hafa haldið á lofti sem sannindum en á ekki við nein rök að styðjast eins og einföld heimildaskoðun leiðir í ljós. Erfitt er að sjá annan tilgang með útbreiðslu slíkra ósanninda en að vekja og viðhalda andúð og fyrirlitningu á karlmönnum.
  • Jólakort Femínstafélags Íslands er líka ágætt dæmi en eins og sjálfsagt margir muna þá óskaði enginn annar en Askasleikir sér að karlmenn hættu að nauðga. Eins og  flest venjulegt fólk veit þá eru það ekki karlmenn sem nauðga, heldur eru það nauðgarar sem nauðga og  nauðgarar geta verið af báðum kynjum. Klárt dæmi um karlfyrirlitningu að mínu mati.
  • Þá langar mig að nefna annað, sláandi dæmi um karlfyrirltningu en það er þegar femínisti stóð fyrir íslenskri þýðingu bókarinnar SCUM manifesto/Sori: Manifestó eftir Valerie Solanas árið 2009. Ef þú skyldir ekki vita það, þá er Solanas einkum þekkt fyrir tvennt; þetta rit og að hafa gert heiðarlega tilraun til að bana listamanninum Andy Warhol. Í ritinu mælir hún fyrir útrýmingu karlkynsins og fer á allan hátt ófögrum orðum um karlmenn sem hún segir skepnur og gangandi gervilimi (dildóa). Bókin var auglýst á póstlista Femínistafélagsins og uppskar ekki önnur viðbrögð en þau að varlega ætti að fara í að kynna bókina opinberlega sakir eldfims innihalds. Mér finnst það að upphefja Solanas, að gefa út íslenska þýðingu bókar hennar og það að enginn aðili að póstlista Femínistafélags Íslands skuli hafa svo mikið sem ýjað að því að upphefð Solanas gæti verið siðferðilega óviðeigandi, allt vera til marks um hreina og klára karlfyrirlitningu.

Þessi listi gæti verið óendanlegur, einkum og sér í lagi ef ég leyfi mér að leita dæma utan landsteinanna. Ég held þó að þetta sé ágætt en get þó ekki stillt mig um að benda þér á orð sjálfrar Hillary Clinton sem sagði opinberlega (á kvennaráðstefnu) að konur væru helstu fórnarlömb stríða þar sem þær misstu eiginmenn sína og syni í átökum. Nú eða ummæli Catherine Comins sem sagði að kalmenn hefðu stundum gott af því að vera ranglega ásakaðir um nauðgun og Robin Morgan, ritstýra Ms. Magazine sem sagði; „drepið feður ykkar, ekki mæður“. Eins gæti ég bent á lög í mörgum „siðuðum“ ríkjum sem gera það að verkum að konur ganga frjálsar frá því að myrða eiginmenn sína á grundvelli laga sem femínistar börðust ötullega fyrir.

Sem betur fer eru ekki allir blindir á fyrirlitningu femínista á körlum og treysta sér jafnvel til að gagnrýna það opinberlega. Ég tek sem dæmi, Jón Trausta Reynisson, ritstjóra DV en í leiðara rekur hann þrjú ágæt dæmi af íslenskum stjórmálakonum sem sýna af sér stæka karlfyrirlitningu, Svandísi Svavarsdóttur þegar hún talar um „eintóna kór karla“, Þorgerði Katrínu sem „neitar að taka skipunum frá miðaldra karlmönnum“ og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem segist vera „alveg að komast á suðupunkt yfir karlasamstöðunni í samfélaginu – innan flokka og fjölmiðla, milli flokka og milli flokka og fjölmiðla“ Allt þetta væri svo sannarlega túlkað af femínistum sem kvenfyrirlitning, væri dæminu snúið við.

Þá segir þú:

„Heyrst hefur: Femínistar vilja ekki jafnrétti heldur sérréttindi fyrir konur. Rétt er: Femínistar vita og viðurkenna að verulega hallar á konur í valdastöðum samfélagsins. Því vilja femínistar breyta og berjast fyrir sjálfsögðum rétti og réttindum kvenna til að jafna stöðu þeirra í samfélagi kvenfólks og karlfólks“

Það er einfaldlega ekki rétt hjá þér að femínistar berjist ekki fyrir sérréttindum fyrir konur. Kröfur femínista um sérréttindi til handa konum eru mörg og vel skráð. Dæmin eru líka gömul og ný, svo ný að þau ættu enn að vera í fersku minni allra þeirra sem láta sig jafnréttismál varða.

