Kvennaþing

1.7.2015

Blogg

Lagasetning sem afnemur kjörgengi karla á grundvelli kyns með það fyrir augum að hér á landi verði Alþingi einungis skipað konum.

Þetta er hugmynd Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. Hugmyndina viðraði hún úr ræðustól Alþingis þann 2. júní sl. Á sjálfu 100 ára afmælisári kosninga- og kjörgengisréttar kvenna.

Ragnheiður leggur til að lög geri kvennaþingið bindandi til tveggja ára, frá 2017 til 2019. Eftir það geti kjósendur velt því fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegra að gera Alþingi Íslendinga að kvennaþingi.

Orðrétt:

ragnheidur rikhardsdottir

Ragnheiður Ríkharðsdóttir vill setja lög sem afnema kjörgengi karla fyrir næstu alþingiskosningar.

,,Í öðru lagi varpa ég fram þeirri róttæku hugmynd hvort það væri möguleiki í kosningunum árið 2017 að lögbinda að þá sitji eingöngu konur á þingi í tvö ár, frá 2017 til 2019, þ.e. að kosið verði til kvennaþings til tveggja ára. Konur fá þá tækifæri til að sýna fram á hvort það sé í raun satt, sem haldið er fram, að vinnubrögð kvenna séu með öðrum hætti en vinnubrögð karla. Þingið yrði stutt, það yrði tvö ár, og að loknu því þingi gæti þjóðin sjálf að sjálfsögðu og þeir sem að kosningu koma velt því fyrir sér hvort skynsamlegra væri að hafa kvennaþing.“

Viðbrögðin við svona hugmyndum ættu auðvitað að vera þau sömu og ef karlmaður hefði í fullri alvöru stungið upp á því, að karlar einir yrðu kjörgengir á Alþingi sakir eðliskosta sem þeir hefðu umfram konur. Við ættum að fordæma ummælin eða jafnvel hunsa þau, setja hugmyndasmiðinn á bekkinn ef svo má að orði komast.

En þannig hafa viðbrögðin við hugmynd Ragnheiðar ekki verið. Síður en svo. Sú sem kemur í ræðustól á eftir Ragnheiði, Steinunn Þóra Árnadóttir (VG), tekur vel í hugmyndina sem hún lýsir sem ,,mjög áhugaverðri hugmynd sem við ættum að taka til alvarlegrar skoðunar“.

Vísir talar um ,,merkilega tillögu“ og sýnir okkur hvernig kvennaþingið liti út m.v. úrslit síðustu kosninga. Nokkuð bar á þessu máli í útvarpsþáttum og tekið var viðtal við Ragnheiði í a.m.k. einum þætti vegna málsins.

Andrúmsloft þessara viðtala hefur verið allt annað og vinalegra en ef til umræðu hefðu verið hugmyndir um að gera einhvern annan þjóðfélagshóp en karla ókjörgengan fyrir næstu alþingiskosningar. Þetta treysti ég mér til að fullyrða.

Tæpum þremur vikum seinna kemur svo viðlíka hugmynd upp hjá þingkonunni Lilju Rafney Magnúsdóttur, Vinstri Grænum. Einnig úr ræðustól Alþingis.

Orðrétt:

lilja rafney magnusdottir

Lilja Rafney Magnúsdóttir telur að tími sé til kominn að vaskar konur að taki við af vælandi karlmönnum.

,,Við héldum veglega upp á aldarafmæli kosningaréttar kvenna og kjörgengi. Er ekki bara rétt að við skipum hér vaskan hóp kvenna til þess að reyna að taka stjórn á þinginu og koma einhverju verklagi á þingstörf og ljúka þessum málum? Mér sýnist að þeir karlmenn sem eru hér í forsvari, hæstv. fjármálaráðherra og fleiri, séu hér með eilífan væl og leggi ekkert til málanna og þeir ættu bara að afhenda konum í sínum flokki og öðrum flokkum það verkefni að ljúka þingstörfum. Það er ekki hægt að koma hérna trekk í trekk og væla yfir því að stjórnarandstaðan hafi eytt svo miklum tíma í fundarstjórn og þess vegna sé ríkisstjórnin með allt niðrum sig. Það er bara ekki þannig.“

Báðar þessar konur, Lilja og Ragnheiður, gera sig hér sekar um stæka kynjahyggju (e. sexism). Þeim finnst í lagi að tala eins og þær áskoranir sem þær mæta í störfum sínum fyrir þingið, séu allar karlmönnum að kenna og það sé sakir eðlislægra galla karlkynsins sem svo sé. Þetta viðhorf sýnir að þessum konum finnst skoðanir karla minna virði en skoðanir kvenna. Skoðanirnar eigi hreinlega ekki rétt á sér.

Kynremban leynir sér svo ekki í þeirri hugmynd að ef við aðeins leyfum konum að spreyta sig, í friði fyrir þessum fávitum, þá leysist hér öll vandamál af sjálfu sér vegna þess að konur séu svo óendanlega klárar.

Þessi hugmynd hefur verið áberandi meðal forréttindafemínista allt frá hruni. Samkvæmt þessari ,,kenningu“ femínista var hrunið einmitt körlum og karlhormónum að kenna. Til þess hefði ekki þurft að koma ef aðeins okkur hefði borið gæfa til að hafa fleiri snillinga af kvenkyni í brúnni. Konur sem nú þyrftu af annáluðu kvenlegu göfuglyndi sínu að ,,taka hér til eftir karlmennina“.

Skotmörk þessa ógeðfelldu og fordómafullu viðhorfa virðast undanfarin misseri í síauknum mæli vera karlmenn í stjórnmálum. Talað er um ,,frekjukallapólitík“ eins og ekkert sé eðlilegra svo ekki sé nú minnst á rómantíkerana sem barma sér yfir því sem þeir kalla ,,átakapólitík“ eins og pólitík geti einhverntíman orðið laus við átök.

Ég velti stundum fyrir mér hvort síðarnefndi hópurinn vilji kannski taka af skarið, leggja niður vopn sín og veita markmiðum pólitískra andstæðinga sinna brautargengi. Svona í þágu lífsspeki sinnar. Ég efast stórlega um það.

Daginn sem ég heyrði fréttaumfjöllun um hugmynd Ragnheiðar sat ég til borðs með fjögurra ára gömlum dreng. Eins og aðrir drengir á hans aldri er hann hrekklaus, lífsglaður og ljúfur. Hann er vitaskuld enn algjörlega grunlaus um þá viðbjóðslegu kynjahyggju sem forréttindafemínistar ala nú á við hvert tækifæri. Kynjahyggju sem hann mun þó líklega ekki geta komist hjá að finna á eigin skinni síðar meir.

Ég gat ekki varist því að leiða hugann að því hvaða áskoranir bíða þessa drengs sem mun að líkindum fullorðnast inn í samfélag sem er það þrúgað af karlfyrirlitningu að við erum til í að diskútera hugmyndir um að afnema mannréttindi karla af því að þeir eru karlar og af því að það hentar konum. Hugmyndir sem spretta upp úr jarðvegi, plægðum af konum eins og Ragnheiði og Lilju. Samfélag sem virðist í síauknum mæli líta á þennan dreng sem gallaða manneskju og finnst bara ekkert að því að slíkum skoðunum sé básúnað á opinberbum vettvangi.

Ragnheiður, Lilja, þið getið fagnað kosninga- og kjörgengisrétti kvenna á hundrað ára afmæli hans. Þið getið óskapast yfir því misrétti sem sannarlega fólst í því að konur hefðu ekki kosningarrétt á sínum tíma. En þið getið í sömu andrá mælt fyrir því að karlar verði nú beittir þessu misrétti á grundvelli kyns síns. Að því er virðist eingöngu vegna þess að þetta myndi gera vinnuna ykkar einfaldari dag frá degi.

Í þessu felst siðferðisleg ósamfella sem ég held að fæstir nái að sýna af sér án þess að blikna.

Til hamingju með það.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

, ,

2 athugasemdir á “Kvennaþing”

  1. Gunnar Says:

    Það er nauðsynlegt að gleyma því ekki að það voru fleiri en konur sem fengu kosningarétt þennan dag fyrir hundrað árum síðan.

    • Sigurður Says:

      Jú mikið rétt. Meirihluti karla var auðvitað ekki með kosningarétt heldur fyrir þennan tíma.

%d bloggurum líkar þetta: