Hallar á konur í atvinnumálum?

25.3.2011

Blogg

Í fréttum Ríkissjónvarpsins þann 16. mars sl. er rætt við Þorgerði Einarsdóttur, prófessor í kynjafræði sem segir verulega halla á konur í atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Miklu fjármagni sé varið til atvinnuuppbyggingar á störfum sem sögð eru karlastörf en konur séu í meirihlusta þeirra sem hverfa frá störfum hjá ríkinu. Þá er bent á að fækkað hafi um 470 konur en 70 karla í störfum hjá ríkinu milli ársloka 2009 og 2010.

Þorgerður segir:

„Það sem má lesa úr þessum tölum er býsna fyrirsjáanlegt miðað við reynslu annara landa úr svona kreppuástandi því þetta er þekkt annarsstaðar úr heiminum en miðað við land þar sem situr ríkisstjórn sem að einsetti sér að taka tillit til ólíkrar stöðu karla og kvenna í þessum aðgerðum að þá kemur þetta á óvart.“

Þá er í fréttinni vitnað til kafla um aðgerðir í þágu atvinnulífs í verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri Grænna:

„Ríkisstjórnin er einhuga um að við endurreisn íslensk efnahagslífs og uppbyggingu faglegra stjórnunarhátta verði jafnrétti kynjanna haft að leiðarljósi.“

Um þetta segir Þorgerður:

„Ef að stjórnvöldum er alvara með að taka tillit til ólíkrar stöðu kynjanna og að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við atvinnustefnu sína þá held ég að það sé tímabært að þau skýri hvaða merkingu þau leggja í þessa hluti.“

Þetta er mjög merkilegur málflutningur. Þegar þessi frétt er tekin saman sýna nýjustu tölur um atvinnuleysi að 35% fleiri karlar en konur eru atvinnulausir. Þá sýna tölur að meðal rúmlega 40.000 opinberra starfsmanna er yfirgnæfandi meirihluti þeirra konur, eða 69% hvorki meira né minna. Eðli málsins samkvæmt hefur ríkið ekki beint umboð yfir neinum starfsmönnum öðrum en opinberum og því eru þeir einu starfsmenn vinnumarkaðarins sem ríkið er að segja upp á hverjum tíma.

Það sem kemur mér á óvart er að prófessor í kynjafræði skuli ekki hafa tekið tillit til ólíkrar stöðu karla og kvenna í þessum efnum áður en hún hafði uppi þennan málflutning. Er annars eitthvað óeðlilegt við að fleiri konur en karlar missi störf sín í greinum þar sem þær eru rúmlega tvöfallt fleiri en karlmenn?

Gaman væri að heyra hvaða merkingu hún sjálf leggur í samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar því ef eitthvað er má segja að ríkisstjórnin sé hvergi nærri að gera nóg til að jafna hlutfall karla og kvenna á atvinnuleysisskrá.

Nú er það mér hulin ráðgáta hvernig Prófessor í kynjafræði getur viðhaft annan eins málflutning þegar allar tölur sýna mjög greinilega að hvergi hallar á konur í atvinnumálum. Ég fæ ekki betur séð en að það sé einmitt í anda kynjaðrar hagstjórnar að ríkisstjórnin stuðli fjölgun starfa sem karlmenn vinna í meira mæli þegar karlar eru meirihluti þeirra sem eru atvinnulausir.

Kannski er þetta meðal þess sem maður lærir hjá Þorgerði í kvennafræðinni, hver veit?

SJ

, ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: