Eins og fram kom í færslunni „Að grilla eiginmenn er góð skemmtun“ hafa sérstakar kvennamálsvarnaraðferðir verið að ryðja sér til rúms víða í hinum vestræna heimi. Hér er átt við það sem kallað hefur verið „Battered wife syndrome“ eða „Battered woman syndrome“.
Mér lék forvitni á að vita hvort þetta hefði einhverntíman verið skoðað hér á landi eða hvort það stæði til. Ég sendi skeyti til Sigrúnar Jönu Finnbogadóttur, starfsmanns nefndar Velferðarráðuneytisins um aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi árin 2011 – 15.
Erindið var svohljóðandi:
„Sæl Sigrún,
Ég er að reyna að grennslast fyrir um stöðu mála varðandi innleiðingu eða viðurkenningu ákveðins hugtaks í íslenskt réttarkerfi. Ég sá á vef Velferðarráðuneytisins að þú ert starfsmaður nefndar um aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi árin 2011 – 15.
Hugtakinu má í mjög einfölduðu máli lýsa á þann veg að í málum þar sem kona ræðst að manni sínum með saknæmum hætti þá geti það, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, verið virt henni til refsilækkunar að hafa mátt þola langvarandi heimilisofbeldi af hálfu mannsins jafnvel þó það hafi ekki verið yfirstandandi á verknaðarstund og því ekki um sjálfsvörn að ræða skv. þeim lögum sem nú eru í gildi. Hugtakið hefur á enskri tungu verið nefnt „Battered wife syndrome“ eða „Battered woman syndrome“ og málsvörn sem á því byggir „Battered woman/wife defence“. Þjóðir sem í einhverjum mæli hafa viðurkennt þetta eru m.a. Bandaríkin, Ástralía, Bretland, Kanada og Nýja sjáland.
Mig langaði að beina eftirfarandi fyrirspurn til yðar: Hefur þetta komið til álita hjá nefndinni í einhverri mynd. Þ.e. að dómurum verði veitt heimild til að taka tillit til þess í dómsmálum að gerandi hafi verið beittur langvarandi ofbeldi af hálfu þolanda áður en glæpur á sér stað?
Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“
Ég ætlaði varla að trúa svarinu en í stuttu máli upplýsir Sigrún í því að þetta verði einmitt tekið fyrir hjá nefndinni á allra næstu misserum.
SJ
24.6.2011
Blogg