  • Lög ættu að geta talist góð heimild um sérréttindi enda vel skráð, eðli málsins samkvæmt. Lög um stórmeistaralaun eru dæmi um þetta. Þau eru þeirri ónáttúru gædd að kynbundinn launamunur konum í hag er þar leiddur út svart á hvítu. Í einfölduðu máli er hægt að segja að fyrsta konan sem stórmeistarlaun hlýtur, þarf ekki að hafa náð neinum alþjóðlegum viðmiðum í skáklistinni, aðeins að hafa sýnt iðkun hennar alvarlegan áhuga. Þær konur sem launa njóta eftir hina fyrstu, þurfa svo ekki að hafa lagt á sig nema um 70% þeirrar vinnu sem karlmenn þurfa til að hljóta sömu laun. Ef þú kynnir þér feril málsins á vef Alþingis muntu sjá að þessi sérréttindi til handa konum voru sett í lögin að áeggjan Jafnréttisráðs þess tíma sem var einmitt smekkfullt af femínistum. Þá er ekki úr vegi að minna á að að í c lið 1. greinar laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla segir að þeim sé ætlað „bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu“. Það veitir svo þeim er fella dóma á gundvelli laganna óskilgreint svigrúm til að túlka lögin konum í hag og á kostnað karla á meðan lögin lifa í núverandi mynd.
  • Þá ætti nú ekki að hafa farið framhjá þér að á fyrri hluta ársins fór af stað umræða um atvinnuleysi í kynjuðu ljósi. Öldur ljósvakans fylltust af femínistum sem fullyrtu  að atvinnuleysi væri að bitna verr á konum en körlum. Ekki ómerkari femínisti en Þorgerður Einarsdóttir, Prófessor í Kvennafræði, kom fram og gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir vanefndir með hliðsjón af markmiðum kynjaðrar hagstjórnar og mælti fyrir sértækum aðgerðum í þágu kvenna. Þá mátti lesa greinar frá öðrum launuðum femínistum á sömu nótum. Þegar þessar kröfur femínista voru settar fram voru karlmenn á atvinnuleysisskrá rúmlega þriðjungi fleiri en konur og höfðu verið í miklum meirihluta atvinnulausra allt frá hruni. Raunar kom fram önnur og athyglisverð túlkun á atvinnutölum kynjanna á svipuðum tíma, þegar mbl.is benti á að fleiri konur hefðu atvinnu eftir hrun en fyrir. Að þessu sögðu myndi ég segja að allar fullyrðingar um að konur beri hallan af hruninu, hlutfallsega meira en karlar, sem aftur réttlæti sértækar aðgerðir í þeirra þágu, séu ekki bara hjákátlegar út af fyrir sig heldur hrein krafa um sérréttindi til handa konum á kostnað karla.
  • Víkur þá máli að kvennastyrkjum og kvennalánum. Þrátt fyrir að atvinnuleysi meðal kvenna sé ekkert sérstakt vandamál eins og ofan greinir standa konum nú til boða ýmsir styrkir og lánaafurðir sem körlum stendur ekki til boða. Nægir þar að nefna kvennastyrki Byggðastofnunar og hinn ný endurreista Lánatryggingasjóð Kvenna, Svanna. Konur hafa með öðrum orðum rétt á að sækja um alla þá styrki og allar þær lánaafurðir sem körlum stendur til boða en meira til. Ég myndi segja að það flokkist undir sérréttindi þegar konur hafa greiðari aðgang að fjármagni en karlar og fjármagnskostnaður þeirra er niðurgreiddur af hinu opinbera (og þar með sköttum þeirra karla sem verða frekar að standa straum af óniðurgreiddum fjármagnskostnaði á sama tíma og þeim er gert að niðurgreiða lán til kvenna). Til gamans má líka geta þess að konur á Íslandi fengu þróunaraðstoð í formi niðurgreiddra lána sem Spron bauð upp á í samstarfi við Þróunarbanka Evrópu og Norræna fjárfestingabankann á því herrans ári 2007. Ekki veit ég hversvegna þurfti að niðurgreiða lán til kvenna sérstaklega þegar stærsta útlánabóla íslenskrar hagsögu var í hámarki á sama tíma en hitt veit ég að allt eru þetta dæmi um sérréttindi kvenna á kostnað karla.
  • Ef við höldum okkur aðeins við sérréttindi kvenna á atvinnumarkaði þá get ég svosem líka bent á að um 70% opinberra starfsmanna eru konur. Sé litið til heilbrigðisstéttar er hlutfallið 80% og í kennarastétt nær hlutfallið 90%. Miðað við harmkvæli þau sem heyrast frá femínistum þegar fram koma tillögur um niðurskurð á hjá hinu opinbera er kannski ekki að furða að opinberum starfsmönnum hefur ekki fækkað eftir hrun. Niðurskurður í formi uppsagna hjá hinu opinbera nefnist ekki lengur nauðsynlegar hagræðingaraðgerðir heldur „bakslag í jafnréttisbaráttu“ þökk sé femínistum og svo virðist sem ekki megi lengur hagræða hjá hinu opinbera vegna hás hlutfalls kvenna sem þar starfa. Þetta finnst mér vera til marks um óformlega sérréttindi kvenna sem heilt yfir njóta miklu meira atvinnuöryggis en karlar.
  • Þá sýnir mál Önnu Kristínar Jóhannsdóttur að það er ekkert grín að ráða ekki konu hjá hinu opinbera þrátt fyrir að þar séu konur fyrir í miklum meirihluta. Enn eitt dæmi um sérréttindi kvenna að mínu mati.
  • Þá hefur hugsanlega farið framhjá þér að sjálft Kvenréttindafélag Íslands ályktaði í tengslum við kvennakvóta í forvalsreglum Vinstri Grænna fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar að það væri „innborgun hreyfingarinnar á hina sögulegu skuld [og] kærkomið skref í átt að meira jafnræði kynjanna“. Þetta er ekki hægt að skilja á annan veg en að karlmenn í dag, skuldi konum vegna misréttis fyrri tíma (eins og formaður félagsins reyndar staðfesti í tölvupósti til mín) og engin ástæða til að ætla annað en að hin sögulega skuld hafi enn ekki verið gerð upp að fullu. Ef saga mannkyns er skoðuð með kynjagleraugum femínista má fullljóst vera að hin sögulega skuld verður ekki greidd upp að fullu á meðan þeir karlar sem nú draga andann eru enn á lífi. Þ.a.l. eigum við enn eftir að bíta úr nálinni með þau sérréttindi sem femínistum mun finnast réttlætanleg í ljósi téðrar skuldar en ég vil einmitt meina að óhætt sé að segja að stjórn Kvenréttindafélags Íslands samanstandi af femínistum.

Upptalningu á tilvikum þar sem konum eru tryggð sérréttindi gæti verið mun lengri en ég held að þetta nægi til að þú sjáir að fólkið sem þú beinir skrifum þínum til gæti haft eitthvað til síns máls.

Það síðasta í skrifum þínum sem mig langar að taka fyrir er svo þetta:

„Heyrst hefur: Femínistar vilja að konur fái störf karla bara af því að þær eru konur. Rétt er: Femínistar vilja að konur og karlar sitji við sama borð, alltaf. Þess vegna vilja femínistar ekki að konur fái ekki störf karla vegna þess að þær eru konur. Femínistar vilja að konur fái þau störf sem þær sækjast eftir þótt þær séu konur ekki vegna þess að þær eru konur. Margir karlar fá störf vegna þess að þeir eru karlar, hafið það í huga.“

Það er óþarfi að fjölyrða mikið um þetta þar eð mér finnst ég hafa hrakið þessa fullyrðingu þína mikið til hér fyrir ofan en til þess að það fari nú ekkert á milli mála hvað ég á við þá er ég að tala um forgang kvenna í störf hjá hinu opinbera og augljósa tregðu við að hagræða í rekstri hins opinbera vegna hás hlutfalls kvenna sem þar starfa. Þá vil ég líka nefna að fjölmörg dæmi eru um að femínistar hlíti ekki lögum um kynjakvóta í nefndir og ráð á vegum hins opinbera þegar þær nendir eiga að fjalla um jafnréttistengd mál. Eins furðulega og það hljómar sitja í þessum nefndum nafntogaðir femínistar sem hafa með virkum hætti barist fyrir kynjakvótum en virðast ekki láta það aftra sér í að þverbrjóta kynjakvótaákvæði jafnréttislaga þegar það hentar þeim sjálfum. Ef farið er ofan í saumana á þessum skipunum/ráðningum má einmitt sjá að þar eru konur að fá bitlinga einmitt vegna þess að þær eru konur. Hafðu það í huga.

Ég læt þetta nægja að sinni en ég vona að ég hafi náð að leiða þér fyrir sjónir hvernig samfélagið okkar birtist í gegnum kynjagleraugu karla, eða a.m.k. einhverra karla, og að hugsanlega sé heillavænlegra fyrir femínista að leggja betur við hlustir þegar gagnrýnisraddir heyrast en að afskrifa gagnrýnendur sem vitleysinga. Það er því miður allt of algengt að þeir sem gagnrýna femínisma séu sagðir ganga fyrir annarlegum hvötum.

Kær kveðja,
Sigurður Jónsson

,

7 athugasemdir á “Kæra Halldóra Björt Ewen”

  1. Gunnar I Says:

    Frábært, eins og vanalega!

  2. Kristinn Says:

    Mjög snjöll grein, Sigurður. Eða það sýnist mér amk. hef ekki tíma til að kafa ofan í allar sögurnar/hlekkina.

    Ekki veit ég svo sem í hvaða anda Halldóra Björt ætlaðist til þess að greinin væri lesin, en ef hún er hugsuð sem bókstaflegur sannleikur eru þetta náttúrulega mjög ónákvæmt og hreinlega undarlegt hjá henni.

    „rétt er“ í sífellu.

    Það rétta er að meðal femínista, rétt eins og meðal allra annarra hópa, leynast týpur af ýmsu tagi með ólíka sýn á réttmæti aðgerða og hvert markmiðið með þeim er.

    En kannski er þetta hugsað sem leiðbeinandi manifestó hjá henni og hún þannig að bregðast við því að það sé einmitt dálítið um það að femínistar hati karla eða sýni þeim stundum kostulega fyrirlitningu/andúð.

    Í þeim skilningi er hálfpartinn um enginn-sannur-Skoti rökvillu að ræða – þar sem þeir femínistar sem hegða sér eins og fífl eru bara ekki femínistar. En geti etv. orðið það ef þeir geta sýnt fram á að þeir falli að stefnuræðu Halldóru.

    Annars finnst mér það almennt til marks um hvað femínismi er oft á lágu plani að femínistar fullyrða ótrúlega margir að aldrei hafi þeir orðið varir við femínista sem séu sekir um að fara yfir strikið í neinum efnum. Þegar karlkyns femínistar fara með slíka leðju þykir mér sem einhver veira hljóti að hafa yfirtekið sjálfstæða hugsun þeirra – eða þeir helteknir af ofsatrú á málstað og markmið femínismans og það að sjá fylkingina í dýrðarljóma fullkomnunar í sjálfu sér liður í að tryggja sess hugmyndanna.

    En það að geta ekki horft gagnrýnum augum á eigin hugmyndafræði hlýtur nú að teljast með púkalegri afstöðum sem eru í boði.

    Heiðarlegir og dugandi femínistar eiga náttúrulega bara að fagna gagnrýninni umræðu og áminningum um það þegar aðgerðirnar eru hugsanlega farnar að skila sér í niðurstöðum sem stríða gegn hugmyndum um skilyrðislausan jöfnuð og réttlæti. Jákvæð mismunun í krafti sögulegrar skuldar eru t.d. gríðarlega loðin hugmyndafræði sem gæti farið út í tóma vitleysu. Af hverju ekki ræða þann vinkil við virka gagnrýnendur, femínistar?

    Heiðarleg umræða er málið – jafnvel fallegustu hugmyndir geta orðið skuggalegar í framkvæmd ef umræða er kæfð með einhverjum hætti, t.d. reiðilegri vandlætingu og viðkvæmni.

    mbk,

  3. Sigurður Jónsson Says:

    Takk Kristinn. Því miður tókst mér ekki að finna grein Halldóru á vef mbl og gat því ekki skellt inn tilvísun á hana. Ég fékk texta greinarinnar sendan á dögunum.

    Fyrir ekki löngu síðan sá ég haft eftir Prófessor Þorgerði Einarsdóttur að femínistar yrðu að taka túlkunarforræðið í sínar hendur þar sem það þrifist svo mikil vitleysa í umræðunni. Þessi orð lét hún falla á samkundu Femínistafélags Íslands, gott ef það var ekki síðasti aðalfundur. Undir slíku guðspjalli er kannski ekki skrýtið að margur femínistinn veðrist svolítið upp og telji sig hafa höndlað hinn eina og alltumlykjandi sannleika. Ég er þó ekki að ætla Halldóru það svo það komi skýrt fram en það fer leiðinilega mikið fyrir þessu viðhorfi hjá femínistum.

    Ég sendi Halldóru grein mína svo hún vissi af henni. Ég vona að þetta verði ekki afskrifað sem „hrútskýringar“ stælar, eða karlremba því ég vildi gjarnan heyra andsvör hennar.

  4. Kristinn Says:

    Já, það er hætt við því að þetta verði allt stimplað „hrútskýring“, sem varla getur talist annað en rökþrot og uppgjöf.

    En vonandi sér Halldóra Björt (eða skoðanasystkin) sóma sinn í að svara þessum bollaleggingum af einlægni – nú eða í það minnsta velta þeim fyrir sér af einlægni. Greinin stendur jú prýðilega þótt henni verði jafnvel ekki svarað.

  5. Gunnar Says:

    Ekkert svar enn? Er þessi grein of mikið bull til að vera svaraverð eins og alltaf þegar femínistar fá á sig málefnalega gagnrýni?

  6. Sigurður Jónsson Says:

    Við skulum ekki gera henni upp skoðanir Gunnar. Það má vel vera að hún svari enn. Þetta er náttúrulega heldur löng grein og viðamikil.

%d bloggurum líkar þetta: