Konur hvergi óhultar

16.3.2011

Blogg

Persóna Önnu í tölvuleiknum EVE Online

Persóna Önnu í sýndarveruleika EVE Online á meðan áreitnin stóð sem hæst

Fyrir margt löngu lærðist mér að það allra hræðislegasta sem hent getur nokkra sál á þessu tilverustigi er að fæðast sem kona af tegundinni homo sapiens.

Konur koma ver út úr kreppum, hafa lægri laun en karlar, fá ekki aðstoð yfirvalda þegar karlkyns samstarfsmenn hreita í þær fúkyrðum og til að kóróna herlegheitin þurfa þær svo að lifa lengur en karlar, að því er virðist til þess eins að þola allt þetta misrétti lengur en ella.

Nú hefur komið í ljós, sem ég hafði ekki áttað mig á, að konur standa ekki bara höllum fæti í raunheimum. Þær standa líka höllum fæti í sýndarveruleikanum. Þannig hljóðaði fyrirsögn af á vef Vísis.is, „Áreitt kynferðislega í EVE online – kynjamismunun í tölvuleikjum“

Í fréttinni er fjallað um rannsókn Önnu Bragadóttur sem rannsakaði samskipti kynjanna í sýndarveruleika fyrir lokaritgerð sína við viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst. Fram kemur í fréttinni að Anna spilaði leikinn EVE Online svo mánuðum skipti til að öðlast skilning á þessu mikilvæga viðfangsefni.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er sögð vera að:

„Konur verða fyrir kynferðislegri áreitni í sýndarveruleika ekki síður en í raunveruleikanum. Kynjamismunun er staðreynd í tölvuleiknum EVE Online“

Þá er haft eftir Önnu:

“Kvenmenn geta orðið fyrir kynferðisáreitni og þurfa að gæta vel að því hvað þær segja og hvernig það er sagt svo það valdi ekki misskilningi. Þær þurfa að setja skýr mörk“

Það er ekkert annað. Áreittar og mismunað í ímynduðum heimi. Ég legg til að Femínistafélag Íslands færi starfsemi sína inn í þennan sýndarveruleika til að sporna við því bakslagi í jafnréttisbaráttunni sem EVE Online augljóslega er.

Að berjast við feðraveldið með geislasverði hlýtur líka að vera draumur sérhvers femínista.

SJ

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: