Svanni – Lánatryggingasjóður Kvenna

24.9.2011

Blogg

Þá er uppvakningurinn kominn með nafn og enn fjölgar í flóru mismununar af betri gerðinni – jákvæðrar mismununar í garð karla.

Logo_SvanniÉg fjallaði um Lánatryggingasjóð kvenna í mars á þessu ári þegar samningar tókust með Velferðarráðuneytinu, Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og Reykjavíkurborg um endurreisn sjóðsins. Nú hefur verið tilkynnt um að sjóðurinn hafi formlega hafið starfsemi undir nafninu Svanni – Lánatryggingasjóður Kvenna auk þess sem tilkynnt var um að samningar hefðu náðst við Landsbanka Íslands um að ábyrgjast lán til kvenna á móti sjóðnum.

Í fréttatilkynningu sjóðsins segir:

„Svanni veitir lánatryggingar til kvenna með góðar viðskiptahugmyndir og er í samstarfi við Landsbankann um lánafyrirgreiðslu. Sjóðurinn veitir helming ábyrgðar á móti banka. Eingöngu verkefni/fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu konu/kvenna og undir stjórn konu/kvenna geta sótt um tryggingu […] Hægt er að sækja um lánatryggingu vegna eftirtalinna þátta: Stofnkostnaðar, markaðskostnaðar, vöruþróunar og nýrra leiða í framleiðslu eða framsetningu vöru/þjónustu“

Um tilefni endurvakningar sjóðsins segir:

„Verkefnið er liður í viðleitni stjórnvalda til að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar á Íslandi. Ennfremur hafa rannsóknir sýnt að konur eru síður tilbúnar að veðsetja eignir sínar en karlar og hefur það oft staðið verkefnum kvenna fyrir þrifum

Þetta þýðir að manneskja sem eru svo heppin að hafa fæðst sem kona getur í samstarfi við Svanna, fengið lán sem sjóðurinn og Landsbankinn ábyrgjast sameiginlega fyrir hana. Ólíkt karlmönnum sem enn verða að una við það að gangast í persónulegar ábyrgðir og/eða veita veð í fastafjármunum s.s. í fasteignum sem þeir hugsanlega hafa ekki yfir að ráða.

Fyrir bankann þýðir þetta svo að útlánaáhætta minnkar um helming þegar um skjólstæðinga sjóðsin er að ræða og þar af leiðandi er það helmingi auðveldara fyrir bankann að lána konu með fulltingi Svanna en það er fyrir bankann að lána ótýndum karlmönnum.

Íslenskar konur hafa nú rétt til að sækja um allar þær lánaafurðir sem karlar geta sótt um og meira til í nafni jafnréttis eins og það er skilgreint af forréttindafemínistum.

Bestu hamingjuóskir með það konur. Það er náttúrulega bara algjör frekja að ætlast til þess að þið veðsetjið eigur ykkar eins og menn þegar þið takið lán.

SJ

12 athugasemdir á “Svanni – Lánatryggingasjóður Kvenna”

  1. Kristinn Says:

    Þar sem femínistar hafna eðlismun á kynjunum hljóta þeir að telja varfærni kvenna við að veðsetja eignir vera félagslega áskapað einkenni, sem myndast hefur í skugga feðraveldisins og þetta því réttlætanleg „jákvæð mismunun“.

    Er það einhvern veginn svona sem þetta er réttlætt, haldið þið?

  2. Gunnar Says:

    Var einmitt að lesa um þetta jafnréttisskrípi. Rakst á þetta í skýrslu frá 2000:

    „Haustið 1997 tók Ríkisendurskoðun saman minnispunkta um sjóðinn þar sem gerð er athugasemd við þessa framkvæmd af hálfu ríkisins og er talið nauðsynlegt að annað hvor séu sett sérstök lög um sjóðinn“

    Áhugavert að velta fyrir sér hversvegna ekki hafi veri sett lög um sjóðinn þvert á ráðleggingar Ríkisendurskoðunar, kannski löggjafinn hafi ekki treyst sér til að keyra það í gegnum þingið???

  3. Gunnar Says:

    Einmitt Kristinn … er ekki allt skýrt með sömu rökum í þessari hugmyndafræði. Það verður að forða konum frá því að taka fjárhagslega áhættu á við karla þar sem feðraveldið hefur á einhvern hátt skipulagt sig þannig að konur eru ófærar um að taka áhættu. Kæmi mér ekki á óvart að skýringin hljómi einhvernveginn þannig.

  4. Sigurður Jónsson Says:

    Sæll Kristinn. Ég hef þegar sent fyrirspurn um tilvitnaða rannsókn. Það verður gaman að sjá hvað í henni segir. Ég geri mér ekki grillur um annað en hún sé enn eitt innleggið í fórnarlambavæðinguna og sjálfsagt er hún byggð á veikum grunni eins og annað í þessu.

    Gunnar, getur þú sent mér skýrsluna sem þú talar um?

  5. Gunnar Says:

    Ekki málið, hérna er þetta. Úttekt á starfi sjóðsins sem gerð var 2000 af Vinnumálastofnun: http://www.vinnumalastofnun.is/files/%7B97a0beb3-2afe-4f61-b8b9-095266784f89%7D_uttekt.pdf

    Ég fann textan um réttlætinguna fyrir stofnun hans. Við vorum greinilega á réttum slóðum með þetta:

    „Vinnuhópurinn komst að þeirri niðurstöðu að þörf væri á að hvetja konur til reksturs fyrirtækja og atvinnusköpunar og mikilvægi stofnunar lánatryggingasjóðs fyrir konur í því sambandi.

    Fyrir þessu eru færð ýmis rök. Má þar nefna að konur standa almennt ver að vígi en karlar þegar litið er til atvinnu- og tekjumöguleika, atvinnuleysi bitni frekar á konum en körlum, tekjur kvenna séu lægri og að konur sem hafa stofnað og reka eigin fyrirtæki séu hlutfallslega fáar miðað við karla. Í því sambandi er nefnt að konur eru hræddari við að taka fjárhagslega áhættu en karlar og þær eru tregari til að veðsetja heimili sín til að fjármagna atvinnurekstur.

    Svo virðist sem konur hafi ríkari tilhneigingu en karlar til að hafa fjárhagslega hagsmuni og öryggi barna og fjölskyldunnar í heild að leiðarljósi og það endurspeglast í þessari afstöðu til veðsetningar heimilisins. Einnig er nefnt að konur sem ætli sér að hefja sjálfstæðan atvinnurekstur mæti ýmsum hindrunum umfram karla þegar þær leita eftir bankalánum, einkum vegna þess að þær eigi erfiðara með að veita veð þar sem þær séu í mörgum tilvikum ekki þinglýstir eigendur eigna“

  6. Sigurður Jónsson Says:

    Áhugavert. Í vinnuhópnum sátu tveir kennarar og borgarritari. Þessar niðurstöður eru væntanlega fengnar með mjög vísindaleri nálgun. Það kemur í ljós þegar ég fæ skýrslu hópsins í hendurnar.

    Svo má náttúrulega segja að karlar standi verr að vígi en konur í dag varaðandi atvinnumöguleika og þar með tekjumöguleika. Atvinnuleysi er sannarlega mun meira vandamál hjá körlum en konum og hefur verið allt frá hruni. Svo hugsa ég að þeim körlum sem hafi eignir með veðrými hafi snarfækkað eftir hrun og jafnvel meira en konum.

    Við hljótum þá að sjá Lánatryggingasjóð karla líta dagsins ljós bráðlega.

  7. Páll Says:

    Það hefði gjarnan mátt koma fram ríkisábyrgð þessi leiðir líka til þess að bankinn getur sætt sig við minna áhættuálag sem leðir til lægri fjármagnskostnaðar fyrir konur en karla í sambærilegri stöðu.

    Svo er spurning með samkeppnissjónarmið. Ef karl og kona stofna samskonar fyrirtæki þá leiðir þessi lægri fjármagnskostnaður til þess að fyrirtæki konunnar hefur forskot á fyrirtæki karlsins í samkeppninni.

  8. Guðmundur Says:

    Ég er hlynntur jafnrétti en ef þetta mál er í alvöru svo einfalt að konur fá lán án þess að leggja nokkuð að veði en karlar þurfa veð, þá er þetta bara ótrúlegt ójafnrétti í sinni grófustu mynd. WTF…

  9. Sigurður Jónsson Says:

    Velkominn Guðmundur og takk fyrir að leggja orð í belg. Ég vona að allir sem skoði þennan vef séu jafnréttissinnaðir. Ég er það sjálfur en þessi ríkisrekni sjóður er eitt af fjölmörgu sem misbýður réttlætis- og jafnréttiskennd minni í dag.

  10. Guðni Says:

    Ég ætla að sækja um lán með sömu möguleikum, og ef ég fæ það ekki þá fer ég í mál við þá.

  11. Sævar Says:

    Af hverju stofna menn fyrirtæki? Til að reyna að skapa sér tekjur. Tekjurnar nota þeir til að lifa af og fæða fjölskyldu sína. Sumir menn eru nauðbeygðir til að leggja heimili sín undir til að freista þess að skapa sér tekjur, þ.e. taka lán með veði í heimili sínu til að stofna fyrirtæki. Samkvæmt tilvitnuðum rannsóknum eru karlmenn semsagt frekar í því að stofna heimili sínu í hættu til að freista þess að draga björg í bú en konur. En í stað þess að reyna að styðja við örvæntingarfulla karla jafnt sem konur til að þau geti lifað af, þá á einungis að styðja konur, sem nú þegar virðast vera í betri aðstöðu, þ.e. þær virðast sjaldnar þurfa að leggja heimili sína að veði. Er ekki eitthvað öfugt við þetta? Þetta er svona álíka vitlaus rökfræði og að fólki sem byggi í steinhúsum væri boðin ríkisaðstoð við að efla brunavarnir sínar meðan fólk í timburhúsum fengi enga.

  12. Sigurður Jónsson Says:

    Velkominn Guðni og takk fyrir innleggið. Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta fer hjá þér. Leyfðu okkur endilega að fylgjast með.

    Sævar, velkominn og takk fyrir þitt innlegg. Já, þetta er vitaskuld arfavitlaust hvernig sem á það er litið. Þá má líka benda á að skv. öðrum femínískum rannsóknum skila fyrirtæki kvenna betri arðsemi en fyrirtæki karla. Ef það væri rétt þá hafa kvennafyrirtæki líka minni lánsfjármögnunarþörf en karlafyrirtæki.

    Ekki það, ég hef svosem takmarkaða trú á þeirri rannsókn líka, svona í ljósi þess að í hvert sinn sem ég kíki á forsendur að baki ályktunum forréttindafemínsita þá sé ég eitthvað verulega gruggugt. En áhugaverð þversögn engu að síður.

    Svo virðist forréttindafemínistum vera það tamt að taka tekjur karla og eignir út fyrir sviga með tilliti til eiginkvenna og fjölskyldna. Svona eins og karlar lifi í einhverju tómi og telji sig ekki bera neinar skyldur gagnvart fjölskyldum sínum.

%d bloggurum líkar þetta: