Bækur: This Way to the Revolution: A Memoir

25.2.2013

Bækur

erin_pizzey_this_way_to_the_revolutionÉg er eiginlega hálf skömmustulegur yfir að hafa ekki verið löngu búinn að kynna verk Erin Pizzey fyrir lesendum síðunnar. Þessi magnaða kona er þekkt nafn innan karlahreyfingarinnar og raunar kvennahreyfingarinnar einnig en hún vann sér það m.a. til frægðar að stofna eitt fyrsta kvennaathvarf í heiminum, Kvennaathvarfið í Chiswik, Lundúnum árið 1971.

Pizzey er óumdeildur frumkvöðull í baráttunni gegn heimilisofbeldi og vann gríðarlega markvert starf við uppbyggingu athvarfa fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis á áttunda áratug síðustu aldar undir nafninu Chiswik Women’s Aid en þau samtök starfa nú undir nafninu Refuge.

Bókin, This Way to the Revolution: A memoir, er nýjasta bók Pizzey en í allt hefur hún skrifað einar tuttugu bækur. Segja má að bókin sé einskonar uppgjör hennar við tímann sinn hjá athvarfinu, við yfirvöld sem reyndust henni á stundum erfiður ljár í þúfu og femínistahreyfinguna sem útskúfaði henni. Hér fáum við líka, af fyrstu hendi, fróðlega innsýn í það hvernig róttækur femínismi skaut rótum í bretlandi undir lok sjöunda áratugarins og í byrjun þess áttunda.

Pizzey fæddist í Kína og ólst þar upp hluta æskuáranna vegna starfa föður síns fyrir bresku utanríkisþjónustuna. Þar kynntist hún skuggahliðum kommúnismans og gat því illa munstrað sig við daður breskrar æsku við kommúnismann, sem var áberandi á þessum árum. Hún fékk fljótlega illan bifur á hreyfingu róttækra femínista sem var að formast á þessum tíma. Raunar var henni vísað úr hreyfingunni sem virtist hafa lítið þol fyrir gagnrýni á hugmyndir sínar um að konur væru þrælar karla og að heimilin væru ekki mikið annað en lúxusfangelsi fyrir konur.

Núningurinn milli Pizzey og femínistahreyfingarinnar var þó bara rétt að byrja þarna því himinn og haf skilur að kenningar hennar um eðli og orsakir heimilisofbeldis og kenningar þær sem femínistar aðhyllast. Að mati Pizzey er heimilisofbeldi ekki kynbundinn vandi og hann hefur ekkert með valdakerfi kynja að gera heldur. Skv. Pizzey eru konur oftar en ekki virkir þátttakendur í ofbeldinu, bæði gagnvart börnum sínum og mökum en rannsóknir hennar á skjólstæðungum athvarfsins í Chiswick staðfestu þetta og það gera reyndar líka seinni tíma rannsóknir.

Fyrir vikið stóðu athvörf hennar opin drengjum sem komu úr ofbeldisaðstæðum og karlmenn voru meðal starfsmanna þeirra athvarfa sem Pizzey rak. Þess má geta að sambærileg athvörf, rekin af femínistum, lokuðu dyrum sínum á drengi allt niður í 9 ára aldur á þeirri forsendu að aðeins drengirnir tækju upp ofbeldishegðun við það að lifa við heimilisofbeldi og væru því hættulegir.

Pizzey fer ekkert í grafgötur með þá skoðun sína að femínistar hafi yfirtekið málaflokkinn til að fjármagna hreyfingu sína og útbreiðslu hugmyndafræði karlfyrirlitnignar. Þá er nokkuð fróðlegt að lesa um þær ofsóknir sem hún mátti sæta af hendi femínista. Það að hún skyldi voga sér að andmæla hugmyndum femínista um að heimilisofbeldi væri kynbundinn vandi sem ætti rætur að rekja til valdakerfa karla, ávann henni marga óvildarkonuna innan femínistahreyfingarinnar.

Bókin varpar líka ljósi á hvað þáttur karla í uppbyggingu kvennaathvarfa var í raun mikill en það voru karlar sem sinntu viðhaldi og endurgerð húsa frítt ásamt því að veita ungum skjólstæðingum athvarfanna liðveislu. Þá komu karlar að fjármögnun samtakanna með rausnarlegum hætti.

Ómissandi bók fyrir áhugafólk um öfgafullan femínisma og málefni heimilisofbeldis eða hið svokallaða kynbundna ofbeldi.

Útgáfuár: 2011
Síðufjöldi: 292

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

One Comment á “Bækur: This Way to the Revolution: A Memoir”

  1. Sigurjón Says:

    Takk fyrir þetta Sigurður. Mögnuð kona, hún Pizzey.

%d bloggurum líkar þetta: