Í hárbeittri greiningu Kynungabókar á ólíkri upplifun ungmenna af skólagöngu sinni er gerð tilraun til að draga fram upplýsingar sem sýna fram á bága stöðu stúlkna. Nema hvað?
Á bls. 13 segir:
„Hins vegar hefur komið fram í erlendum rannsóknum að samskipti kennara viðnemendur eru í þremur af hverjum fjórum tilfellum við drengi. Þessa miklu skekkju má skýra með því að strákar sem þykja til fyrirmyndar eða þeir sem uppfylla ekki skilyrði skólans um æskilega hegðun, viðhorf, eða námsgetu fá mikla athygli og viðbrögð. Algengara er að kennarar þekki drengi með nafni en stelpur og ávarpi þá með nafni“
Þetta meinta samskiptaleysi kennara við kvenkyns nemendur sína virðist nú ekki hafa orðið stúlkum/konum að fjörtjóni nema síður sé.
Konur eru, eins og alkunna er, í miklum meirihluta þeirra sem ljúka framhalds- og háskólanámi. Þá sýnir alþjóðlega samanburðarrannsókn OECD, PISA rannsóknin svokallaða, að læsi drengja er verulega ábótavant miðað við læsi stúlkna á sama aldri í grunnskólum og þeir eru helmingi líklegri til að eiga við lestarörðugleika að stríða en stúlkur. Læsi er algjör grunnforsenda þess að einstaklingur nái að fóta sig í samfélagi manna með viðunandi hætti og hlýtur að teljast mikilvægasti þáttur grunnmenntunar barna.
Af einhverjum ástæðum sjá konurnar í ritstjórn Kynungabókar ekki ástæðu til að minnast einu orði á ólæsi og lestrarvandamál drengja í grunnskólum heldur er þeim meira kappsmál að barma sér yfir því að kennarar muni ekki nöfn stúlkna.
Af hverju ætli það sé?
SJ
18.6.2011
Blogg