Þjóðviljinn um róttækan femínisma árið 1984

25.7.2011

Blogg

Ég rakst nýlega á gamla en áhugaverða grein um femínisma í Þjóðviljanum. Nánar tiltekið frá 24. júní 1984. Greinin ber titillinn Þrjú andlit femínismans og fjallar um aðgreiningu femínismans í þrjár meginstefnur þ.e. borgaralegan, róttækan og sósíalískan femínisma.

Um róttækan femínisma segir:

Þjóðviljinn um Femínisma„í honum birtist gremja yfir öllu því, sem konur þurfa að þola í daglegu lífi, og þar eru þessi atriði nánar útfærð og gerð pólitísk. Róttækur femínismi berst gegn þeirri hugmynd, að konur séu körlum síðri, og sumar, sem þessari stefnu tilheyra, telja konur betri en karla. Róttækir femínistar halda því fram, að kvennakúgunin sé aldagömul og til muna eldri en kapítalisminn, og því megi rekja flest félagslegt misrétti og kúgun til þess að kynin eru tvö og annað vill ráða. Karlmenn eru óvinir og allt vont, sem til er í heiminum, er uppfundið af þeim. Hið góða er hins vegar fundið upp af konum“

Þetta er merkileg lesning og sýnir að ekkert hefur breyst. Þessi undarlegi bræðingur vesældarhyggju og kynrembu lýsir róttækum femínistum jafnvel nú og þegar greinin var skrifuð.

Þó má kannski segja að róttækur femínismi [forréttindafemínismi] er eina stefna femínisma sem eitthvað ber á í samfélaginu í dag. það er eftirtektarvert.

SJ

12 athugasemdir á “Þjóðviljinn um róttækan femínisma árið 1984”

 1. Kristinn Says:

  Skemmilegt.

  Ég hef ekki lesið kynjafræði, en mér þætti gaman að vita hvort þar sé litið svo á að um valdatafl á milli kynjanna sé að ræða aftur í forneskju. Er það ekki bara ein tegund greiningar á ástandi sem hefur skapast og margar aðrar jafn mikilvægar?

  Mér finnst oft vanta í kynjaumræðuna dálítið kalt mat á eðli hlutanna, þ.e.a.s. sterkara kynið og það allt, sem og öðrum líffræðilegum þáttum sem við sem samfélag viljum að mörgu leyti ná tökum á, en kunnum kannski ekki og því fer sem fer – án þess að það sé endilega gott eða allir saklausir.

  Hlutirnir eru á einn veg. Hvað gerum við í því, annað en að fabúlera um að það sé allt þessum eða hinum að kenna sem af einhverjum ástæðum höfðu vald yfir hinum, eða að karlmenn vilji ekki gefa valdið eftir og fleiri alhæfingar í þeim dúr sem virka minna sannar eftir því sem þær eru stærri?

  Ég skelli mér kannski bara í kynjafræðina við tækifæri!

 2. Gunnar Says:

  Samkvæmt Kynungabók má rekja hið svokallaða feðraveldi aftur til grárrar forneskju. Þar segir að rekja megi núverandi kynjamisrétti til þeirra tíma er eingöngu karlar úr valdastétt höfðu tækifæri til að móta samfélagið út frá eigin hagsmunum. Þetta eins og allt sem frá jafnréttisiðnaðinum stafar er eingetið afkvæmi kynjafræðinnar og auðvitað ótrúleg einföldun. Sjálfum finnst mér það alveg geta flokkast undir kvenfyrirlitningu að segja sem svo að eftir hundruð þúsund ára þróunarsögu mannsins skuli konur ekki hafa getað þróað með sér neina eiginleika sem tryggt gætu þeim völd í samfélagi við karla. Gallinn við þessar kenningar kynjafræðinnar liggur auðvitað í skilgreiningu „fræði“greinarinnar á valdi.

  Það væri örugglega bara gaman að skella sér í kynjafræði en miðað við afurðir greinarinnar þá efast ég um að það væri til gagns.

 3. Kristinn Says:

  Sæll Gunnar

  Mér finnst miilvægt að við reynum að halda okkur á smekklegum nótum og forðumst að detta í að tala um jafnréttisiðnað, gera lítið úr því að um fræði geti verið að ræða og að alhæfa. Vonandi ertu mér sammála um það, þótt ég geti vel fallist á að færa megi rök fyrir því að þetta séu verjandi fullyrðingar.

  Hvað sem því líður er ég sammála þér um að mikið sé einfaldað og dregið saman eftir hentugleika í þeim kynjafræðum sem ég hef rekist á til þessa – án þess að ég sé neinn fræðingur. Það virðist t.d. oft gleymast að tala um okkur sem eina tegund, en ekki karla og konur. Líklega má rekja flest allt í menningu okkar til samspils allskyns þátta, líffræðilegra þátta, sjúkdóma, aðstæðna, jafnvel veðurfars og fleira.

  Feðraveldiskenningin getur þannig verið rétt og sönn, en haft svo miklu minna vægi í jöfnunni en haldið er fram, að heildarmyndin verður agalega skökk og ályktanirnar sem dregnar eru af henni jafnvel mjög fjarri lagi.

  Það má líka líta svo á að kynjafræði sem samin er af femínistum með það að markmiði að jafna hlut kynjanna eftir eigin skilgreiningum á í hverju það á að felast og hvenær slíku jafnvægi er náð verði alltaf lituð af markmiðinu, og því hugsanlega ansi hlutdræg og blind á þætti sem eru sannir en henta ekki markmiðinu og eru því settir til hliðar.

  Mér sýnist einmitt samspil vinsælla þátta til að ræða um, eins og kvenfyrirlitning og það að hlutgera konur og að lokum tíðni nauðgana, geta verið svo miklu loðnara og jafnvel hreinlega minna en talið er, að mikil þörf sé á að skoða miklum mun flóknara orsakasamhengi en gert er í Druslugöngunni sem dæmi.

  En til þess að koma slíkum umræðum upp á yfirborðið held ég að fjalla þurfi mjög málefnalega um hlutina og forðast það í lengstu lög að gerast sjálf/ir yfirlýsingarglaðir og gjarnir á að einfalda hlutina.

  mbk,

  • Gunnar Says:

   Sæll Kristinn,

   Þetta er vitaskuld rétt hjá þér. Það er betra að vera málefnalegur enda býr öfgafemínismi sennilegast vel að því hvað gagnrýnendur eru oft ómálefnalegir. Góðar ábendingar, takk.

   Hinsvegar finnst mér vera alvarlegir ágallar á því umhverfi sem kynjafræði er sprottin úr. Miðað við það sem ég hef lesið um þessa fræðigrein þá siglir hún ansi lygnan sjó, ólíkt öðrum félagsgreinum. Ég hef einfaldlega séð of mörg dæmi um að lagt er upp með fyrirfram ákveðna niðurstöðu. Við getum kallað þetta fræðigrein en ég ætla að leyfa mér að halda áfram að taka því sem frá þessari fræðigrein með miklum fyrirvara að fenginni reynslu.

   Þá held ég að þú hafir talsvert til þíns máls þegar þú segir að einstakar kenningar kunni að vera réttmætar en að þeim sé ætlað of mikið vægi. Það getur hinsvegar verið beinlínis skaðlegt og samspil kynjafræðinnar og þess sem ég kalla jafnréttisiðnaðarins magnar þau mögulega skaðlegu áhrif.

   • Kristinn Says:

    Gunnar

    Já, mér hefur sýnst að femínísk fræði, kynjafræði og heimspeki þyki ekki mjög burðug speki. Vita menn um einhverjar hlutlausar úttektir á því máli sem femínistar afskrifa ekki um leið sem kynrembu og blindni?

    • Kristinn Says:

     Uss, hvað þetta hljómaði rembulega hjá mér. En ég er bara að lýsa því sem mér sýnist vera afstaða margra heimspekinga.

    • Gunnar Says:

     Tja .. hlutlausar og ekki hlutlausar, er hægt að vera hlutlaus í kynjaumræðunni? Ég hef lesið svolítið eftir Christinu Hoff Sommers. Þar fer yfirlýstur femínisti sem gagnrýnir öfgaarm bandarísku femínistahreyfingarinnar harðlega. Hún er fræðimaður og gagnrýni hennar ber keim af því. Er vönduð og málefnaleg. Margar þær meinsemdir sem hún dregur fram um kynjafræðina eru með ólíkindum. Þá finnst mér hún gera vel í að sýna fram á hvernig þessar kenningar (margar ó- eða illa rökstuddar) hafa áhrif á stefnu stjórnvalda í gegnum hinar ýmsu stofnanir samfélagsins.

     Þá bendi ég á bókina Professing Feminism. Höfundar bókarinnar eru tvær konur sem báðar hafa að ég held kennt kynjafræði og skrifuðu bókina að eigin sögn vegna þess að þær höfðu vaxandi áhyggjur af skorti á sjálfsgagnrýni í heimi kynjafræðinnar.

     Þá held ég að þú getir nú náð mörgum raunvísindamanninum á gott flug yfir þessu málefni. Sem dæmi nefni ég þá eðlisafneitun sem felst í mótunarhyggjunni. Kynungabók er einmitt skrifuð út frá þeim sjónarhóli að kynin séu í grunninn eins en að félagsmótunarlegir þættir valdi því að þau verði ólík.

     • Kristinn Says:

      Takk fyrir svarið Gunnar

      Það er mjög áhugavert að lesa ritdóma fólksins á Amazon um þessar bækur, ekki síst 1 stjörnu umfjallanirnar til að sjá í hverju óánægja femínista með þær felst.

      Ansi áhugaverð líka svör Sommers við gagnrýni sem bók hennar fékk fyrir meinta ónákvæmni í upplýsingagjöf: http://www.debunker.com/texts/fair2.html

      Er það rétt metið að feminísk fræði hvíli svo rækilega á póst módernisma og afstæðishyggju um hvað sé satt, að hlutlægum sannleika sé nánast hafnað? Ef svo er, er allavega ekki skrýtið að einhverjum þyki hugmyndafræðin dálítið veikt uppbyggð – segi ég a.m.k. sem mikill efasemdarmaður um gagnsemi póst módernisma. Og hvað þá ef höfnun á eðlismun kynjanna gætir mjög víða í þeim að auki.

      Gaman að þessu.

      mbk,

      • Gunnar Says:

       Já, þessi samtök (FAIR) komu einmitt við sögu hér nýlega í færslu um ofurbikarinn í heimilisofbeldi en þar studdu þau við útgáfu rangra upplýsinga í nafni baráttu fyrir réttri og vandaðri upplýsingagjöf. Merkilegt.

       Skilji ég hugtökin póstmódernisma og afstæðishyggju rétt, þá já. Mér finnst líka hafa verið sérkenni á femínisma eins og hann birtist okkur í dag að hugmyndafræðin er hvort tveggja í senn allt og ekkert. Þegar t.d. einhver femínisti segir eða gerir eitthvað sem ekki eykur vinsældir hreyfingarinnar þá er því hafnað að þar sé „réttur femínismi“ á ferðinni og vísað til þess að markmið femínisma sé að öll dýrin í skóginum verði vinir í einhverskonar femínískri útópíu.

 4. JR Says:

  Uppruna feminismans er hægt að rekja allt til steinaldar.
  Það er til námskeið um þetta í Háskólanum.

  Kynjafornleifafræðin (e. Archaeology of Gender) er mjög spennandi!
  Tenging við síðvirknihyggju er mjög áhugaverð!

  FOR410G Kynjafornleifafræði
  https://ugla.hi.is/kennsluskra/index.php?tab=nam&chapter=namskeid&id=05630920100

  Námskeiðslýsing
  Yfirlitsnámskeið um kynjafornleifafræði (e. Archaeology of Gender) þar sem farið verður yfir sögu og þróun greinarinnar, tengingu hennar við femínisma og síðvirknihyggju, um leið og greint verður frá helstu áherslum og skilgreiningum innan hennar.
  Kyngerfishugtakið (e. gender) er sífellt að víkka og teygir sig því til rannsókna á konum, körlum, jafnt sem börnum eða á ákveðnum þjóðfélagshópum, aldri og lífshlaupi.
  Tekin verða dæmi frá fornleifarannsóknum sem byggja á kenningum og aðferðum kynjafornleifafræðinnar og kynntir verða þeir möguleikar sem hún getur boðið upp á hérlendis við fornleifarannsóknir.

  Það er von íslendinga að þetta námskeið muni koma Háskóla Íslands í hóp 100 bestu háskóla heims!

%d bloggurum líkar þetta: