Engin kreppa hjá konum?

27.4.2011

Blogg

Ég verð að hrósa mbl.is fyrir hreint frábæran fréttaflutning. Þar birtist í dag fyrsta fréttin sem ég hef séð frá hruni sem lýsir ástandi á vinnumarkaði með réttum hætti í kynjuðu tilliti. Í fréttinni segir af þróun atvinnuleysis frá hruni. Bent er á mjög athyglisverða staðreynd, þá að konum sem sem hafi atvinnu í dag séu fleiri en þær voru fyrir hrun.

Sé miðað við fyrsta ársfjórðung 2008 kemur í ljós að á meðan körlum með atvinnu hefur fækkað um 12.400 á tímabilinu hefur konum með atvinnu fjölgað um 700 á sama tíma. Sé aðeins litið á þróun síðastliðins árs sést að á meðan starfandi körlum hefur fækkað um 2.400 hefur starfandi konum fjölgað um 800.

Skýringa á þessu er sjálfsagt að leita í því að störfum hjá hinu opinbera hefur nánast ekkert fækkað frá hruni en þar eru konur í miklum meirihluta sem sýnir að atvinnuöryggi kvenna er meira en karla. Vissulega hafa sumar stofnanir fækkað starfsfólki (sérstaklega Landspítalinn) en aðrar virðast hafa fjölgað þeim nokkurnveginn að sama marki.

Hvað segir þetta okkur um skýrslu Velferðarvaktarinnar, Konur í Kreppu?, hvað segir þetta okkur um málflutning atvinnufemínista á borð við Þorgerði Einarsdóttur, prófessor í kynjafræði sem opinberlega hefur lýst áhyggjum af hagstjórnaraðgerðum ríkisstjórnarinnar m.t.t. bágrar stöðu kvenna? Eða málflutning Þórveigar Þormóðsdóttur, formanns jafnréttisnefndar BSRB sem í aðsendri grein í Fréttablaðinu fullyrti að aðgerðir ríkisstjórnarinnar sköpuðu karlastörf á kostnað kvenna? Hvernig er það réttlætt þegar Guðbjartur Hannesson, Velferðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, Iðnaðarráðherra og Jón Gnarr, Borgarstjóri endurvekja sjóði á borð við Lánatryggingasjóð kvenna þegar áhrif kreppunnar eru augljóslega að koma verr niður á körlum? Hvað segir þetta okkur um atvinnuþróunarstyrki Vinnumálastofnunar og Velferðarráðuneytis sem aðeins eru aðgengilegur konum? Hvað segir þetta okkur um barlóm Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Sóleyjar Tómasdóttur yfir því að nokkrar konur hjá borginni missi vinnuna í hagræðingaraðgerðum? Hvað liggur að baki hinum fjölmörgu ályktunum launþegasamtaka og kvenfélaga sem gagnrýnt hafa áform ríkisstjórnarinnar um að fjölga störfum sem almennt eru álitin karlastörf?

Getur verið að þetta segi okkur að jafnréttisiðnaðurinn, eins og hann leggur sig, beri almennt ekki jafnrétti kynjanna fyrir brjósti? Að þess í stað séu þetta stofnanir sem líti á það sem hlutverk sitt að vinna að hag kvenna jafnvel þegar hann er mælanlega mun meiri en karla? Getur verið að þetta sé stétt sem ekkert mark sé takandi á?

Ég geri fastlega ráð fyrir að ef ég myndi spyrja forréttindafemínista að þessu beint, yrði svarið eitthvað á þá leið að ég væri ekki nógu vel upplýstur, jafnvel gamaldags, að rannsóknir sýni að þrátt fyrir allar vísbendingar um annað þá sé staða kvenna jú miklu verri en karla ef ég bara skoði nógu vel. 

Þangað til ég verð sannfærður um að það svar sé rétt ætla ég að halda áfram að spyrja mig.

SJ

, , ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: