Satanískar fórnir á börnum í Svíþjóð

7.9.2011

Blogg

Ég veit ekki almennilega hvers vegna, en forréttindafemínistar virðast vera útsettari fyrir vænisýki en öðru fólki. Við höfum þegar skoðað nokkur tilvik þar sem þessi vænisýki grípur um sig í femínískum kreðsum og getur af sér ályktanir, áskoranir og átaksverkefni til þess eins að eltast við vindmyllur. Nú ætlum við að skoða hreint lygilegt mál sem um tíma skók samfélag nágranna okkar, svíja og sýnir vel hvað það getur verið varhugavert að taka mark á fólki sem gefur sig út fyrir að vera jafnréttisbaráttufólk en er í raun bara drifið áfram af hatri á karlmönnum.

Sænskur metródjöfull

Sænskur karlmaður, meira að segja svolítið metró

Það var upp úr 1990 sem bera fór á þrálátum orðrómi um að í sænsku samfélagi væri að störfum leynilegt samfélag djöfladýrkenda sem m.a. stunduðu kynferðislega misnotkun og fórnir á konum og börnum allt niður í fósturstig. Upphafið er almennt rakið til ásakana ungrar konu í sænsku borginni Umeå en hún sakaði foreldra sína og 20 aðra um að hafa misnotað sig kynferðislega, oft sem hluta af satanískum helgiathöfnum. Sumir þeirra sem unga konan ásakaði sinntu áhrifastöðum innan hins opinbera og þar var m.a. einn dómari nefndur til sögunnar. Meðal þess sem stúlkan ásakaði foreldra sína um var gera sig og systur sína út til vændis í kynlífsklúbbum, að hafa haldið ungum stúlkum föngnum, barnað þær og skorið fóstrin úr móðurkvið á meðan þær voru enn lifandi og étið. Öll hinna kærðu voru síðar sýknuð eftir að alvarlegir ágallar fundust á málflutningi stúlkunnar og læknisskoðun leiddi m.a. í ljós að hún var enn með órofið meyjarhaft.

Eins og forréttindafemínista er siður, trúðu þeir að sjálfsögðu ekki á sakleysi fólksins enda líta forréttindafemínistar að á ásökun um kynferðisbrot sé fullgild sönnun fyrir sekt, að því er virðist óháð öllu öðru. Í huga sænskra forréttindafemínista var þetta gott dæmi um að réttlætið hefði ekki náð fram að ganga og var sýknun álitin til marks um eitt stórt samsæri sem þrifist í skjóli feðraveldisins, samsæri hátt settra djöfladýrkenda sem níddust á börnum og átu en slyppu svo undan réttvísinni í krafti þeirra valda sem embætti þeirra, kyn og störf veittu þeim innan feðraveldisins.

Kaflaskil urðu svo þegar Félags- og kynjafræðiprófessorinn Eva Lundgren, við Háskólan í Uppsölum, ásamt samtökum um kvennaathvarf í Svíþjóð (Riksorganisationen för kvinnojourer och tjejjourer i Sverige – ROKS) stigu fram fyrir skjöldu og staðfestu, á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar, að um raunverulegt vandamál væri að ræða. Umræðan varð faraldurskennd og umfang leynisamtakanna sem níddist á og borðaði börn varð að sögn fagaðila svo mikið að varla var hægt að tala um þá sem þetta stunduðu sem jaðarhóp. M.a. lýsti Eva Lundgren þessu meini sem hinu dulda hjarta menningarinnar. Lögð var sérstök áhersla á að meðlimir þessarar leynireglu litu út fyrir að vera venjulegir menn í venjulegum störfum sem síðan fremdu þessi voðaverk jafnvel í næsta bílskúr eða hótelherbergi á annars kyrrlátum kvöldum um gervalla Svíþjóð. Prófessor Eva Lundgren lagði í málflutningi sínum sérstaka áherslu á að þetta væri ekki annað en óumflýjanlegt einkenni á hinu alltumlykjandi feðraveldi. Það var sjálfsagt ekki síst vegna þess hve stór og almenn þessi leyniregla átti að vera sem engum böndum virtist á hana komið. Meðlimir hennar sæju til þess í krafti embætta sinna og starfa við helstu valdastofnanir landsins, s.s. lögreglu, dómstóla o.s.fv., að allar tilraunir til að uppræta þau væru kæfðar í fæðingu.

Fjallað er ítarlega um þetta mál í heimildamynd fjölmiðlakonunnar Evin Rubar, Könskriget (Kynjastríð) frá árinu 2005. Myndin byrjar á sjónvarpsupptöku þar sem sjá má Prófessor Evu lýsa þessum leynisamtökum og fórnum þeirra af furðanlega miklu innsæi. Í útsendingunni lýsir hún því að heldri borgarar og áhrifamiklir einstaklingar í sænsku samfélagi, sem þessu leynisamfélagi tilheyrðu, stunduðu fórnirnar m.a. með því að skera fóstur úr móðurkvið og deyða þau. Forréttindafemínistinn knái gerði raun gott betur og gaf út bók þar sem þessu dulda hjarta menningarinnar var lýst af hryllilegri nákvæmni. Í bókinni lýsir Eva hvernig konur eru barnaðar nauðugar viljugar í þeim tilgangi að fórna þeim og fóstrunum sem þær báru. Konum eru gefin svefnlyf svo hægt sé að skera fóstrin úr kvið þeirra og fórna þeim. Þá voru fóstrin hengd upp á kjötkróka, skorin lifandi og jafnvel gefin efni sem ollu því að þau sprungu. Tilganginnn, sagði Eva, vera að viðhalda æsku, öðlast aukinn kraft eða völd til handa þeim er fórnirnar frömdu til heiðurs Satan. Aðspurð sagðist Eva Lundgren sjálf hafa rætt við fjölmörg fórnarlömb sem lifðu af samskipti sín við þessa leynireglu. Svo mörg að hún treysti sér ekki einu sinni til að segja hve mörg hundruðin væru – hvorki meira né minna.

Svipaða sögu er að segja af þáverandi formanni ROKS, Ireen von Wachenfeldt sem í myndinni lýsir athöfnum þar sem fram fóru fórnir á börnum af slíkri nákvæmni að ætla mætti að hún hefði verið viðstödd. Þeir sem framkvæmdu hina satanísku fórn og misnotkun á börnunum voru t.a.m. sagðir klæddir á tiltekin hátt auk þess sem hún treysti sér til að segja í hvaða andlega tilgangi fórnirnar voru gerðar. Þá staðfesti hún að bæði hún sjálf og velflestir starfsmenn ROKS hefðu höndlað með eftirlifandi fórnarlömb þessara djöfladýrkenda.

Eins og svo oft áður þegar kenningar forréttindafemínista og kynjafræðinga eru annarsvegar var aðeins eitt minniháttar praktískt vandamál við málflutninginn. Fyrir honum reyndist ekki vera flugufótur. Aldrei nokkurntíman hafði fundist lík fórnarlamba þessarar hreyfingar og fjöldi kvenna og barna sem týnst hafði í Svíþjóð og ekki fundist, gaf alls ekki til kynna að þessi málflutningur ætti við rök að styðjast. Þá eru sjálfsgt allir nema einstaka forréttindafemínisti sammála því að mál ungu stúlkunnar í Umea, sem varð kveikjan að þessum móðursýkifaraldri, hafi kannski verið annarskonar harmleikur en í fyrstu var talið. Í áðurnefndri heimildamynd má sjá hvernig Ireen von Wachenfeldt bregst við þegar spyrill beinir þeirri spurningu til hennar hversvegna aldrei nokkurntíman hefði fundist lík fórnarlamba þessarar hreyfingar. Hún fyllist einfaldlega óstjórnlegu áhugaleysi á málefninu, svo miklu að hún nennir bara ekki að tala um það lengur.

Þetta mál er ágætt dæmi um það hvernig forréttindafemínistar beita kerfisbundið rangfærslum til að afla málstað sínum fylgis og hvernig stofnanir femínista nota skattfé til að sannfæra sig og aðra um það sem ekki er rétt. Einkum ef það stuðlar að aukinni karlfyrirlitningu. Þetta mál sýnir einnig að öfgafullur og oft á tíðum brjálæðislegur málflutningur af þessu tagi einskorðast ekki bara við unga róttæklinga heldur nær þessi tilhneyging upp á efri hæðir virtra ríkisstofnana, s.s. Háskóla og til forréttindafemínista sem gegna áhrifastöðum fyrir hönd skattborgara. Það sem er þó kannski mest sláandi við þetta tilvik er að það sýnir hvað hugmyndir, sem hljóta náð í heimi forréttindafemínista geta í raun verið óendanlega fjarstæðukenndar.

Það sem er jákvætt við þessa sögu, og mikilvægt er að komi fram, er að það voru konur sem hvað mest komu að því að fletta ofan af þessu samsæri forréttindafemínista og það voru konur annara kvennaathvarfa og kvennasamtaka sem veittu mikilvægar upplýsingar sem leiddu í ljós annarlegan tilgang ROKS. Bæði Eva Lundgren og ROKS fengu harða gagnrýni í Könskriget frá öðrum konum og femínistum. Það sýnir að til er heilbrigður femínismi og óheilbrigður femínismi.

Eftir að Könskriget var sýnd í sænska ríkissjónvarpinu réðust yfirvöld í gagngera endurskoðun á umboði ROKS sem síðar leiddi til þess að dregið var úr opinberum fjárframlögum til samtakanna. Um þriðjungur styrktarmeðlima ROKS sögðu sig frá samtökunum í kjölfar gagnrýninnar og málið í heild leiddi til þess að formaður samtakanna, Ireen von Wachenfeldt, sagði af sér formennsku. Þá tók Háskólinn í Uppsölum sig til og rannsakaði fræðistörf Evu Lundgren sem leiddi síðan til þess að fjárframlög til hennar voru skorin niður auk þess sem nefnd sem kynnti sér fræðistörf hennar gerðu alvarlegar athugasemdir við aðferðafræðilega nálgun hennar. Það var svo loks á þessu ári sem Eva sagði stöðu sinni svo lausri og hafði um það þau orð að Háskólinn hefði ekki staðið sig sem skyldi að endurreisa mannorð hennar sem beið verulega hnekki vegna flökkusögunnar sem hún blés sjálf lífi í.

Myndina Könskriget geta áhugasamir bráðlega nálgast hér á blogginu með enskum texta.

SJ

, , , , ,

3 athugasemdir á “Satanískar fórnir á börnum í Svíþjóð”

  1. Gunnar Says:

    Þetta er sennilega það alótrúlegasta sem ég hef séð úr heimi femínisma. Hlakka til að sjá myndina. Þegar ég gúgglaði hana þá fann ég hana bara ótextaða.

  2. Kristinn Says:

    Hún er til á Youtube með texta. Bara ýta á cc takkann fyrir neðan gluggann.

  3. Gunnar Says:

    Takk Kristinn. Ég horfði á myndina seint í gærkvöldi. Gat bara ekki hætt fyrr en hún var búin. Þetta er með því ótrúlegra sem maður hefur séð!

%d bloggurum líkar þetta: