„Konur eru veikari en karlar“

7.1.2010

Blogg

Svona hljóðar fyrirsögn greinar á Doctor.is sem ég rakst nýlega á í tengslum við gagnaöflun um fjölda kvenna og karla sem leita sér áfengis- og vímuefnameðferðar.

Eins og allir vita er forréttindafemínistum mikið í mun að litið sé á konur sem einhverskonar kjánaprik sem ferst afar fátt vel úr hendi. Það er akkúrat það andrúmsloft sem ég held að hafi orsakað það sem hér verður lýst.

Greinin er skrifuð af konu sem titlar sig blaðamann og áfengisráðgjafa um rannsókn sem gerð var á árunum 2000 og 2001 á 516 sjúklingum, sem komu til meðferðar á Vog, Teig og deild 33A á Landspítalanum. Rannsóknin á að fjalla um áfengis- og vímuefnavandann í kynjuðu samhengi því eins og allir vita þá er ekkert mikilvægara en að rannsaka áhrif smæstu og stærstu hluta á konur sérstaklega.

Greinin byrjar svona:

„Konur koma veikari til áfengismeðferðar, hafa meiri fráhvarfseinkenni og eru mun lengur að jafna sig en karlar. Þær hafa fleiri einkenni um alvarlega áfengissýki, bæði líkamleg og andleg. Þær eru einnig tilfinninganæmari og undirlátssamari, láta frekar undan þrýstingi og reyna frekar að bera  í bætifláka fyrir sjálfar sig en karlar“.

Já já .. svosem ekkert nýtt í þessu. Eins og virðist vera um alla mögulega og ómögulega hluti þá eru það alltaf konur sem draga stutta stráið. Síðan kemur aðalatriðið þegar greinarhöfundur fer að tala um tíðni sjúkdómsins hjá konum annarsvegar og körlum hinsvegar.

Um úrtak rannsóknarinnar segir:

„Í hópnum voru 370 karlar og 146 konur. Konur voru því 28,3% hópsins en það er mjög svipað fyrri hlutfallstölum sem birtar hafa verið um fjölda kvenna í hópi þeirra sem leita sér hjálpar vegna áfengis og vímefna.“

Þá segir:

„Algengara er að áfengissjúkar konur séu giftar áfengissjúkum körlum heldur en að áfengissjúkir karlar eigi drykkfelldar konur“

Og þá að hávísindalegri niðurstöðunni:

„Að ofangreindu má ljóst vera, að konum er búin mun meiri hætta en körlum af því að ánetjast áfengi eða öðrum vímefnum“

Já, konum er mikil vorkun að vera konur samkvæmt þessu. Þrátt fyrir að vera um 70% ólíklegri til að þróa með sér áfengis- og vímuefnavandamál þá er þeim samt búin mun meiri hætta en körlum af því að ánetjast áfengi eða öðrum vímuefnum! Hvað ætli rannsakendur hafi fengið mikinn styrk til að vinna þessa tímamótarannsókn úr fjárhirslum jafnréttisiðnaðarins?

SJ

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: