Svar Mennta- og menningarmálaráðuneytis v. ritstjórnar Kynungabókar

16.8.2011

Blogg

Ég er hvergi nærri búinn að fá nóg af því að velta mér upp úr Kynungabók, heilagri ritningu íslenskra forréttindafemínsta. Eins og ég hef þegar vakið athygli á, hér á blogginu, var því svo undarlega háttað að í ritstjórn kynungabókar sátu fimm konur en enginn karl.

Öllu jafnréttissinnuðu fólki hlýtur að finnast undarlegt í meira lagi að við gerð bókar sem á að uppfræða ungmenni um jafnrétti skuli jafnréttislög vera brotin með því að ganga á svig við kynjakvótaákvæði jafnréttislaga í Mennta- og menningarmálaráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur.

Þann 12. mai sl. sendi ég ráðuneytinu því eftirfarandi:

„Til þess er málið varðar,

Á seinni hluta síðasta árs gaf Menntamálaráðuneytið út bókina Kynungabók. Í sendibréfi sem Menntamálráðuneytið sendi til menntastofnana o.fl. segir að markmiðið með með útgáfu Kynungabókar séu að veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu og vekja ungt fólk til umhugsunar [um Jafnréttismál]. 

Fram kemur í upplýsingum um bókina að í ritstjórn hafi setið þær Berglind Rós Magnúsdóttir, Guðrún M. Guðmundsdóttir, Jóna Pálsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Kristín Jónsdóttir.

Í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla frá 2008 segir í 15. grein:

“Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.

Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.

Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við”

Það vekur óneitanlega athygli að ristjórn bókar sem ætlað er að vera vekja ungt fólk til umhugsunar og virða jafnréttismál sé einvörðungu skipuð konum. Af því tilefni langar mig að beina eftirfarandi fyrirspurn til Menntamálaráðuneytisins: Hversvegna var hlutfall karla ekki minnst 40% eins og lögin kveða á um og hvaða hlutlægu ástæður lágu fyrir sem réttlættu það að vikið væri frá ákvæði 1. mgr. 15. gr. laganna í þessu tilviki, ef einhverjar?

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Eins og gjarnan er þegar maður sendir þessu ráðuneyti fyrirspurnir þá þurfti ég að ítreka erindi mitt. Það gerði ég mánuði síðar og tæpri viku eftir ítrekun mína barst mér svo loks svar frá Jafnréttisráðgjafa ráðuneytisins, Jónu Pálsdóttur en í því segir:

…Sem svar við spurningum þínum um fulltrúa karla í ritstjórn Kynungabókar og sjónarmið karla í bókinni má benda á að sex karlar voru mjög virkir í yfirlestri og ráðgjöf. Þeir komu með gagnrýnar ábendingar og athugasemdir sem unnið var eftir. Að auki sá karl um hönnun bókarinnar og annar karl teiknaði myndir til skreytingar. Þannig var talið tryggt að mikilvæg sjónarmið karla kæmu fram jafnt sem mikilvæg sjónarmið kvenna. 

Þess má geta að rit þetta var sett fram sem drög á vef menntamálaráðuneytisins í mars sl. til að fá fram frekari ábendingar og athugasemdir. Þá var það einnig kynnt á fjölmennu menntaþingi sem ráðuneytið hélt 5.mars s.l. Því er óhætt að fullyrða að þetta rit og tilurð þess eigi sér langa forsögu og að fjöldi fólks af báðum kynjum hafi fengið tækifæri til að setja mark sitt á það. 

Ritstjórnin var samansett af aðilum sem eiga að fylgja eftir jafnréttismálum í menntakerfinu. Höfundar, sem jafnframt eru ritstjórar, eru framkvæmdastjóri jafnréttisstofu sem er kona, jafnréttisráðgjafi menntamálaráðuneytisins sem er kona, skrifstofustjóri upplýsinga- og þjónustusviðs sem er kona og jafnframt yfirmaður jafnréttisráðgjafa og ráðgjafi ráðherra í menntamálum sem er kona. Þeir sem komu að gerð ritsins sinna þessum hlutverkum og voru því ekki valdar af handahófi. Hingað til hafa konur þurft að berjast fyrir réttindum til jafns við karla og því hafa þær í meira mæli sóst eftir embættum og störfum sem tengjast jafnréttisbaráttu. Samsetning ritstjórnar ber keim af því. Það var hins vegar kappsmál að leita eftir ráðgjöf, athugasemdum og ábendingum þeirra sem vit hafa á og hafa sett sig vel inn það efni sem var til umræðu í ritinu…

Eins og allir sjá er hér ekki einu sinni gerð tilraun til að reifa rök er talist gætu fullnægja undanþáguákvæði 2 mgr. 15 gr. jafnréttislaga. Ég sendi henni því svar um hæl:

„Sæl Jóna og takk fyrir svarið.

Því miður er ég ekki viss um að ég skilji svar þitt til hlýtar. Ég vona að þú unir mér því að óska frekari skýringa. 

Í erindi mínu var spurt: Hversvegna var hlutfall karla ekki minnst 40% eins og lögin kveða á um og hvaða hlutlægu ástæður lágu fyrir sem réttlættu það að vikið væri frá ákvæði 1. mgr. 15. gr. laganna í þessu tilviki, ef einhverjar?

Í svari þínu reifar þú ýmsar staðreyndir sem eru fyrirspurn minni í raun óviðkomandi. T.d. að einhverjir ótilgreindir karlmenn hafi fengið að gefa álit sitt á efni Kynungabókar svo og að karlmenn hafi fengið að teikna myndir í bókina og velja liti á hana. 

Þá segir þú: „Hingað til hafa konur þurft að berjast fyrir réttindum til jafns við karla og því hafa þær í meira mæli sóst eftir embættum og störfum sem tengjast jafnréttisbaráttu. Samsetning ritstjórnar ber keim af því“.

Er mér óhætt að skilja þetta sem svo að með þessum orðum sért þú að setja fram þau hlutlægu rök, og þar með ástæður, sem liggja að baki því að ráðuneytið taldi sig ekki bundið af 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar ritstjórn Kynungabókar var skipuð?

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

… sem jafnréttisráðgjafinn svarar svona:

„Sæll Sigurður 

Drög að Kynungabók voru fyrst skrifuð fyrir 5 árum síðan, áður en lögin voru sett 2008 um kvóta. Auk þess var núverandi ritstjórn skipuð konum sem að eigin frumkvæði óskuðu eftir að fá að endurskrifa textann og gefa hann síðan út. Þess vegna er svarið við spurningunni að ekki var um formlega skipaða nefnd, ráð eða stjórn á vegum hins opinbera að ræða. 

Með kveðju
Jóna Pálsdóttir“

Einhver gæti sagt að hér sé jafnréttisráðgjafinn tvísaga um einhverja þætti en það sem mér finnst merkilegast eru þær ástæður sem hún telur að geri kynjakvótaákvæði jafnréttislaga að óþarfa aukaatriði í þessu máli. Það sem hún telur upp, ráðuneytinu og ritstjórninni til málsbóta og segir um leið að tryggja hafi átt að mikilvæg sjónarmið karla kæmust að er:

  • að einhverjir karlmenn hafi fengið tækifæri til að gera athugasemdir við ritstjórnina (sem síðan ákvað hvernig unnið yrði úr þessum athugasemdum).
  • að karlmanni var leyft að hanna útlit bókarinnar og öðrum að teikna í hana myndir.

Jafnvel enn merkilegra er að í fyrra svari sínu segir Jóna að ritstjórnin hafi ekki verið valin af handahófi heldur þvert á móti. Það segir mér að brotavilji ráðuneytisins hafi verið alger. Raunar kveður við nýjan tón í seinna svari hennar en þá, líklegast eftir ráðleggingu lögmanna ráðuneytisins, er ekki lengur um hefðbundna stjórn að ræða heldur aðeins hóp af konum sem af eigin frumkvæði sóttust eftir verkefninu. Þó talar hún sjálf um ritstjórn á nokkrum stöðum í fyrra svari sínu.

Yfirklór ráðuneytisins markaðist ekki aðeins við svör jafnréttisráðgjafans heldur breyttust útgáfuupplýsingar Kynungabókar einhverntíman að milli þess sem ég sendi fyrsta erindi mitt og þess að mér var svarað. Hér fyrir neðan má sjá skjáskot af þeirri útgáfu sem ég hlóð niður af vef ráðuneytisins þann 3. mai 2011 (smellið á mynd til að fá læsilega útgáfu):

Hér er ritstjórn Kynungabókar kynnt

Hér gefur að líta ritstjórn Kynungabókar

Hér gefur hinsvegar að líta útgáfuupplýsingar innan úr bókinni sem hýst er á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem ég kíkti á eftir að ofangreint svar barst frá ráðuneytinu en þeim hafði þá verið breytt:

Hér er svo búið að breyta ritstjórn í höfunda

Hér hefur ritstjórnin allt í einu breyst í "höfunda"

Ég býst við að við neyðumst til að vekja athygli Jafnréttisstofu á þessu ótvíræða lögbroti Mennta- og menningarmálaráðuneytisins en Jafnréttisstofa hefur nú látið sig minni mál varða. Það er þó fyrirséð að við gætum rekist á einhverja veggi þar enda er framkvæmdastjóri þeirrar stofnunar ein þeirra kvenna sem stija í téðri ritstjórn og átti þá, skv. svari ráðuneytisins, einmitt frumkvæði að því að hún yrði skipuð með þessum hætti.

Þetta verður áhugavert.

SJ

(Kynungabók virðist taka stöðugum breytingum en sú útgáfa sem miðað er við í þessari færslu er aðgengileg hér)

2 athugasemdir á “Svar Mennta- og menningarmálaráðuneytis v. ritstjórnar Kynungabókar”

  1. Gunnar Says:

    Ætli það geti verið að sumir séu jafnari fyrir jafnréttislögum en aðrir?

  2. Páll Says:

    Þetta er fróðleg lesning. Mér finnst kannski ekki aðalatriðið hvort um formlega eða óformlega stjórn er að ræða. Það segir alveg sína sögu að aðstandendur og ráðuneytið hafi fundist viðeigandi að aðeins kvenkyns femínistar kæmu að gerð bókarinnar, burt séð frá lögum og reglum.

    Af efni bókarinnar að dæma þá sýnist mér líka að hún hefði getað verið betri ef að henni hefði komið fólk sem ekki ekki hefur einangrað sjálft sig í hugmyndaheimi forréttindafemínista.

    Hlakka til að sjá hvernig Jafnréttisstofa tekur á málinu.

%d bloggurum líkar þetta: