Ég gerði því góð skil hér nýlega að hjá Fjármálaráðuneytinu hefði verið skipuð Verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð sem nær eingöngu konur sitja í. Um það má lesa hér og hér.
Þar sem Fjármálaráðherra vor er yfirlýstur femínisti og nokkrir þeirra forréttindafemínista sem í verkefnisstjórninni sitja hafa opinberlega tjáð sig um gæði og gagnsemi kynjakvóta ákvað ég að óska skýringa á því hversvegna ráðuneytið hefði farið á svig við kynjakvótaákvæði jafnréttilaga og sendi þeim eftirfarandi erindi:
„Til þess er málið varðar,
Í Fjármálaráðuneytinu situr Verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpi 2011 segir að Fjármálaráðherra skipaði verkefnisstjórn um stefnumótun og undirbúning að kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð í apríl 2009 og að skipunartími hennar sé út 2011.
Í stjórninni sitja/starfa:
- Halldóra Friðjónsdóttir – Formaður
- Hildur Jónsdóttir
- Hugrún R. Hjaltadóttir
- Ingi Valur Jóhannsson
- Hildur Fjóla Antonsdóttir
- Katrín Anna Guðmundsdóttir – Verkefnisstjóri og starfsmaður nefndarinnar
Af sex nefndar- og starfsmönnum Verkefnastjórnarinnar er aðeins einn karl. Hlutfall karlmanna í verkefnisstjórninni er því 16%.
Í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla frá 2008 segir í 15. grein:
“Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.
Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.
Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við”
Í þessu ljósi langar mig að beina eftirfarandi fyrirspurn til Fjármálaráðuneytisins: Hversvegna er hlutfall karla í Verkefnisstjórninni ekki minnst 40% eins og lögin kveða á um og hvaða hlutlægu ástæður lágu fyrir sem réttlættu það að vikið væri frá ákvæði 1. mgr. 15. gr. laganna í þessu tilviki, ef einhverjar?
Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“
Svarið barst mér svo um tveimur vikum síðar og hljóðar svo:
„Árið 2009 skipaði fjármálaráðherra verkefnisstjórn um stefnumótun og undirbúning að kynjaðri hagstjórn (gender budgeting).
Ákveðið var að fulltrúi fjármálaráðneytisins myndi leiða verkefnið en auk hans yrði verkefnisstjórnin skipuð fulltrúum frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Jafnréttisstofu og Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands. Í kjölfarið var farið á leit við viðkomandi stofnanir og ráðuneyti að þau tilnefndu fulltrúa í nefndina, eina konu og einn karl og þess var getið að fjármálaráðuneytið myndi velja annan hvorn fulltrúann þar sem leitast yrði við að jafnræði væri meðal kynjanna í starfshópnum.
Formaður og starfsmaður nefndarinnar koma úr fjármálaráðuneytinu. Ráðuneytið hefur ekki á að skipa sérfræðingum af báðum kynjum í þessum málaflokki og því voru fengnar konur til að sinna báðum störfunum. Sérfræðingur Stjórnarráðsins í jafnréttismálum á einnig sæti í stjórninni og hún er kona.
Skemmst er að segja frá því að Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum tilnefndi aðeins eina konu í verkefnisstjórnina og skipaði fjármálaráðherra hana. Félags- og tryggingamálaráðuneytið tilnefndi aðila af hvoru kyni og slíkt hið sama gerði Jafnréttisstofa. Fjármálaráðherra skipaði karlmann sem fulltrúa félags- og tryggingamálaráðuneytisins en í bréfi Jafnréttisstofu var eindregið mælst til þess að konan yrði tilnefnd í nefndina á þeim forsendum að karlmaðurinn, sem var tilnefndur, var á þeim tíma eini karlmaðurinn sem vann hjá stofnuninni og hafði hann verið skipaður í allar nefndir þegar óskað var eftir tilnefningu karls og konu. Álagið á honum væri því mikið. Fjármálaráðherra varð við þeirri ósk Jafnréttisstofu og skipaði konu sem fulltrúa stofnunarinnar í verkefnisstjórnina.
Fjármálaráðuneytið leitast ávallt við að hafa sem jafnasta kynjaskiptingu í nefndum, ráðum og verkefnastjórnum. Því miður var ekki unnt að koma því við í þessu tilviki og á grundvelli ofangreindra tilnefninga og heimilda í lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, um að víkja frá ákvæði 1. mgr. 15. gr. laganna, ákvað fjármálaráðherra að skipa þá aðila sem þú tilgreinir í tölvupósti, dags. 22. mars sl. í verkefnisstjórnina.
Með kveðju“
Þetta er athyglisvert svar. Það sem ég tek út úr þessu er þetta:
Svarið gefur skýrt til kynna að ráðuneytinu finnist ekkert tiltökumál að fara á svig við lögin. Ef þær ástæður sem tilgreindar eru í svari ráðuneytisins geta talist hlutlægar og þar með uppfyllt undanteknignarákvæði laganna þá þarf enginn að fara eftir þessum lögum. Hlutafélag hlýtur að teljast hafa uppfyllt lögin jafnvel þótt stjórnir þeirra séu skipaðar minna en 40% af öðru hvoru kyni ef það gefur þá skýringu að hluthafar þess hafi einfaldlega ekki tilnefnt fulltrúa af því kyni sem á hallar.
Ef ráðamönnum er alvara með að leggja kvaðir um kynjakvóta á borgara landsins hlýtur það að teljast eðlileg krafa að þeir fari sjálfir eftir þeim. Í þessu tilviki hefði verið hægur leikur að ítreka við Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum beiðni um tilnefningu á einum aðila af hvoru kyni og skipa svo karlinn. Þá hefði ráðuneytið vel getað haft óskir Jafnréttisstofu að engu þar sem að annir og óreiða í innra skipulagi Jafnréttisstofu verði að teljast léttvægari en sú lagaskylda sem á ráðuneytinu hvíldi. Þess utan finnst mér tilburðir Jafnréttisstofu falla innan þess sem í daglegu tali er kallað að fara í kringum lögin en það er önnur saga.
Eins og flestir vita þá munu á næstu misserum koma til framkvæmda reglur um kynjakvóta í stjórnum einkafyrirtækja. Við hljótum að ganga út frá að hluthöfum þeirra verði gefinn sami slaki eða hvað?
SJ
5.5.2011
Blogg