Fjúkandi konur

21.4.2011

Blogg

Stjórnmálamenn svífast oft einskis til að slá pólitískar keilur. Oft er reynt að spila inn á almenningsálitið með tilfinningalegri framsetningu eða jafnvel hreinni bjögun staðreynda. 

Dæmi um þetta má sjá í tengslum við þá umræðu sem nú á sér stað um hagræðingaráform borgarstjórnarmeirihluta Besta Flokksins og Samfylkingar á leikskóla- og menntasviði Reykjavíkurborgar en frá þessu segir í frétt Vísis, konur fá að fjúka hjá borginni.

Þar sýnir Hanna Birna Kristjánsdóttir tilburði til að gæða þetta ágreiningsmál kynjavídd (eins og sérfræðingarnir segja) og lætur í því sambandi hafa eftir sér:

„Það er auðvitað sorglegt að þessar vanhugsuðu aðgerðir meirihlutans skuli bitna með svo hörðum hætti á þeim frábæru kvenstjórnendum sem leitt hafa öflugt leikskólastarf fyrir börnin í borginni til margra ára“

Hérna er Hanna Birna að vísa til þess að alls eru 46 kvenstjórnendur að missa núverandi störf sín hjá borginni með aðgerðum meirihlutans. Þá segir hún að meirihlutinn hljóti að hafa gert sér grein fyrir þessu og að þeir karloddvitar sem leiði hann þurfi að svara fyrir þetta.

Hér er allt komið sem þarf til að hefja árangursríkan harmsöng kúgaðra kvenna. Við erum með stóru, vondu oddvitastrákana og verslings litlu stelpurnar sem þeir eru að hrifsa störfin frá.

En er þetta málefni sem ætti að skoða í kynjuðu ljósi? Myndu vondu oddvitastrákarnir ekki gera nákvæmlega þetta sama ef meirihluti þeirra sem starfa á leikskólum borgarinnar væru karlar?

Það er nefninilega þannig að konur eru um 70% opinberra starfsmanna, þ.e. ríkis og bæja. Þegar fókusinn er svo þrengdur niður í menntakerfið í heild sinni kemur í ljós að konur eru 80% starfsmanna. Þá er þetta ekki búið því ef fókusinn er þrengdur enn frekar og hlutfall kvenna af starfsmönnum leikskóla er skoðað kemur í ljós að það er hvorki meira né minna en 90%.

Er nema von að það missi nokkrar konur vinnuna þegar skorin eru niður útgjöld til leikskóla?

SJ

,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: