Femínistafélag Íslands leggst gegn staðgöngumæðrun

18.2.2011

Blogg

Ég verð nú að viðurkenna að ég hafði svolítið gaman að umræðunni um staðgöngumæðrun. Þarna var enda á ferðinni málefni sem líklegt er til að draga fram sterkar tilfinningar, hvort heldur sem er með eða á móti.

Ég sá líka í hendi mér hvernig þetta málefni myndi draga fram þann fáránleika sem einkennir hugmyndafræði forréttindafemínista sem telja sig hafa „betri“ skoðanir á flestum málum en allir aðrir en þess má geta að skv. könnun MMR frá því í Janúar 2011 mældist um 86% þjóðarinnar fylgjandi staðgöngumæðrun. Það leiðir óneitanlega hugann að því hve lítill hópur þjóðarinnar hlýtur að líta á sig sem femínista.

Það er auðvitað svo að þau rök sem notuð eru gegn vændi eiga vel flest við um staðgöngumæðrun. Forréttindafemínistar hafa gjarnan talað um að vændi og klám snúist um afnot fólks – einkum karla – af líkömum kvenna. Gjarnan er talað eins og allar vændiskonur hafi neyðst út í vændi og allir viðskiptavinir þeirra séu að nauðga þeim þar eð þær stundi iðju sína óviljugar og ekkert sé til þar á milli.

Þeim sem finnst mikilvægt að hafa einhverja samfellu í skoðunum sínum og lífsviðhorfum hljóta þá að geta séð að sömu rök má nota gegn staðgöngumæðrun þó tilgangurinn sé annar. Ég hafði reyndar fyrirfram haldið að forréttindafemínistar litu staðgöngumæðrun mildari augum í ljósi þess að þar mætti segja að kona leigði annari konu líkama sinn. Það hefði að mínu mati falið í sér misfellu en Femínistafélagi Íslands til hróss þá létu þær ekki standa sig að því eins og sést í ályktun félagsins sem lesa má á mbl.is. Þær eru á móti staðgöngumæðrum eins og þær eru á móti því að konur selji aðgang að líkama sínum eða afklæðist gegn greiðslu.

Raunar gengur félagið svo langt að álykta að banna eigi konum að taka að sér staðgöngumæðurn í velgjörðarskyni, þ.e. án þess að greiðsla komi til. Í ályktun félagsins segir m.a:

„Femínistafélag Íslands leggst gegn því að staðgöngumæðrun verði heimiluð á Íslandi, hvort sem er í hagnaðarskyni eða velgjörðarskyni. Félagið telur hættulegt að ganga út frá því að barneignir séu álitin sjálfsögð réttindi og að litið sé á að konur, og æxlunarfæri þeirra, sem verkfæri í þeim tilgangi að tryggja öðrum þessi réttindi“

Rétt upp hönd sem er femínisti.

SJ

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: