Ein af furðum veraldar er forréttindafemínismi … og ein af furðum forréttindafemínisma er skilgreining hreyfingarinnar á valdi – sem er raunar hornsteinn femínínskrar hugmyndafræði. Tilvist forréttindafemínísma á allt sitt undir því að vald sé skilgreint frá sjónarhóli kvenna svo og því að allt vald liggji hjá körlum en ekkert hjá konum. Í framhaldi af því er nauðsynlegt að komast að þeirri niðurstöðu að karlar séu nógu vondir til að misnota þetta vald í eigin þágu á kostnað kvenna.

Beðmál í Borginni. Vinsæll þáttur um ævintýri fjögurra ungra og valdalítilla kvenna í hörðum heimi karla
Í sem stystu máli má segja að hreyfingin hafi þegar komist að þessari niðurstöðu. Okkur er sagt að ef karlar séu í meirihluta stjórnenda í fyrirtækjum þá sé því stjórnað af körlum sem verða þá um leið að skilreinast sem valdamiklir menn. Stjórnmálaflokkar sem í hafa raðast fleiri karlmenn en konur eftir prófkjör og kosningar eru í heimi forréttindafemínista kallaðir karlaflokkar og sjálfkrafa virðist gengið út frá því að þar af leiðandi séu þeir ekki færir um hugsa um hagsmunni kvenkyns kjósenda sinna. Ekkert er horft til þess valds sem eigendur fyrirtækjanna hafa sem er að sjálfsgöðu æðsta vald í hverju fyrirtæki nú eða þess valds sem kjósendur hafa yfir stjórmálamönnum en það er skemmtilegt frá því að segja að helmingur kjósenda eru einmitt konur – svona ef einhver skyldi nú hafa gleymt því.
Án þessa að teygja lopann mikið meira má eiginlega segja að þegar kemur að völdum þá sé það trú forréttindafemínista að karlar hafi völd en konur engin. Þetta valdakerfi hafa þær svo ákveðið að kalla Feðraveldi svona rétt til að undirstrika að þetta er karlakerfi.
Fyrir þá sem á annað borð vilja velta fyrir sér hvort kynið sé valdameira í samfélaginu getur verið gagnlegt að horfa á eftirfarandi þætti:
Kynjaímyndir
Eitt af því sem Femínisminn fann upp og hefur verið að velta sér upp úr síðastliðin 50 ár eða svo er hugtakið Kynjaímynd sem vísar til þess hverjar ríkjandi hugmyndir samfélagsins eru um kynin og hvernig kynin „eigi“ að haga sér. Eins og gengur um flest það sem forréttindafemínistar velta fyrir sér er það mest upp á borðum þegar það hentar málstaðnum en minna þegar það hentar ekki. Skoðum t.d. áhrif kynjaímyndar á ungan karl og unga konu með hliðjsón af valdahugtakinu.
Ungum körlum er innrætt að þeir þurfi að „standa sig“ og ef þeir geri það þá hljóti þeir viðurkenningu (sem þeir sækjast fyrst og fremst eftir frá hinu kyninu). Þetta leiðir svo af sér að karlar velja námsbrautir miklu meira út frá því hversu vel launuð störf þeir fá eftir útskrift á meðan ungar konur eru mun líklegri til að velja eitthvað sem þeim finnst skemmtilegt að læra eða vinna við (t.d. kvennafræði). Þess utan getur ung kona valið að vera heimavinnandi húsmóðir og einbeita sér að uppeldi barna sinna. Þegar framtíðin er skipulögð er valkostur karla semsagt bara einn: Full vinna. Konan hefur aftur á móti eina þrjá valkosti: Vinna fulla vinnu, vera heimavinnandi móðir eða blanda þessu tvennu saman á sem þægilegastan hátt.
Barneignir
Þegar kemur að barneignum þá er það svo að konan hefur alræðisvald um hvernig hún hagar málum en karl hefur ekkert yfir því að segja hvernig málum er háttað. Kona getur valið (einhliða) að verða ólétt og svo getur hún ákveðið hvort hún vill að faðir barnsins verði partur af lífi þess eða ekki. Hún getur meira að segja sleppt því að segja föðurnum frá barninu (ef þau eru ekki í sambúð og það hentar henni) en krafið hann svo um allt að fjórfallt meðlag (80.000 kr. á mánuði) afturvirkt ef hann reynist nógu tekjuhár og henni hugnast það. Þrátt fyrir þetta er það undir konunni komið hvort faðirinn fær svo að umgangast krógann eða ekki. Hér því er á ferðinni furðulega valdalítil valdastétt – ekki satt?
Líf og heilsa kynjanna

Á bakvið skilti sem takmarka aðgang almennings vegna yfirvofandi hættu má gjarnan finna valdamikla karlmenn að vinna fyrir salti í grautinn.
Líf og heilsa konu er hærra metin en karla. Hver kannast ekki við stórslysa- eða stríðsfréttir þar sem sérstaklega er tekið fram hve margar konur létu lífið. Konum er innrætt betri sjálfsvirðing í uppeldi og sýna því af sér minni áhættuhegðun en karlar á meðan körlum er innrætt minni sjálfsvirðing og eru þannig félagsmótaðir til að fórna sér frekar en konur og helst líka fyrir konur. Þetta leiðir til þess að þegar einhver hefur dáið í vinnuslysi á Íslandi síðastliðin 30 ár þá hefur það í 98% tilvika verið karlmaður og raunar hafa bara tvær konur látist í vinnuslysi á síðustu 30 árum á Íslandi. Þessi aðstöðumunur verður enn ljósari þegar litið er til landa sem reka her. Í Bandaríkjunum er það t.a.m. þannig að aðeins 18 ára drengjum er skylt að skrá sig til herþjónustu en konum er það í sjálfsvald sett hvort þær skrá sig eða ekki. Þ.e. þær hafa réttinn (til að láta drepa sig fyrir föðurlandið) en ekki skylduna. Af þeim konum sem sjálfviljugar skrá sig er síðan óvenjuhátt hlutfall þeirra sem fá hættuminni almenn störf innan hersins en karlar auk þess sem þær fá oftar yfirmannastöður (þar sem þær eru hættuminni). Þetta má glögglega sjá í tölum um mannfall í Íraksstríðinu en þrátt fyrir að konur séu um 14% allra bandarískra hermanna eru þær aðeins tæplega 2% þeirra sem fara frá Írak í líkkistu sé miðað við Apríllok 2007. Þetta hefur væntanlega eitthvað að gera með þá staðreynd að konum er ekki kennt að sjá það sem „hetjulegt“ að láta kála sér á erlendri grund. Karlar eru þar með skv. þessu líklega fyrsta valdastétt mannkynssögunnar sem metur líf þræla sinna meira en sitt eigið.
Meðalævilengd karla og kvenna

Á meðan flestir óskuðu þess að vera víðsfjarri í kjölfar árásarinnar á tvíburaturnana í New York var voru tvær stéttir fólks sem sjálfviljug setti sig í hættu við björgunarstörf; slökkviliðs- og lögreglumenn. Fjöldi þeirra tróðst undir rústunum þegar turnarnir hrundu - allt karlar.
Kenning forréttindafemínisma gefur líka lítið eitt eftir þegar maður skoðar meðalævilengd en eins og gefur að skilja þá hljóta lífslíkur innan sömu dýrategundar að haldast í hendur við lífsgæði. Karlar lifa að meðaltali 3,4 til 7,2 árum skemur en konur í þeim löndum Evrópu þar sem meðalævilengd er hæst. Hér á landi lifa karlar að meðaltali til 79,6 ára aldurs en konur til 83 ára aldurs eða tæpum 4 árum lengur en karlar. Það þykir almennt ekki ónýtt að benda á lægri meðalaldur ýmissa minnihlutahópa, s.s. svartra bandaríkjamanna, sem sönnun þess að lífsgæði þeirra séu minni en viðmiðunarhópa en þegar kemur að því að skýra minni meðalaldur karla en kvenna þá horfir málið öðru vísi við – af einhverjum undarlegum ástæðum. Eftirfarandi er t.d. tekið úr grein Morgunblaðsins um orð Kristínar Ástgeirsdóttur, núverandi Jafnréttisstýru frá ráðstefnu heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri um Konur, barneignir og siðfræði sem haldin var árið 1996: „… kom fram í erindi hennar að heilsu kvenna um allan heim hrakaði. Annars vegar væri einkum um að kenna fátækt og bjargarleysi“ Á öðrum stað er haft eftir henni um sama mál:„… Það er því mikið hagsmunamál að bæta heilsu kvenna nú þegar“. Eitthvað hefur hinsvegar farið lítið fyrir áhyggjum Jafnréttisstýrunnar af minni ævilengd karla á Íslandi. Svona til fróðleiks má svo geta þess að á Íslandi hefur munurinn á lífslíkum karla og kvenna hefur verið að minnka jafnt og þétt eftir að jafnréttisbaráttan hófst en munrinn var árið 1961 ein 5 ár eða 25% meiri en nú.
Sjálfsmorðstíðni
Síðan eru það sjálfsmorðin sem sjaldnast hafa verið tengd við það að hafa völd hjá nokkrum öðrum félagshópum. Í þessum málaflokki eru karlar mun stórtækari en konur og falla fyrir eigin hendi u.þ.b. 10 sinnum oftar en konur. Með öðrum orðum, það eru 1.000% meiri líkur á að karl fremji sjálfsvíg en kona. Ef þessu væri öfugt farið er ég viss um að efnt væri til vitundarvakningarátaks a.m.k. árlega og hver veit nema Jafnréttistofa myndi þá sjá málið í kynjuðu samhengi og láta til sín taka. Þannig má finna ummæli Kristínar Ástgeirsdóttur frá árinu 1998 þegar hún sat á þingi: „… og því miður er ástandið svo alvarlegt, eftir því sem ég las hér í glænýrri grein í The Sunday Times, að sjálfsmorðstíðni kvenna er óhugnanlega há“. Þarna talar hún um konur í Kabúl. Ekki ætla ég að draga úr því að konur í Kabúl séu hjálpar þurfi, eins og reyndar karlar í Kabúl en það hlýtur að teljast a.m.k. forvitnileg að Kristín skuli setja háa sjálfsmorðstíðni kvenna í Kabúl í samhengi við félagsleg vandamál en ekki minnast einu orði á háa sjálfsmorðstíðni karla í íslensku samfélagi og þá sem framkvæmdastýra Jafnréttisstofu sem setur hana óneitanlega í betri stöðu til að koma mögulega á jákvæðum breytingum svo ekki sé minnst á starfsskyldur hennar.
Hver er þá með völdin?
Með þessu er ég ekki að segja að karlar hafi engin völd og konur hafi öll völd. Það væri nákvæmlega jafn gölluð kenning og ríkjandi hugmyndir forréttindafémínista sem trúa því sannarlega að karlar hafi öll völd en konur engin. Kynin hafa bæði völd á ólíkum sviðum rétt eins og tveir einstaklingar í nánast hvaða formlega sambandi sem er finna með tímanum jafnvægi sem vel mætti kalla valdajafnvægi. Hinsvegar sýna ofangreindir þættir ótvírætt að það er hreinlega barnalegt að reyna að telja sér trú um að karlar séu sem hópur einhver valdastétt. Karlar þéna kannski meira en á þeim hvílir líka meiri eyðsluskylda og sóknin eftir peningum kostar karla meira félagslega og heilsufarslega.
Það sem að ofan er nefnt, auk hærri tíðni áfengis- og vímuefnavandamála, minni skólasóknar á framhaldsskólastigi, yfirgnæfandi meirihluti karla í fangelsum (yfir 95% að jafnaði) eru allt mál sem væru á dagsrká allra raunverulegra jafnréttishreyfinga enda gefur þetta ekki til kynna að karlar upplifi sig upp til hópa sem valdamikla einstaklinga – nema síður sé.
Völd væru að sjálfsögðu betur skilgreind sem vald- eða geta til að stjórna eigin lífi, ekki satt? enda getur vald og stjórnleysi yfir eigin lífi varla farið saman og hver kærir sig um eða sækist eftir völdum sem leiða ekki til betri lífsgæða?
Ef þetta eru völd þá þakka ég pent og segi nei takk við völdum. Að mínu mati blasir við að skilgreining forréttindafemínista á völdum á sér engar rætur í jafnréttishugsjón heldur er hún ekkert annað en liður í baráttu hreyfingarinnar fyrir völdum og forréttindum á kostnað karla. Sem slík hefur þessi skilgreining þjónað þeim vel og mun gera allt þangað til karlar láta í sér heyra og hafna rökvillum sem þessari með vísan í sinn eigin reynsluheim – ef það gerist þá einhverntíman.
SJ
2.1.2010
Blogg