Svar Jafnréttisstofu v. ritstjórnar Kynungabókar

27.11.2011

Blogg

Lesendur bloggsins hafa líklegast ekki farið varhluta af áhuga mínum á Kynungabók. Áhugi minn beinist bæði að innihaldi og umgjörð en mér þótti sérstaklega áhugavert að ritstjórn Kynungabókar var aðeins skipuð konum. Í þessu sambandi sendi ég Mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrirspurn sem endaði með misvísandi svörum og breytingar á útgáfuupplýsingum bókarinnar eins lesendur þekkja og fram kom hér. Með þessa niðurstöðu snéri ég mér því til Jafnréttisstofu sem skv. jafnréttislögum á að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og auka virkni í jafnréttismálum, m.a. með aukinni aðild karla að jafnréttisstarfi eins og segir í fjórðu grein laganna.

Ég sendi því eftirfarandi til Jafnréttisstofu:

„Góðan dag,

Ég gerði mér lítið fyrir og las fyrir stuttu Kynungabók, kennslubók í jafnrétti kynjanna, sem nýlega var gefin út af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þið kannist líklega við ritið.

Ég verð að segja að það vakti strax athygli mína hvernig ritstjórn Kynungabókar er skipuð en í henni sitja fimm konur og enginn karl. Þetta hlýtur að verða að teljast markvert þar sem því er svo háttað – með nefndir á vegum ríkis og sveitarfélaga – að það er algerlega skýrt í lögum að hlutur hvors kyns skal vera að lágmarki 40 prósent, nema alveg sérstök rök séu fyrir því að svo sé ekki. Það sem er kannski enn alvarlega í þessu tilviki er að þessu riti er ætlað að vera kennslubók í jafnrétti fyrir ungmenni á aldrinum 15 – 25 ára á þremur skólastigum, sem gerir það miklu mun bagalegra að aðstandendur og útgefendur ritsins skuli ekki hafa séð sér fært að fara eftir lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla en að sjálfsögðu á ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi.

Þar sem mér er kunnugt um að Jafnréttisstofa hefur beitt sér í málum af þessum toga, jafnvel án þess að fyrir hafi legið formleg kvörtun langar mig að spyrja hvenær stofnunin hyggst ganga í það að kanna hversvegna Mennta- og menningarmálaráðuneytið braut jafnréttislög í þessu tilviki og hvort stofnunin muni krefjast endurbóta í mögulegum síðari útgáfum Kynungabókar?

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Svarið barst mér um hæl og var svohljóðandi:

„Sæll aftur Sigurður 

Varðandi kynungabókina þá er það leitt að ekki skuli vera jafnt kynjahlutfall í ritnefndinni og verður þú að koma þeim ábendingum áframfæri við menntamálaráðuneytið. Því miður er það þannig að það eru ekki margir karlar sem starfa að jafnréttismálum svo ég get ímyndað mér að það hafi verið erfitt fyrir ráðuneytið að finna marga karla sem hafa reynslu og þekkingu til að taka þetta verkefni að sér. 

Kv.

Ég vissi vel, áður en ég sendi Jafnréttisstofu erindi mitt, að það myndi ekki leiða til þess að stofnunin beitti sér í þessu máli. Ég verð þó að segja að það kom mér nokkuð á óvart hve auðveldlega stofnunin ætlaði að afgreiða þetta mál. Efnislega er mér bara bent á að hafa samband við aðilann sem kvörtunin beinist gegn og benda á þetta. Nokkuð sem ég efast um að stofnunin hefði lagt til væri málum öfugt farið.

Þessi sama Jafnréttisstofa hefur hingað til ekki séð ástæðu til að sýna meintum brotaaðilum þessa tillitsemi þegar á konur hallar. Dæmi um það er þegar Fjármálaráðuneytið skipaði nefnd um endurskoðun skattalaga sem í sátu 5 karlar og ein kona. Í því máli þótti Jafnréttisstofu tilefni til skjótra viðbraðga eins og fram kemur í viðtali við Kristínu Ástgeirsdóttur, framkvæmdastjóra stofnunarinnar á Vísi.is á síðasta ári og ég vitna til í kvörtun minni hér fyrir neðan. Svona til að skemmta skrattanum ákvað ég að nota nákvæmlega sama orðfæri og hún notaði í því viðtali í fyrri kvörtun minni.

Ég sendi því eftirfarandi til Jafnréttisstofu:

„Heil og sæl. Gaman að heyra frá þér aftur.

Það vill nú svo til að ég var búinn að tala við Mennta- og menningarmálaráðuneytið áður en ég snéri mér til Jafnréttisstofu en takk fyrir ábendinguna. Jafnréttisfulltrúi þess, Jóna Pálsdóttir svaraði mér eftir ítrekanir mínar en gaf þá svör sem ég tel að geti ekki með nokkru móti talist gildar ástæður fyrir því að vikið sé frá kynjakvótaákvæði núgildandi jafnréttislaga. Raunar má segja að ráðuneytið hafi varla gert tilraun til þess að benda á ástæður er réttlætt gætu undanþáguna, fremur var um að ræða réttlætingar sem voru erindi mínu alls óviðkomandi en í svari sínu segir Jóna m.a. að einhverjir ótilgreindir karlmenn hafi komið með athugasemdir við gerð bókarinnar, karl hafi séð um hönnun bókarinnar og annar karl hafi fengið að teikna í hana myndir til skreytingar. Þá eru fyrri og núverandi störfum þeirra kvenna er sæti eiga í ritstjórn Kynungabókar gerð góð skil og það sagt til marks um að ritstjórnin hafi því síst verið valin af handahófi svo ég vitni nú bara í svar Jónu.

Ég verð þó að lýsa sérstökum vonbrigðum yfir því að Jafnréttisstofa skuli álíta þetta svona léttvægt mál og benda mér á að tala bara við brotaaðila sem hefur með svari sínu staðfest einbeittan brotavilja og virðist ekki sjá neitt athugavert við famgöngu sína. Ég bendi í þessu sambandi á annað mál sem ratað hefur á borð Jafnréttisstofu og sagt var frá í Fréttablaðinu þann 21. apríl 2010 og lesa má á vísi.is (sjá hér) um starfshóp sem fjalla átti um breytingar á skattkerfinu. Í því tilviki var um sex manna hóp að ræða sem í sátu fimm karlar og ein kona. Þegar það mál kom upp sá Jafnréttisstofa ástæðu til að bregðast leiftursnöggt við, senda hlutaðeigandi ráðherra bréf, óska skýringa og að skipað yrði á ný í starfshópinn. Ekki kom fram í fréttinni að Jafnréttisstofu hefði borist kvörtun heldur mátti skilja sem svo að þarna hefði stofunin tekið málið fyrir af eigin frumkvæði. Í tilviki Kynungabókar er brotið mun alvarlegra og augljósara en hið fyrra þar eð í ritstjórn situr enginn karl, bara konur, og það ritstjórn bókar sem ætlað er að uppfræða ungmenni um jafnréttismál. Með réttu má því segja að orð Kristínar í áðurgreindri frétt eigi enn betur við í þessu tilviki.

Hafandi nú bent Jafnréttisstofu á þessa hliðstæðu, sem sjálfsagt hafði bara gleymst vegna anna stofnunarinnar við að stinga á annarskonar kýlum, efast ég ekki eitt stundarkorn um að Jafnréttisstofa sjái nú mikilvægi þess að bregðast hratt og vel við með hörðum aðgerðum gegn Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, ætli stofnunin að taka sig alvarlega. Því spyr ég á ný, hvenær stofnunin hyggst ganga í það að kanna hversvegna Mennta- og menningarmálaráðuneytið braut jafnréttislög í þessu tilviki og hvort stofnunin muni krefjast endurbóta í mögulegum síðari útgáfum Kynungabókar?

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Í svari Jafnréttisstofu sem mér barst svo þann 15. ágúst er ekki annað að sjá en að sjónarmið mín hafi ekki skorað hátt hjá stofnuninni:

„Heill og sæll Sigurður. 

Þú hefur sent til Jafnréttisstofu fyrirspurn varðandi ritnefnd Kynungabókar sem kom út fyrr á þessu ári á vegum Menntamálaráðuneytisins. Í tölvubréfi þínu kemur fram að þú telur að ekki hafi verið farið að jafnréttislögum í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu í því tilviki að tilgreindir höfundar efnis í Kynungabók eru allt konur.

Erindi þitt til Jafnréttisstofu er eftirfarandi orðrétt:„Hvenær stofnunin (Jafnréttisstofa, innsk. IE) hyggst ganga í það að kanna hvers vegna Mennta- og menningarmálaráðuneytið braut jafnréttislög í þessu tilviki og hvort stofnunin muni krefjast endurbóta í mögulegum útgáfum Kynungabókar.“ 

Í skrifum þínum virðist gæta ákveðins misskilnings varðandi gildissvið 15. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008. Sú grein á við um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga sem skipað er í. Þ.e. um er að ræða formlega skipun, oftast með skipunarbréfi, frá viðkomandi ráðuneyti eða sveitarstjórn. Varðandi Kynungabók þá var engin nefnd formlega skipuð af ráðherra, hvorki til að skrifa bókina né ritstýra henni. Um var að ræða samstarfsverkefni, sem átti sér langan aðdraganda, og helstu sérfræðingar í kynjafræðum og jafnréttismálum, sem fylgja þessum málaflokki eftir í menntakerfinu, settu efnið saman. Eins og fram kemur í bókinni sjálfri, þá komu ansi margir, karlar og konur, með innlegg í bókina og gerðu athugasemdir og lásu yfir. Ljóst er því að bæði konur og karlar komu að því að ákveða hvernig bókin varð að lokum. 

Jafnréttisstofa fær ekki séð að nokkur rök standi til þess að telja að Mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi brotið jafnréttislög við útgáfu Kynungabókar, enda ekki um formlega skipaða ritnefnd að ræða. 

Eins og þér er kunnugt, sbr. tölvubréf til þín frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, þá er Kynungabók verk sem er opið áfram á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Það er hægt að koma athugasemdum og ábendingum á framfæri við ráðuneytið um efni, efnistök og hvað eina er varðar bókina. Teljir þú eitthvað athugavert við efnistök eða að eitthvað megi betur fara varðandi bókina, þá hefur þú gott tækifæri til að koma því á framfæri við ráðuneytið. 

Aðalatriðið varðandi fyrirspurn þína til Jafnréttisstofu er þetta að gildissvið 15. gr. er takmarkað við nefndir, ráð og stjórnir, þar sem fólk hlýtur formlega skipun. Greinin á ekki við í þessu tilviki.Jafnréttisstofa fylgist grannt með öllum slíkum skipunum á vegum ráðuneyta, gerir athugasemdir og kröfur um úrbætur þar sem þess er þörf. Jafnréttisstofa mun að sjálfsögðu halda áfram að sinna því verki, enda er það einn þáttur í eftirliti Jafnréttisstofu með því að jafnréttislögum sé framfylgt. 

Virðingarfyllstf.h. Jafnréttisstofu

Sem fyrr segir, kemur það mér ekkert á óvart að erindi mitt leiddi ekki til þess að Jafnréttisstofa gripi til aðgerða, erindið var fyrst og fremst sent til að sýna fram á þá samtryggingar- og klíkumenningu sem viðgengst innan Jafnréttisiðnaðarins.

Það sem mér finnst hinsvegar markvert við þennan feril er þetta: Stofnunin kýs að túlka jafnréttislög þröngt í þessu máli og vísar því á bug að kynjakvótaákvæði laganna eigi við um ritstjórnir á vegum hins opinbera. Þetta er sama stofnun og á vef sínum veltir fyrir sér sýnileika kvenna í námsbókum, fjölmiðlum og öðrum sviðum sem ekki falla undir lögin. Hvergi í samskiptum okkar hvarflar það svo að starfsmönnum Jafnréttisstofu að hún geti verið óhæf til að fjalla um málið í ljósi aðildar framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Krístínar Ástgeirsdóttur, að málinu auk þess sem Jafnréttisstofa styrkti útgáfuna.

Þá finnst mér áhugavert að óformleg samskipti hafi átt sér stað milli Jafnréttisstofu og Mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna málsins en lögfræðingur Jafnréttisstofu vísar til samskipta minna við ráðuneytið sem hann hefur greinilega séð. Þá fékk jafnréttisfulltrúi ráðuneytisins Jóna Pálsdóttir afrit af svari Jafnréttisstofu til mín. Til gamans má svo geta þess að henni varð óvart á að senda svar til mín sem hún augljóslega ætlaði vinkonum sínum á Jafnréttisstofu en í því segir hún:

„Sælar
Kærar þakkir fyrir þetta. Vonandi róar þetta hann.
kv – Jóna“

Og ég sem er alltaf svo pollrólegur.

SJ

,

11 athugasemdir á “Svar Jafnréttisstofu v. ritstjórnar Kynungabókar”

 1. Harpa Hreinsdóttir Says:

  Þetta er skemmtileg og áhugaverð umræða. Kannski er skemmtilegasta og áhugaverðasta bréfið þetta neðsta (sem er raunar frá vinkonu minni): Ef jafnréttisfulltrúa Mrn. finnst aðalmálið í fyrirspurnum um Kynungabók að „róa“ fyrirspyrjanda segir það ansi margt um viðhorf sama jafnréttisfulltrúa til umræðu um jafnrétti.

  Ég skoðaði valda hluta í Kynungabók á sínum tíma og mig minnir að niðurstaðan hafi verið að þetta sé afar óvandað verk, t.d. voru fáránlegar staðhæfingar um geðheilsu e. kynjum, byggðar á einni rannsókn og greinum um hana en sú rannsókn var bæði takmörkuð og umdeild (og hefur ekki tekist að fá fram sambærilegar niðurstöður þegar reynt hefur verið að endurtaka hana). Almennt þótti mér þetta ljót og óaðlaðandi bók og efnistök áberandi áróðurskennd. Svona bók passar væntanlega illa við nýju námskrána þar sem margtuggið að skólar eigi að „kenna“ gagnrýna hugsun 😉

 2. Sigurður Jónsson Says:

  Velkomin og takk fyrir innleggið Harpa.

  Já, ég las einmitt gagnrýni þína á Kynungabók þegar ég var að kynna mér bókina. Ef ég man rétt varst þú þá sú eina sem hafðir sett fram gagnrýni á þetta rit. Hafðu þakkir fyrir það.

  Þetta viðhorf jafnréttisfulltrúans til mín er því miður ekki einsdæmi. Það er algengara en ekki að ég mæti pirring, stælum eða hreinlega þögn þegar ég beini erindum að stofnunum, félagasamtökum og jafnvel ráðuneytum. Mér finnst það eitt og út af fyrir sig sýna fram á að það er eitthvað bogið við rekstur jafnréttisbaráttunnar á íslandi.

  Ég held að Kynungabók vinni hreinlega gegn tilgangi sínum á efri skólastigum en ég tel ástæðu til að hafa áhyggjur af því að þessar rangfærslur séu matreiddar ofan í börn eins og ætlunin er. Má ég þá frekar biðja um Testamentið takk.

 3. Páll Says:

  Heitir þetta ekki að „taka Bjarna Harðar“ á þetta? 🙂

 4. Sigurður Jónsson Says:

  Jú Páll, var það ekki Bjarni Harðar sem sendi plottpóst óvart á helstu fjölmiðla með því að svara „reply to all“.

 5. Harpa Hreinsdóttir Says:

  Án þess að það komi málinu neitt við upplýsi ég að Bjarni Harðarson er einmitt mágur minn 😉

  En aukalega nefni ég að ég er nýbúin að frétta af félagsfræðikennara í framhaldsskóla sem reitti hár sitt yfir heimildanotkun í Kynungabók (öllu heldur misnotkun, því einungis eru sérvaldar heimildir í bókinni til að örugglega komi ekkert fram annað en það sem styður meinta kúgun kvenna á öllum sviðum). Svo ég efast um að framhaldsskólakennarar með eitthvað milli eyrnanna noti þessa bók nema þá bara til að benda á hvernig eigi ekki að vinna efni byggt á heimildum.

 6. Sigurður Jónsson Says:

  Sannast enn að þetta er lítill heimur Harpa! 🙂

  Áhugavert með félagsfræðikennarann. Ég vona að sem flestir kennarar líti þetta rit gagnrýnum augum í stað þess kynna nemendum þetta sem gild fræði.

 7. Sigurjón Sveinsson Says:

  Ákaflega skemmtileg umfjöllun. Margt athyglisvert sem kemur hér í ljós. Ég las Kynjungabók þegar hún kom út á sínum tíma og mér var mjög misboðið þegar ég sá hversu langt bókin gengur í að fórnarlambavæða konur og illmennavæða karlmenn. Bókin fer djúpt í að tala um alls kyns misrétti gegn konum, og gerendur eru alltaf karlar. Rannsóknir sýna að þetta er alls ekki tilfellið, t.d. þegar kemur að heimilisofbeldi. En eins og minnst er á hér að ofan þá lítur út fyrir að heimildanotkun sé mjög selective, valið það sem hentar.
  Einnig var MJÖG athyglisvert að sjá að þessi ritnefnd eða ritstjórn ákvað að fjalla nærri ekkert um það málefni þar sem hallar mjög á karlmenn: Sifjamál, forræði barna, meðlagsgreiðslur og annað því tengt. Ein setning á bls. 10 fjallar um þetta og ekkert meir. Og á þetta rit svo að kallast jafnréttisumfjöllun? Þetta rit er svo mikil einstefna og skrumskæling að skömm er að!!!

  Það kemur þó ekki á óvart að karlmenn séu útmálaðir óbeint sem fól, nýðingar og þaðan af verra í þessari bók. Né heldur að nærri ekkert er fjallað um þau mál er brenna á körlum. Því í þessari ritnefnd eru tvær magnaðar konur: Guðrún M. Guðmundsdóttir sem skrifaði mjög fordómafulla MA lokaritgerð, „Af hverju nauðga karlar?“ (sem ég las á sínum tíma) og svo Kristínu Ástgeirsdóttur, sem sagði óbeint í viðtali við Fréttablaðið í ágúst 2007 að hún ætlaði ekki að gera neitt hvað sifjamál karla varðar, þetta væri ekki jafnréttismál. Álíka nálgun á málefnið myndi sýna fram á að launamisrétti kynjanna væri ekki jafnréttismál heldur bara kjaramál.

 8. Sigurður Jónsson Says:

  Takk fyrir innleggið og velkominn Sigurjón.

  Það er náttúrulega alveg sér kapítuli fyrir sig hvað ritstjórunum fannst tilefni til að undanskilja í bók um jafnréttismál. Það kom mér svosem ekki á óvart að forræðis- og sifjamálin væru undanskilin. Ég skrifaði einmitt um þetta viðtal sem þú talar um en í því gaf Jafnréttisstýran okkar í skyn að foreldrajafnrétti mætti bara bíða þar sem það væru ekki nema 100 ár síðan konur fengu yfir höfuð einhver réttindi á þessu sviði. Karlmenn, og börn, geta því beðið eitthvað áfram sýnist mér á meðan hin sögulega skuld er gerð upp að fullu.

  Þá er áhugavert sem þú bendir á með ritgerð Guðrúnar. Það vill nefninlega svo til að í kynungabók eru kynntar nýjar skilgreiningar á hugtökunum nauðgun og kynbundið ofbeldi. Ég hefði mikinn áhuga á að lesa þessa ritgerð hennar, þessi breyting er kannski sprottin úr hennar ranni.

 9. Gunnar Says:

  Er þetta Kynungabókarmál eitthvað sem Heimili og skóli ættu að láta sig varða? Eru það ekki einhverskonar foreldrasamtök?

 10. Sigurður Jónsson Says:

  Já þú segir nokkuð Gunnar, ég hafði ekki látið mér detta það í hug. Ég hugsa að ég sendi þeim ábendingu. Reyndar á ég enn eftir að taka saman athugasemdir mínar og senda Menntamálaráðuneytinu.

  Það geta allir áhugasamir sent athugasemdir á ráðuneytið og skjalið á að vera „opið“ þó vissulega þurfi athugasemdirnar að rata í gegnum hóp femínista sem stjórna efnistökum. Ég mæli því með því að þeir sem vilja senda inn athugasemdir geri það einnig opinberlega. T.d. með opnu bréfi sem fjölmiðlum eru send afrit af.

 11. Sigurður Jónsson Says:

  Skv. nýjum fréttum er verið að kenna Kynjafræði við Borgarholtsskóla og kennslubókin er einmitt Kynungabók. Gæfulegt.

%d bloggurum líkar þetta: