Kerlingar tussa

12.3.2011

Blogg

Eitt af því sem segja má að hafi verið jákvætt fyrir karlmenn þegar konur hófu almenna atvinnuþátttöku utan heimilis er að þá fóru samfélög í auknum mæli að huga að vinnuvernd og almennum aðbúnaði starfsmanna. Það er óumdeilanlegt að margt hefur breyst síðan konur þustu út á vinnumarkaðinn hvað varðar öryggiskröfur, vakta- og vinnuálag o.s.fv.

Við höfum líka fengið að venjast því að það þarf að umgangast konur með öðrum hætti en karlkyns samstarfsmenn. Um það gilda sérstakar reglur auk þess sem til eru stofnanir og félög sem styðja sérstaklega við konur á vinnumarkaði. Nýleg dæmi sýna að það virðist vera helmingi verra að segja upp konu en karli þrátt fyrir að helmingi fleiri karlar séu atvinnulausir en konur og hefur Jafnréttisstofa t.d. nýlega beitt sér í slíku máli.

Þessa sértæku kvennavinnuvernd var nýlega reynt að víkka all verulega út þegar sjálfur Saksóknari Efnahagsbrotadeilar Ríkislögreglustjóra, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, kærði Helga Magnús Gunnarsson, forvera sinn í starfi fyrir ærumeiðandi ummæli í sinn garð. Í málsskjölum kemur fram að Alda heyrði raunar ekki ummælin sjálf heldur hafði þau eftir ónanfgreindum starfsmanni en þau alvarlegustu voru þau að hann hefði kallað sig „kerlingar tussu“. Nánar má lesa um málið hér.

Þessu vildi Alda ekki una og kvartaði til Innanríkisráðherra og Ríkislögreglustjóra sem síðan vísaði málinu til Lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu sem vísaði málinu frá.

Í ljósi alvarleika málsins kærði Alda ákvörðun Lögreglustjóra og segir m.a. að orðin séu eingöngu til þess fallin að draga úr trúverðugleika hennar sem yfirmanns á afar ósmekklegan hátt.

Ríkislögreglustjóri hefur því farið yfir málið í annað sinn og komist að sömu niðurstöðu – að vísa beri málinu frá. Í úrskurðinum reifar embættið m.a. hvað telst vera ærumeiðandi og hvað ekki og kemst að því að ummæli kærða séu ekki þess eðlis að embætti geti aðhafst frekar.

Ég veit ekki með þig, lesandi góður, en mér finnst einhvernveginn blasa við að sá sem verður fyrir álitshnekki í þessu máli er fyrst og fremst Helgi Magnús Gunnarsson. A.m.k. finnst mér þessi ummæli hans vera hallærisleg. Ég get hinsvegar ekki byrjað að ímynda mér hvernig það að kalla einhverja konu „kerlingar tussu“ kemur niður á trúverðugleika hennar sjálfrar. Ef svo væri gæti ég með ofurkrafti orða minna rýrt trúverðugleika allra kvenna með því einu að fara með þessa litlu, en að því er virðist kröftugu, galdraþulu.

Þar eð Alda beitir vopnum kynjastríðsins fyrir sig í þessu máli verður ekki hjá því komist að ræða það sérstaklega. Nú segir hún að henni hafi einkum þótt ummælin ósmekkleg þar sem hún taldi þau vísa á niðurlægjandi hátt til kynferðis hennar. Eigum við þá að trúa því að ef hann hefði bara kallað hana „helvítis asna“ í stað „kerlingar tussu“ þá hefði hún látið málið kyrrt liggja?

Eftir stendur að Alda upplifði það sem fjöldinn allur af fólki upplifir á vinnustöðum alla daga; valdabaráttu, núning við aðra starfsmenn og dónaskap. Á grundvelli kynferðis síns ætlast hún svo til að aðrir sjái um að taka á vandamálinu hennar og sussi á vonda karlinn og í leiðinni kosta skattborgara þessa lands upphæðina sem hefði farið í það að annast þá þjónustu fyrir hana.

Sem betur fer er Innanríkisráðuneytið, Ríkislögreglustjóri og Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ekki á þeim buxunum að taka þessa ábyrgð af henni með tilheyrandi kostnaði fyrir skattborgara.

Þó það nú væri.

SJ

,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: