Eins og allar rétttrúnaðarkirkjur sem vilja láta taka sig alvarlega hafa forréttindafemínistar lengi horft til þess að koma boðskap sínum áleiðis til barna á mótunaraldri.
Þónokkur árangur hefur þegar náðst á erlendri grund hvað þetta varðar og er nú svo komið að hugmyndafræði forréttindafemínista er orðin samofin kennsluefni og námskrám grunn- og framhaldsskóla t.d. í Bandaríkjunum og nokkrum nágrannalöndum okkar.
Stórt skref í þessa átt var tekið hérlendis með útgáfu Kynungabókar sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út í lok ágústmánaðar 2010. Í ritinu er hugmyndafræði og skoðanir forréttindafemínista settar fram sem vísindi og staðreyndir. Á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir um bókina að hún sé ætluð 15-25 ára ungmenna og nái því til nemenda á þremur skólastigum. Þá segir að vonir standi til að bókin geti gagnast öllum þeim er komi að uppeldi og kennslu og verði tilraunakennd af teymi níu kennara í grunn-, framhalds- og háskólum fyrstu misserin eftir útgáfu hennar.
Í ræðu Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, sem hún hélt í tilefni af útgáfu bókarinnar segir:
„Markmið með útgáfu Kynungabókar eru að veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu og vekja ungt fólk til umhugsunar um hvernig mismunandi mótun kynjanna út frá menningu, umhverfi og tíma hefur áhrif á líf ungs fólks. Í ritinu eru hnitmiðaðar upplýsingar úr rannsóknum, gagnagrunnum, lögum og reglugerðum. Ritið skiptist í sjö kafla sem heita fjölskyldan, vinnumarkaður, skólaganga, fjölmiðlar, heilsa, kynbundið ofbeldi og stjórnkerfi jafnréttismála“
Ég get nú ekki sagt að mér hafi hingað til fundist vera mikil vigt í því sem frá forréttindafemínistum kemur og efaðist því strax um gæði og gildi þess sem sett er fram í Kynungabók.
Á heildina litið er þarna á ferðinni kunnuglegur boðskapur. Karlar eru gerendur en konur eru þolendur. Styrkja verður stúlkur og og uppræta þætti sem takmarka þær í samfélaginu en veikja verður drengi og það sem hefur verið drengjum eiginlegt eða „laga“ karlmennsku þeirra ef svo má segja. Svosem ekkert nýtt á ferðinni en ég verð þó að segja að mér finnst alvarlegt að Mennta- og menningarmálaráðuneytið skuli verja skattfé borgara til þess að gefa út skoðanir fámenns hóps forréttindafemínista og gæða þær fræðilegum blæ.
Á næstu dögum og vikum mun ég birta gagnrýni á einstakar þætti í boðskap Kynungabókar auk beinna tilvitnana sem standa einar og sér fyrir sínu.
SJ
17.5.2011
Blogg