Guðbjartur Hannesson, Velferðarráðherra gefur í dag peningagjafir til 42 kvenna, alls að upphæð 30 milljónir króna. Peningagjöfinni fylgir hann svo eftir með grein eftir sjálfan sig sem lesa má á Vísi.is. Í greininni slær ráðherra sjálfan sig til riddara fyrir góðverkið og talar digurbarkalega um nauðsyn þess að koma íslenskum konum til hjálpar nú sem endranær en styrkir til Atvinnumála kvenna hafa verið veittir tvisvar á ári frá árinu 1991.
En hverju skyldi Guðbjartur vera að bjarga konunum frá? Hafa þær ekki sama aðgang að fjármagni og karlmenn? Geta þær ekki gert sér ferð í bankann sinn eins og sjálfsagt þykir að karlmenn geri og sótt um lán? Geta þær ekki leitað fjárfesta um að taka þátt í verkefnum sínum eins og sjálfsagt þykir að karlmenn leggi á sig? Geta þær ekki sótt um alla þá nýsköpunar og atvinnustyrki sem karlar geta sótt um og verið metnar á sama grunni?
Jú, það geta þær svo sannarlega. Ég man í handraðanum eftir mýmörgum fréttum af „rannsóknum“ forréttindafemínista sem sýna eiga fram á að konur beri skarðan hlut frá borði þegar kemur að styrk- og lánveitingum til atvinnumála en aldrei nokkurntíman hef ég séð rannsókn sem sýnir fram á annað en að konur sæki einfaldlega um þessa sömu styrki í minni mæli en karlar.
Ekki veit ég hvað þeim þúsundum karlmanna sem ekki hafa vinnu finnst um þennan höfðingskap í velferðarráðherra. Ég veit hinsvegar að þegar af því berast fréttir að atvinnuleysisvofan hafi einfaldlega sniðgengið konur í einu versta efnahagshruni sem þjóðin hefur lent í á meðan þúsundir karla misstu vinnuna, þá finnst mér þetta álíka þarft og að senda snjóframleiðslutæki til Grænlands.
Hvað sem því líður þá er greinilegt að sannir herramenn opna ennþá hurðir fyrir konur. Til hamingju konur, með að vera konur.
SJ
29.4.2011
Blogg