Millidómstig kvenna

3.4.2011

Blogg

Forréttindafemínistar hafa um árabil rekið áróður fyrir því að hér á landi þurfi að koma á tvöföldu réttarkerfi. Einu fyrir karlmenn og öðru fyrir konur. Fyrirbæri eins og sönnunarbyrði, sem hingað til hafa þótt órjúfanlegur hluti réttarkerfisins, er ekki talið til bóta fyrir konur og ætti helst að afnema með öllu í hinu nýja réttarkerfi kvenna. „Saklaus uns sekt er sönnuð“ er eitur í beinum hörðustu forréttindafemínista sem vilja helst að það sé nóg fyrir konu að benda á karlmann og segja hann hafa áreitt sig eða nauðgað til að fá sakfellingu.

Rökin sem reifuð eru fyrir þessu eru oftast eitthvað á þá leið að það sé svo erfitt að sanna þessi brot og að það sé fórnarlömbunum svo þungbært að ganga í gegnum kæruferlið. Þá er okkur sagt að rannsóknir sýni að fáar konur kæri kynferðisglæpi og að enn færri kærur leiði til sakfellingar og fleira í þeim dúr. Vandamálið við þessa röksemdafærslu er að hún á við um marga aðra brotaflokka og er því ekki gild sem slík.

Engum dylst að undirtónn þessarar orðræðu hefur þegar leitt til þess að nú nægir konum að benda á karlmenn og segja þá hafa áreitt sig eða nauðgað til að dómstóll götunnar dæmi þá seka um aldur og ævi. Oft kannski með réttu en hugsanlega einhverntíma með röngu. Til eru staðfest dæmi um konur sem hafa viðhaft rangar sakargiftir rétt eins og til eru dæmi um rangar sakargiftir í öllum öðrum brotaflokkum, slíkt gerist og mun gerast á meðan mannskepnan byggir þessa jörð. Þá virðist það regla fremur en undantekning að þegar kona viðhefur umgengnistálmanir gagnvart barnsföður þá ásakar hún viðkomandi um líkamlegt og andlegt ofbeldi oft með þeim árangri að tekið er við hana viðtal í fjölmiðlum þar sem hún fær óáreitt að leggja fram alvarlegar ásakanir í garð manns sem kemur engum vörnum við (oft erlendir menn). Bloggarar taka þá boltann og láta breiða öldu vandlætingar flæða yfir netmiðlana. Niðurstaðan er skýr: konan er góð, karlinn er vondur og barninu þarf að bjarga úr höndum vonda karlsins og færa í hendur góðu konunnar. Þetta eru dæmi um hið óformlega millidómstigs kvenna.

Hitt er öllu alvarlegra að þessi viðhorf hafa sannarlega leitt til þess að þetta millidómstig kvenna hefur verið lögfest og er í dag eins raunverulegt og hinir formlegu dómstólar. Þetta sýndi sig glögglega í Isavia málinu þar sem meint fórnarlamb velur þá leið að kæra ekki hinn meinta geranda heldur sameigilegan vinnuveitanda fyrir að hafa ekki tekið orð hennar trúanlega þegar hún viðhafði ásakanir í garð hans um kynferðislega áreitni. Það er að sjálfsögðu hugsanlegt að ásakanirnar í málinu séu réttar en það er alvarlegt þegar svo er komið að hægt sé að fá viðurkenningu sektar án þess að meintur brotamaður fái réttarhöld.

Við förum ekki fögrum orðum um ríki og samfélög sem veita þegnum sínu ekki sanngjörn réttarhöld eða jafnvel dæma án dóms og laga en ég býst við að forréttindafemínistar segi þetta skref í rétta átt.

SJ

,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: