Eins og fram kom í færslu um Kynungabók í gær stendur til að skoða þessa ritsmíð forréttindafemínista með kynjagleraugum og birta niðurstöður þeirrar skoðunar hér á næstu misserum. Við skulum byrja á að skoða það sem fyrst stingur í stúf við þetta rit, sjálfa ritstjórn bókarinnar.
Fyrir þau ykkar sem ekki vita er Kynungabók gefin út af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er ætlað er að innræta 15-25 ára ungmennum, á þremur skólastigum, skoðanir forréttindafemínista. Strax í formála bókarinnar segir;
„Rannsóknir sýna að jafnrétti kynjanna eykur hamingju, jafnréttissambönd endast betur, fyrirtæki og stofnanir eru betur rekin og þjóðfélagið verður lýðræðislegra og betra“
Eins ótrúlega og það kann að hljóma þá virðist þessi fallegi boðskapur ekki hafa átt upp á pallborðið þegar ráðuneytið skipaði eftirfarandi einstaklinga í ritstjórn Kynungabókar:
- Berglind Rós Magnúsdóttir
- Guðrún M. Guðmundsdóttir
- Jóna Pálsdóttir
- Kristín Ástgeirsdóttir
- Kristín Jónsdóttir
Glöggir lesendur hafa kannski tekið eftir því að á listanum eru fimm konur en enginn karl. Þá hafa einhverjir lesendur hugsanlega veitt því sérstaka athygli að þarna situr sjálf framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, Kristín Ástgeirsdóttir sem í starfi sínu gagnrýnir fyrirtæki fyrir að vera ekki með jöfn kynjahlutföll í stjórnum sínum jafnvel þó engin lagaskylda hvíli á þeim enn – ólíkt opinberum stofnunum og ráðuneytum eins og í þessu dæmi.
Til upprifjunar skulum við sjá hvað segir í 15. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla:
“Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.
Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.
Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við”
Þó forréttindafemínistar hafi nú oft sýnt af sér fádæma fljótfærni við útreikninga á opinberum tölum og niðurstöðum „rannsókna“ sinna þá efast ég ekki eitt stundarkorn um hæfni þeirra til að reikna út að hlutfall karla í ritstjórn Kynungabókar er 0% en ekki 40% eins og lög gera ráð fyrir.
Í ávarpi Katrínar Jakobsdóttur við útgáfu Kynungabókar hafði hún háfleyg og fögur orð um gildi jafnréttis og jafnréttisbaráttu. Meðal annars sagði hún að það væri nauðsynlegt að vera alltaf vakandi fyrir umhverfi sínu því jafnréttisbaráttunni verði seint lokið.
Ég er að hugsa um að taka Katrínu á orðinu, vera vakandi, og senda henni fyrirspurn um hversvegna hún telji sig ekki hafa þurft að fara eftir Jafnréttislögum í þessu tilviki.
SJ
(Kynungabók virðist taka stöðugum breytingum en sú útgáfa sem miðað er við á þessu bloggi er aðgengileg hér)
18.5.2011
Blogg