Strauss-Kahn tilvikið

5.7.2011

Blogg

Nú stefnir allt í að Dominique Strauss-Kahn „kynlífshneykslið“ verði best skráða tilvik um falskar ásakanir í nauðgunarmálum sem fram hefur komið í heiminum. Þetta kann að vera eitt það besta sem hent hefur karlmenn um árabil og raunar held ég að fáir séu byrjaðir að gera sér grein fyrir þýðingu þessa fyrir karlmenn.

Um leið og þetta mál kom upp grunaði mig að svona væri í pottinn búið. Ekki vegna þess að ég held að rangmætar ásakanir séu algengari en réttar, síður en svo. Efasemdir mínar grundvölluðust  á tveimur veigamiklum atriðum. Annað var það gríðarsterka mótív sem legið gat að baki slíkum gjörningi þar eð Strauss-Kahn var álitlegt fórnarlamb, stöðu sinnar vegna. Hitt var að ég átti einfaldlega erfitt með að trúa því að maður í hans stöðu væri nógu vitgrannur til að láta sér detta í hug að fremja viðlíka glæp inni á herbergi sem hann er skráður fyrir undir nafni. Sagan hefur vissulega að geyma dæmi um slíkt en það breytir því ekki að þetta var spurning sem vaknaði í huga mínum.

Það er mikilvægt að fólk hugi að stóra samhenginu í þessu máli. Forréttindafemínistar hafa um árabil haldið uppi linnulausum áróðri fyrir því að kynferðislegt ofbeldi karla gegn konum sé öðruvísi en allt annað ofbeldi og að meðhöndla verði ætluð kynferðisbrotamál samkvæmt forskrift forréttindafemínista. Í kvennafræðum er litið á kynferðisofbeldi sem eitt af kúgunartækjum feðraveldisins fremur en bara viðurstyggileg brot einstaka karlmanna og krafa forréttindafemínista  hefur verið að konum beri undantekningarlaust að trúa, leggji þær fram ásakanir af þessu tagi. Forréttindafemínistar hafa heldur ekki farið leynt með þá skoðun sína og að draga ætti úr sönnunarbyrgði í málum til að gera konum sem leggji fram kæru hægar um vik. Ef einhver vogar sér að tala á annan veg en þann að sá sem ásakaður er um nauðgun sé sekur er hann umsvifalaust kallaður nauðgaravinur eða á annan hátt sakaður um að vera fylgjandi nauðgunum á konum.

Þetta væri kannski réttmætt ef sá möguleiki væri ekki fyrir hendi að konur ljúgi stundum til um nauðgun en það er einmitt raunin eins og dæmin sanna. Konur ljúga alveg eins og karlmenn ljúga og allir sem trúa öðru hafa, af einhverjum ástæðum, sett konur á stall í huga sínum. Konan sem ásakaði Strauss-Kahn um að hafa nauðgað sér hefur t.d. logið til um nauðgun áður skv. fréttum en það gerði hún til að afla sér samúðar við umsókn sína um pólitískt hæli í Bandaríkjunum. Þá ku framburður hennar í þessu máli hafa verið holóttur í besta falli en til eru upptökur af símtali þar sem hún skipuleggur glæpinn.

Áður en þessar nýju upplýsingar komu fram fylgdi þetta mál gamalkunnum ferli. Konur sem elska að hata karla hugsuðu sér gott til glóðarinnar og forréttindafemínistar fóru hamförum á netinu, sögðu málið í heild sinni, ásamt einstökum þáttum þess, staðfesta að konur stæðu höllum fæti í samfélagi manna. Forréttindafemínistar virtust á einhvern yfirskilvitlegan hátt vita að ásakanir konunnar hlytu að vera réttar og dæmdu Strauss-Kahn fyrirfram ásamt því að fordæma alla sem voru á öðru máli. Þá mátti sjá viðtöl við fyrrverandi ástkonur Strauss-Kahn sem nú vildu meina að þær hefðu starfs síns vegna neyðst til að hafa samfarir við hann, t.d. inni á salernum og gott ef einhver hafði ekki séð ómennið klína hor á dyrakarm einhversstaðar og snupra þjónustustúlku um þjórfé.

Rannsóknir á fölskum ásökunum eru nokkuð misvísandi enda flókið rannsóknarefni. Sjálfur hef ég lesið rannsóknir sem benda til að hlutfall óréttmætra nauðgunarákæra sé á bilinu 3% til 40% en þetta breiða bil segir kannski einmitt sína sögu um hve erfitt er að henda reiður á umfangi vandans. Það ríkir þó um það nokkur sátt að vandamálið er vissulega til staðar þó hlutfallið sé ekki vel þekkt – konur eru færar um að ljúga og aðeins verst höldnu forréttindafemínistar láta sér detta í hug að halda öðru fram.

Strauss-Kahn tilvikið mun auka meðvitund almennings á þessu mjög svo raunverulega vandamáli þar sem það fellur ekki jafn auðveldlega í gleymsku og önnur tilvik þar sem óþekktir menn eru fórnarlömb þessa alvarlega glæps. Þetta mun reynast forréttindafemínistum, sem stjórnast af hatri á karlmönnum, erfiður ljár í þúfu en þær voru óneitanlega langt komnar með að fullkomna þetta áhrifaríka vopn; að ásökun um nauðgun jafngilti skilyrðislaust sakfellingu og að með því einu að kona bendi á karlmann og segji hann hafa nauðgað sér mætti þar með taka hann af lífi í félagslegum skilningi.

SJ

, , ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: