Guðríður Haraldsdóttir og öskubuskan

13.3.2011

Blogg

Forsíða tölublaðs Vikunnar sem um ræðirÞað virðist hafa skapast hefð fyrir því að konur hafi uppi alvarlegar ásakanir í garð manna sem þær eiga í forsjárdeilu við. Þetta þarf út af fyrir sig ekki að koma á óvart. Þegar fólk deilir þá er það sjaldnast að sýna sínar bestu hliðar og ekki sakar að okkur hefur öllum verið kennt að það sé nær ómögulegt að sanna ásakanir um ofbeldi, sérstraklega kynferðisofbeldi eða andlegt ofbeldi. Því jafngildi áskökunin ein sönnun – svona hér um bil.

Hitt er áhyggjuefni að fjölmiðlar hafa hvað eftir annað tekið að sér að birta þennan ófögnuð eins og ekkert sé eðlilegra. Það vekur sérstaka athygli mína að oftast þegar fjölmiðlafólk, stundum vinkonur kvennana sem ætla sér að ná börnunum sama hvað, taka að sér að birta gagnrýnilaust málflutning kvennana þá eru karlarnir ekki íslendingar og oft ekki búsettir hér. Þeir eru því ekki í góðri stöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér.

Því hljótum við að fagna dómi Hæstaréttar gegn Guðríði Haraldsdóttur, fyrrv. ritstjóra Vikunnar sem í vikunni dæmdi hana til að greiða manni miskabætur og dæmdi ummæli um hann dauð og ómerk. Dóttir mannsins og barnabarn viðmælanda Vikunnar hafði einnig höfað mál og unnið í héraði en Hæstiréttur vísaði þeim hluta málsins frá þar eð hún hafi við útgáfu áfrýjunarstefnu og þingfestingu málsins verið ófjárráða og því ekki átt ráðstöfunarrétt yfir sakarefni málsins. Í frétt um málið á mbl.is segir m.a:

„Fjallað var um fjölskylduhagi stúlkunnar, skilnað foreldra hennar og samskipti föðurins við móðurfjölskylduna í 30. tölublaði Vikunnar í júlí árið 2009. Einnig var rætt um atlæti stúlkunnar hjá föður sínum, samskipti þeirra feðgina og ættleiðingu núverandi eiginkonu föðurins á stúlkunni.

Lögráðamenn stúlkunnar töldu að vegið hefði verið gróflega að æru stúlkunnar og föður hennar, meðal annars með því að líkja henni og högum hennar á heimili sínu við Öskubusku. Það sama ætti við um fullyrðingar um að stúlkan hefði ítrekað huglett sjálfsvíg, fyrst átta ára að aldri, og með myndum af henni.

Þá taldi faðir stúlkunnar, að gróflega væri vegið að æru hans með ásökunum um ofbeldi í garð fyrri eiginkonu, vörslu barnakláms, líkamlegt og andlegt ofbeldi í garð dóttur hans og misnotkun á börnum. Sagði hann að engin tilraun hefði verið gerð af hálfu blaðsins til að bera efnið undir hann eða dóttur hans þannig að þau gætu komið að athugasemdum eða brugðist við röngum fullyrðingum með einhverju móti“

Þá kom fram í málinu, að upplýsingarnar í greininni voru fengnar frá móðurömmu stúlkunnar, sem hafði óskað eftir umgengnisrétti við stúlkuna með dómsúrskurði en ekki fengið.

Eins nauðsynlegt og það er að yfirvöld grípi inn í aðstæður þar sem börn búa við slæman aðbúnað eða ofbeldi af einhverju tagi þá er jafn mikilvægt að ásakanir um hverskyns ofbeldi sé ekki gerðar að einhverskonar töfrasprota í höndum kvenna sem svífast einskis til að komast yfir börnin. Þær geta jú, eins og karlar, haft aðrar áherslur í málinu en hag barnanna.

Ábyrgð kvenna sem viðhafa svona ásakanir án þessa að þær eigi við rök að styðjast er mikil. Falskar ásakanir leiða til útþynningar sem á endanum getur viðhaldið raunverulegu ofbeldi. Það er grátlegt að það þurfi dómstóla til að minna handhafa fjórða valdsins (fjölmiðlafólk) á ríka ábyrgð sína í þessum efnum.

SJ

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: