Í mars á þessu ári tók ég fyrir innsenda grein sem birtist í Fréttablaðinu þá stuttu áður. Greinin, „Kynleg kynjuð fjárlagagerð“ var eftir Þórveigu Þormóðsdóttur sem skrifar undir hana sem Formaður Jafnréttisnefndar BSRB.
Þetta var á sama tíma og stórfurðuleg umræða átti sér stað í samfélaginu um að konur ættu svo mikið meira bágt en karlar andspænis áhrifum kreppunnar. Fremstu launuðu forréttindafemínistar landsins ruddust hver um annan þveran í fjölmiðla og bentu á að konur væru að verða verr úti í kreppunni en karlar. Velferðarráðuneytið lét ekki sitt eftir liggja og gaf út skýrslu sem innihélt sömu rangfærslur.
Gallinn við þennan málflutning Þórveigar var bara sá að fullyrðingar hennar komu ekki heim og saman við opinberar upplýsingar. T.d. mátti um svipað leyti lesa úr upplýsingum frá Vinnumálastofnun að fleiri konur hefðu vinnu eftir hrun en fyrir, sem hlýtur náttúrulega að gera allt tal um að konur séu að koma verr undan vetri en karlar hjákátlegt í besta falli. Ég sendi Þórveigu því eftirfarandi erindi:
„Ágæta Þórveig Þormóðsdóttir,
Í aðsendri grein yðar „Kynleg kynjuð fjárlagagerð“ sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi.is þann 1. mars sl. vaktir þú athygli áhrifum hagstjórnaraðgerða núverandi ríkisstjórnar m.t.t. jafnréttis kynjanna. Þar eð þú ert ritar undir greinina sem formaður jafnréttisnefndar BSRB og vitnar í ályktanir BSRB og jafnréttisnendar bandalagsins, ætla ég að hér sért þú að lýsa bæði þinni afstöðu svo og afstöðu nefndarinnar til málsins.
Í greininni vitnar þú í ályktun Jafnréttisnefndar BSRB frá árinu 2009 og segir m.a:
„Í júní 2009 sendi jafnréttisnefnd BSRB frá sér ályktun þar sem nefndin hafnaði atvinnustefnu á kostnað kvenna. […] Ástæðan fyrir ályktuninni var sú að starfsfólk innan velferðarkerfisins er í yfirgnæfandi meirihluta konur og samdráttur þar bitnar því harkalega á kvennastéttum. Í ályktuninni segir enn fremur að mikilvægt sé að stjórnvöld grípi til atvinnuskapandi aðgerða. Atburðarásin mætti hins vegar ekki verða sú að kvennastéttum sé ýtt út af vinnumarkaði við fjármögnun verkefna til að skapa ný störf fyrir karla. Sú hefur því miður orðið raunin […] Í svari [Velferðar]ráðherra kom fram að 92 konur muni missa störf sín alfarið vegna niðurskurðar í fjárlögum 2011 og 15 karlar. Þá muni 75,6 stöðugildi kvenna sæta skerðingu á starfshlutfalli á móti 11,1 stöðugildi karla“.
Í niðurlagi greinarinnar segir svo:
„Niðurskurður í velferðarkerfinu gengur því þvert gegn yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Uppsagnir af þessu tagi koma verst niður á láglaunuðum kvennastéttum […] Að grípa til uppsagna þar [í velferðarkerfinu], með tilheyrandi lokunum, gengur því þvert á markmið ríkisstjórnar um samþættingu jafnréttissjónarmiða við almenna fjárlagagerð. Þar er frekar kynleg hagstjórn og fjárlagagerð á ferð“.
Eftir lestur greinar þinnar kannaði ég annarsvegar nýjustu aðgengilegu atvinnuleysistölur þegar grein þín var skrifuð og hinsvegar nálgaðist ég nýjustu aðgengilegu upplýsingar um fjölda opinberra starfsmanna (starfsmanna ríkis og bæja).
Skv. upplýsingum frá Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga og Fjármálaráðuneytinu eru fjöldi opinberra starfsmanna og kynjaskipting þeirra sem hér segir:
Opinberir starfsmenn (alls) 41.042.
Þar af konur 28.254 eða 69% allra opinberra starfsmanna.
Þar af karlar 12.788 eða 31% allra opinberra starfsmanna.Skv. upplýsingum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysi sem hér segir:
Atvinnulausir (alls): 14.873.
Þar af konur 6.329 eða 43% allra atvinnulausra.
Þar af karlar 8.544 eða 57% allra atvinnulausra.Í ljósi kyngreindra talna um fjölda opinberra starfsmanna og atvinnulausa langar mig að beina eftirfarandi spurningum til þín sem formanns Jafnréttisnefndar BSRB:
- Í tilvitnuðu svari ráðherra kemur fram að konur sem missi störf eða þoli skert starfshlutfall vegna niðurskurðar í fjárlögum fyrir 2011 séu alls 167 en karlar 26. Þetta þýðir fækkun meðal kvenkyns opinberra starfsmanna um 0,6% en 0,2% hjá körlum sem aftur þýðir að hlutfallsskipting karla og kvenna af opinberum starfsmönnum verður því sem næst óbreytt, þ.e. rúmlega tvöfallt fleiri konur en karlar njóta þess að hafa starf hjá hinu opinbera. Þá bera að benda sérstaklega á þá staðreynd að atvinnulausir karlar eru 35% fleiri en atvinnulausar konur þegar ummæli þín eru sett fram. Hvernig kemst Jafnréttisnefnd BSRB að þeirri niðurstöðu með aðgerðum ríkisstjórnarinnar sé gengið þvert gegn yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð og þar með markmið ríkisstjórnar um samþættingu jafnréttissjónarmiða við almenna fjárlagagerð?
- Í grein þinni er varað við því að konum sé ýtt út af vinnumarkaði til að fjármagna verkefni sem þú segir skapa störf fyrir karla. Nú þegar atvinnuleysi meðal karla er næstum helmingi meira en meðal kvenna hlýtur sú spurning að vakna hvernig Jafnréttisnefnd BSRB sér það ekki sem jafnréttisaðgerð að gera einmitt það?
- Að lokum langar mig að spyrja hvort Jafnréttisnefnd BSRB sér það sem helsta eða jafnvel eina verkefni sitt að ljá máls á réttindamálum kvenna en ekki karla og hvort Jafnréttisnefndin telji það þá ekki fela í sér mismunun gagnvart karmönnum sem hafa aðild að BSRB í gegnum aðildarfélög bandalagsins?
Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“
Þetta skeyti var sent til Þórveigar þann 18. mars 2011. Einni og hálfri viku síðar sendi ég svo skeyti til að minna á mig ef ske kynni að henni hefði yfirsést erindi mitt. Þremur vikum síðar hringdi ég í Þórveigu og minnti á mig. Þá sagðist hún vera í þeim töluðu orðum „að forma svarið til mín“ sem síðan kom aldrei.
Þar sem ég var virkilega forvitinn að fá skýringar á þessu sendi ég Þórveigu enn eina áminningu þann 21. júlí. Þá fékk ég svar frá henni þar sem hún sagðist hafa haldið að fyrirspurn minni hefði verið svarað í símtali okkar. Til að gæta sanngirni skal það tekið fram að í máli Þórveigar kom fram að henni þætti rök í málinu að verið væri að skera niður kvennastörf hjá hinu opinbera en kaupa svo að vinnu einkarekinna fyrirtækja sem oft væru þannig að færast yfir til karla. Ég tjáði Þórveigu að ég teldi erindi mínu ekki svarað enda er ég ósammála henni að þessi rök eigi við í málinu og að þau svari því sem ég spyr um. Til að taka af allan vafa tók ég fram í síðustu ítrekun minni að fyrirspurn mín stæði enn í heild sinni.
Nú, rúmum fimm mánuðum eftir upprunalegt erindi og mánuði eftir fjórðu ítrekun mína er ég orðinn úrkula vonar um að fá svar. Svo virðist sem jafnréttisnefndarformaðurinn Þórveig hafi eitthvað takmarkaðan áhuga á að gera grein fyrir þessum skoðunum sínum og nefndarinnar.
Ætli ég sé að spyrja rangra spurninga?
SJ
25.8.2011 kl. 18:42
Þetta er gott dæmi sem sýnir að það eru ekki bara ungir öfgafemínistar sem krefjast forréttinda til handa konum.
25.8.2011 kl. 21:27
Situr þessi kona ekki líka í Jafnréttisráði? Hún gerði það allavega einhverntímann.
26.8.2011 kl. 23:42
Hún situr þar ekki núna en hún gerði það frá 2003 til 2008