Skapabarmafárið

9.3.2013

Blogg

Hinn árlegi og alþjóðlegi baráttudagur kvenna var í gær en þá notuðu femínistar tækifærið til gráta opinberlega þau örlög sín að hafa fæðst konur og buðu okkur upp á fjölþætta kynningu á því nýjasta í femínísku harmaklámi.

muffin_skapabarmar_vagina

Skildi þessi múffa hafa jákvæð eða neikvæð áhrif á sjálfsmynd kvenna?

Langsamlega skemmtilegasti dagsrkárliðurinn var tvímælalaust skapabarmaráðstefnan sem haldin var á Akureyri. Fyrir þá sem sáu ekki fréttir af því, þá stóðu Zontaklúbbarnir á Akureyri í samstarfi við Jafnréttisstofu, FSA, Akureyrarbæ, Íslandsbanka, Landsbankann og Sparisjóð Höfðhverfinga fyrir hádegisfundi á Hótel Kea um útlitsdýrkun og lýtaaðgerðir.

Þessi viðburður og dagskrá hans var kynnt nokkrum dögum áður á vef Jafnréttisstofu með eftirfarandi orðum: „Á fundinum mun Ebba M. Magnúsdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir velta fyrir sér hvers vegna konur fara í lýtaaðgerðir og afleiðingum þeirra, hvað stýrir sjálfsmynd kvenna á 21. öldinni og hvort útlitsdýrkun sé farin út fyrir ákveðin mörk“.

Með öðrum orðum; í gær fóru peningar, sem teknir hafa verið af vinnandi fólki í formi skatta, í það að fjármagna hádegishitting nokkurra femínista sem vildu hlusta á Ebbu velta því fyrir sér hvers vegna konur fara í lýtaaðgerðir og hvort útlitsdýrkun þeirra sé ekki farin út fyrir mörk þau sem Ebba vill setja öðrum fullorðnum konum.

Ebba hefur greinilega miklar áhyggjur af lausagöngu kvenna m.t.t. ásóknar þeirra í lýtaaðgerðir, einkum hvað varðar ásókn þeirra í aðgerðir til að breyta skapabörmum sínum.

Eins og sannur forréttindafemínisti virðist hún aukinheldur þeirrar skoðunar að það að konur fari í aðgerðir til að breyta skapabörmum sínum sé karlmönnum og kláminu þeirra að kenna, nema hvað?

Ég vitna í viðtal við hana á mbl.is:

„Ég held að ein af ástæðunum sé að þetta sé afleiðing klámvæðingarinnar. Eða hvar annars staðar en í klámmyndum ættu konur annars að sjá skapabarma, sem þær bera saman við sína eigin og komast að þeirri niðurstöðu að þeir séu óeðlilegir í útliti? Fullkomlega eðlilegar konur halda skyndilega að þær séu ekki eðlilegar, einhvers staðar sjá þær fyrirmyndirnar.”

og:

„Það eru engin hár þar sem þau ættu að vera og þá líta kynfærin auðvitað allt öðruvísi út. Annars finnst mér mjög óeðlilegt þegar fertugar konur vilja líta út eins og níu ára á þessu svæði.”

Til að ljá þessum viðburði tilhlýðilegan alvarleikablæ sömdu femínistarnir svo ályktun í lok fundar og sendu fjölmiðlum.

Svona gerði mbl.is ályktuninni skil:

Klámvæðing og útlitsdýrkun hefur leitt til hættulegrar þróunar, ekki síst varðandi kynheilbrigði kvenna. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi á Hótel KEA í dag sem haldinn var að frumkvæði Zontaklúbbanna á Akureyri á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Samfélagið allt, stjórnvöld, heilbrigðis- og menntakerfi og foreldrar, þarf að spyrna við fótum og berjast gegn limlestingum á kynfærum kvenna en aðgerðir á kynfærum kvenna hafa færst mjög í vöxt á síðustu árum. Sérstaklega hefur fjölgað aðgerðum þar sem innri skapabarmar kvenna eru skornir og styttir, segir í ályktuninni.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO skilgreinir ýmsar aðgerðir á kynfærum kvenna sem limlestingar, til dæmis brottnám hluta kynfæra og það að setja lokka í kynfæri.

Fundurinn skorar á Alþingi að setja hið allra fyrsta lög sem banna umskurð og aðrar limlestingar á kynfærum kvenna í samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins“

Ekki ber á öðru en að tilfinningarnar hafi hreinlega borið femínistana ofurliði á hádegisfundinum sem, af ályktuninni að dæma, virðist hafa verið mikill hitafundur. Það þarf hreinlega allan heiminn í málið til að stöðva þá öfugþróun að konur hafi ákvörðunarrétt yfir eigin líkama og umgangist þann rétt á annan hátt en Ebba myndi gera.

Til fróðleiks vitna ég hér í eldri frétt á mbl.is um þessar aðgerðir sem er öllu hófstilltari. Þar segir þetta um aldur kvennana og ástæður þess að þær fara í svona aðgerðir:

„Lýtalæknir, sem hefur framkvæmt allnokkrar aðgerðir af þessu tagi segir fáar kvennanna vera tiltölulega ungar og í langflestum tilvikum taki þær þessa ákvörðun að vel athuguðu máli og vegna þess að þær hafi orðið fyrir óþægindum vegna stórra skapabarma“

Semsagt, hér er augljóslega mikil og bráð hætta á ferðum sem kallar á viðbrögð stjórnvalda, heilbrigðis- og menntakerfis, foreldra, alþingis og samfélagsins alls til að sporna við því að fullorðnar konur greiði lýtalæknum fyrir að limlsesta sig. Ekki nóg með það, heldur skora femínistarnir á alþingi að setja lög sem hreinlega banni fullorðnum konunum að fara í svona aðgerðir. Já, og opna líka umræðuna um þetta í leiðinni.

Að konur skuli í stórum stíl aðhyllast þessa „kvenfrelsisstefnu“ er og verður mér hulin ráðgáta. Ebbu og skoðanasystrum hennar bendi ég á æðruleysisbænina sem langtum hagkvæmari og nærtækari lausn á því gríðarlega vandamáli sem hér blasir við.

SJ

| Taktu þátt | Óskast | Rannsókna- & heimildasafn |

10 athugasemdir á “Skapabarmafárið”

 1. Krímer Says:

  Eru konur sem sagt upp til hópa að horfa á klámmyndir?

  • Eva Hauksdóttir Says:

   Nei, konur horfa ekki á klám. Það eru karlarnir sem horfa á klám og segja svo „oj nei, ég vil ekki ríða þér því þú ert með svo ljóta píku“ þegar daman fer úr nærbuxunum. Ég meina hver kannast ekki við þetta?

 2. tudid Says:

  Æh, ég veit það ekki. Mér finnst eitthvað klikkað við þessar aðgerðir, alveg eins og mér þykir umskurður karla klikk. Þessi kona, Ebba er starfandi læknir og hefur örugglega séð og heyrt ýmislegt sem við hin höfum ekki. Til dæmis segir hún að hún hafi hafnað konum um aðgerð á skapbörmum vegna þess að það hafi ekki verið þörf á að laga þá. Ég get ekki neitað því að læknir muni mögulega ljúga að almenningi í krafti stöðu sinnar, það eru mýmörg dæmi um slíkt. En kannski eru konur í auknum mæli að sækja í þessar aðgerðir vegna áhrifa á einhverju sem á að teljast norm, ég get bara tekið orð Ebbu fyrir því, vegna þess að mér skilst að það sé ekki til nein opinber statistík yfir svona aðgerðir.

  Auðvitað er líkaminn okkar og við ættum að meiga skera af okkur eyra ef okkur sýndist svo. En mér finnst ekkert að umræðunni um að það sé kannski varhugavert að reyna að steypa píkunni í eitthvað sem á að teljast norm með lýtaaðgerðum.

  Hvað eru þær samt að reyna að troða kynfæralokkum inn í þessa umræðu? Hún kemur málinu bara ekkert við.

  • Sigurður Says:

   Velkominn og takk fyrir innleggið.

   Fyrir mér má hver sem er ræða hvað sem er. Ef allir hafa sama frelsi til að hafa og tjá skoðanir í samfélaginu þá deyja vondar hugmyndir af sjálfu sér og samfélaginu stendur ekki ógn af þeim.

   Þetta er hinsvegar meira en umræða. Hér var verið að skora á Alþingi að bregðast við því með banni, að fullorðnar konur skuli kjósa það sjálfar að fara í tilteknar lýtaaðgerðir. Og ekki bara það, heldur er það meðal annara, Jafnréttisstofa sem stendur að þessari áskorun um að skerða frelsi kvenna út frá hugmyndum nokkurra kvenna sem mættu á þennan hádegisverðarfund.

   Er fólk ekki komið í ógöngur þegar því finnst skoðanir sínar svo frábærar að það ætti að leiða þær í lög jafnvel þó enginn skaðist af því sem um er að ræða og sumum finnst kannski „klikkað“, ósiðlegt eða ósmekklegt? Hvar ættum við að stoppa ef það er á annað borð rétt að hefja slíka vegferð?

   • tudid Says:

    Takk fyrir og gaman að vera hér, mjög áhugavert blogg. Það er gjörsamlega fáránlegt að ætla með lagasetningu að meina fólki að gangast undir hnífinn á þeim forsendum að einhverju fólki út í bæ (eins og mér) finnist það ,,klikkað“. Og jú, fólk er svo sannarlega komið í ógöngur þegar ,,því finnst skoðanir sínar svo frábærar að það ætti að leiða þær í lög“. En ætti það samt ekki að vera eðlilegt að reyna að fá fólk ofan af því að gangast undir stórar aðgerðir til að þóknast einhverjum? Auðvitað á öllum að vera frjálst að limlesta sig eins og þeim lystir að því gefnu að vera sjálfráða. Ég er til dæmis með tveggja sentímetra gat í eyranu sem að móður minn og föður þykir ekkert allt of fallegt. En mér finnst samt ekkert að því að vekja fólk til umhugsunar um það að maður sé einungis að reyna að passa við einhvern effekt sem er bara til í Photoshop með svona aðgerðum. En ef fólk vill það þá er það auðvitað sjálfsagt.

    • tudid Says:

     Afsakið, missti eiginlega af pointinu hjá þér, auðvitað á ekki að banna fólki að gera það sem það vill við sinn eigin líkama.

 3. Siggi Sigurðsson Says:

  Þarna er verið að nota röksemdir á móti limlestingum á stúlkubörnum, gegn vilja þeirra, til að stöðva fullvaxta og lögráða konur í að taka ákvarðanir um eigin líkama. Svo er kláminu náttúrulega komið inn í líka, því eilífðartrompi, og kynfæralokkum líka. Þessi rökfærsla er einn samsláttur (e. conflation) frá upphafi til enda.

  Það verður svo seint sagt að feministar hafi mikið álit á vitsmunum og geðstyrk kvenna.

  Mætti ekki alveg eins segja að kynskiptiaðgerðir séu tískubóla og rugl með sömu rökum?

  Það eru alla vega nokkrir gæðafeministarnir sem hafa gengið svo langt: http://www.guardian.co.uk/commentisfree/2012/may/25/radical-feminism-trans-radfem2012?INTCMP=SRCH

  Blessunarlega höfum við ekki séð transfordóma (enn) hjá feminustum á Íslandi, væntanlega vitandi að þeir kæmu sér endanlega út úr húsi með slíkum málflutningi.

  • Sigurður Says:

   Skemmtileg frétt sem þú bendir á.

   Svona var þessu nú líka háttað með íslandsvininn Germaine Greer sem íslenska kvennahreyfingin hóf upp til skýja hér um árið.

   Hún setti sig upp á móti því að kynskiptingurinn Rachael Padman fengi að starfa við Newham kvennaháskólann vegna þess að hún hafi fæðst sem karlmaður.

 4. Gunnar Says:

  Fasistar. Það virðast engin takmörk fyrir því hvað þetta lið vill banna öðru fólki.

%d bloggurum líkar þetta: