Íslenska leiðin skaðleg fyrir kynlífsþjóna

24.11.2012

Blogg, Myndbönd

Frændur vorir danir hafa um skeið verið að íhuga að taka upp hina svokölluðu sænsku leið. Þ.e. að banna kaup á vændi en ekki sölu þess eins og nú er í Svíþjóð, Noregi og á Íslandi. Margir hafa eflaust beðið spenntir eftir því að sjá hvað danir gerðu, enda hafa þeir lagt í mikla vinnu við að meta kosti og galla sænsku leiðarinnar.

Dómsmálaráðherra Danmerkur, Morten Bödskov, hefur nú tilkynnt að stjórn sín muni ekki taka upp sænsku leiðina um bann gegn vændiskaupum. Þessi ákvörðun er tekin á grundvelli 900 síðna skýrslu Refsilagaráðs Danmerkur (Straffelovrådet), en hún byggir á vinnu sem unnin hefur verið síðan 2009.

Í skýrslunni segir að bann við kaupum á vændi geri allt annað en að bæta stöðu kynlífsþjónustufólks. Líklegt sé að bann leiði til verri félagslegra aðstæðna fyrir hópinn og að líklegt þyki að bann auki á fordóma í samfélaginu fyrir fólki sem starfi við kynlífsþjónustu. Nálgast má skýrsluna hér.

Svo einkennilega vill til að þessar upplýsingar hafa alltaf legið fyrir. Ef fólk aðeins leggur við hlustir, heyrir það að þetta er það sem málsvarar kynlífsþjónustufólks hafa alltaf verið að halda fram. Þetta, og að bann við vændiskaupum beinlínis auki mansal.

Mér hefur alltaf fundist að femínistar hafi, með baráttu sinni  gegn vændi, haft eitthvað allt annað en velferð kynlífsþjóna að meginmarkmiði og mig grunar nú að baráttan hefði aðra áferð í höndum fólks sem ekki væri heltekið af karlfyrirlitningu.

Mér finnst t.d. stórkostlega undarlegt að fulltrúar Svía á Evrópuþinginu hafi sett sig upp á móti því að rætt yrði við málsvara fólks í kynlífsiðnaði þegar setja ætti lög sem áhrif hefðu á aðstæður þeirra, hafandi áður samþykkt samhljóða að börn ættu að koma að setningu laga er vörðuðu hagsmuni þeirra.

Til eru fleiri dæmi sem sýna mér að markmið femínistahreyfingarinnar gætu verið önnur en þau sem opinberlega eru sett fram. Þegar Petra Östergren, þekktur sænskur femínisti, gaf út bók sem setti spurningamerki við það að sænska leiðin væri jafn skynsamleg og af var látið, bókina Porr horor, och feminister, var henni útskúfað úr sænsku femínistahreyfingunni.

Sjálf hefur hún lýst því hvernig málsmetandi forréttindafemínistar höfðu samband við samstarfskonur hennar innan hreyfingarinnar, kunningja hennar og útgefendur og hvöttu þá til að láta af samskiptum við Petru. Henni var ekki lengur boðið á ráðstefnur og málþing um ofbeldi eins og áður og þegar hún tók þátt sem áheyrandi mætti hún kaldri framkomu. Konur sem jafnvel höfðu starfað með henni árum saman innan femínistahreyfingarinnar hættu jafnvel að heilsa henni úti á götu.

Það að danir hafi hafnað sænsku leiðinni skapar auðvitað ákveðin óþægindi fyrir íslenska forréttindafemínista. Einhver hlýtur að spyrja sem svo hvernig hreyfingin líti á þessar „nýju“ upplýsingar og hvort ekki þurfi að endurskoða lögin þar eð ein meginröksemdin fyrir setningu þeirra var sögð sú að þetta drægi úr mansali og eymd.

Ég ætla að spá því að annað hvort af tvennu gerist:

  1. Að enginn íslenskur stjórnmálamaður muni hafa kjark til að spyrja hvort tilefni sé til að endurskoða íslenska vændislöggjöf á grundvelli þessara upplýsinga og forréttindafemínistar láti eins og þessar fréttir hafi farið fram hjá þeim og steinþegja yfir þessu.
  2. Að einhver opni á umræðu um þetta en að íslenskir forréttindafemínistar bregðist við með því að segja að ekki sé byggjandi á þessari rannsókn eða að hér á landi sé vandamálið öðruvísi en í Danmörku, rannsóknir þeirra sýni það.

Tilfellið er nefninlega það að vændismálaflokkurinn sem femínistar segjast jafnan vera sérfræðingar í, er enn eitt dæmið um það hvernig forréttindafemínistar hafa með blöndu af óvönduðum og fölsuðum rannsóknum komist að „niðurstöðu“ sem tíminn mun leiða í ljós að er byggð á sandi.

Hér er stutt viðtal sem Stöð 2 tók við Pye Jakobsson, talsmann kynlífsþjónustufólks í Svíþjóð í ágúst á þessu ári. Hér telur hún upp hvernig hin femíníska rétttrúnaðarstefna vinnur gegn vændisfólki. Þá varar hún við sænsku leiðinni.

Þá er ekki úr vegi að benda á lengra og ítarlegra viðtal við Pye sem birtist hér textað fyrir nokkru. Sjá hér.

SJ

Taktu þátt | Óskast Rannsókna- & heimildasafn |

,

2 athugasemdir á “Íslenska leiðin skaðleg fyrir kynlífsþjóna”

  1. Siggi Sigurðsson Says:

    Feministar eru duglegir við að nota slut-shaming (druslusök?) þegar kemur að kynlífsþjónum. Því ef þær eru ekki fórnarlömb mansals, þá eru þær víst með svo svakalega lélega sjálfsmynd að þær vita ekki hvað þeim er fyrir bestu. (Nota Bene: Það er ekki byggt á neinum rannsóknum. Það eitt að þær vinni í þessum iðnaði er nefnilega eitt næg ástæða til að teljast með sjálfsmynd í molum).

    Því er engin ástæða til að tala neitt við þær þegar kemur að því að „verja“ þær fyrir graðköllum.

    • Sigurður Says:

      Velkominn og takk fyrir innleggið.

      Enginn talar af eins mikilli vanvirðingu um kynlífsþjónustufólk eins og femínistar.

      Drusluskömm kannski?

%d bloggurum líkar þetta: