Forvirkar sértækar aðgerðir?

25.5.2011

Blogg

Eftir að bera fór á því að lærðir forréttindafemínistar segðu okkur að konur væru að koma verr út úr kreppunni en karlar fór ég að rannsaka málið. Ég lagði upp með tvær spurningar í þessu sambandi:

  1. Hvernig má það vera að konur séu að koma verr út úr kreppunni en karlar þegar þriðjungi fleiri karlar en konur eru á atvinnuleysisskrá og raunar hafi fleiri konur starf í dag en höfðu fyrir hrun?
  2. Hvernig stríðir það gegn markmiðum um kynjaða hagstjórn að stuðla að atvinnuuppbyggingu í greinum sem almennt eru talin til karlastarfa þegar svona háttar í atvinnumálum?

Það reyndist ekkert of auðvelt að finna skýringar á þessu. Ég sendi sumum þeirra atvinnufemínista sem hafa haft uppi þennan málflutning skeyti og bað um útskýringar. Sumir hafa svarað, aðrir ekki en af þeim svörum sem ég hef fengið er almennt vísað til samanburðar á áhrifum efnahagssamdráttar í öðrum löndum og á öðrum tímum. Með vísan í þessar rannsóknir er svo fullyrt að atvinnuleysi muni einhverntíman í framtíðinni verða meira meðal kvenna en karla. Þá er fullyrt að reynslan sýni að þá muni atvinnuleysi verða langvinnara hjá konum en körlum.

Gott og vel, hér er semsagt á ferðinni krafa um sértækar aðgerðir til að vinna gegn meira og lengra atvinnuleysi meðal kvenna sem þó er ekki komið fram og allsendis óvíst að muni koma fram hér á landi.

Sértækar aðgerðir (e. affirmative action) eru á vef Jafnréttisstofu skilgreindar með eftirfarandi hætti:

„Í 2. grein jafnréttislaga nr. 10/2008 eru sértækar aðgerðir skilgreindar sem sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi“

Að þessu samanlögðu hljótum við því að álykta að hér sé á ferðinni krafa forréttindafemínista um að ríkisstjórnin ráðist í forvirkar sértækar aðgerðir, hvorki meira né minna.

Hugmyndaauðgi forréttindafemínista við að tryggja sér og sínum forréttindi virðist allt að því óendanleg.

SJ

, , ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: