Áhættumeðvitund?

23.1.2011

Blogg

Gúgglaðu orðið „áhættumeðvitund“ og þú munt sjá að hugtakið er einskonar íkon nútíma kvenrembu. Við stutta yfirferð sá ég ekki innlegg – sem innihélt orðið –  eldra en rúmlega tveggja ára og það virðist hafa fæðst í kjölfar bankahrunsins. Fjöldi síðna sem inniheldur orðið skv. Google er um 700. Forréttindafemínistar virðast hafa tekið þessu hugtaki opnum örmum og nota það óspart til að breiða út karlfyrirlitningu og telja okkur trú um að konur séu betur af Guði gerðar en karlmenn.

Ýmsar konur hafa hoppað á vagninn og segja okkur nú að ef konur hefðu bara ráðið þá hefði þetta aldrei gerst og aukinheldur að konur verði að koma að uppbyggingunni vegna þess að þær eru svo áhættumeðvitaðar. Halla Tómasdóttir og Kristín Pétursdóttir þreytast t.d. ekki á að tala við íslenska og erlenda fjölmiðla um hvað þær séu áhættumeðvitaðar og það hafi einmitt komið þeim í gegnum „auga stormsins í bankahruninu án þess að tapa fé“. Þær tala eitthvað minna um þá staðreynd að Auður Capital var einfaldlega bara í startholunum þegar hrunið reið yfir og þannig var bankinn einfaldlega ekki útsettur fyrir tapi, annað en t.d. MP banki sem var í fullri starfsemi þegar hrunið reið yfir og lifir góðu lífi. Kannski Margeir Pétursson sé bara svona mikil kerling eftir alltsaman?

Við skulum kíkja á nokkur ummæli þar sem áhættumeðvitund kemur við sögu:

Guðrún H. Valdimarsdóttir, formaður Félags Framsóknarkvenna í Reykjavík segir í Pistli þann 20. október 2009:

„Kvenleg gildi mega ekki gleymast en konur hafa kannski áhættumeðvitund sem tekur meira mið af langtíma sjónarmiðum en karlar gera. Konur hugsa oft lengra fram í tímann, hugsa um heildina og taka eftir öðrum tækifærum en karlar“

Kristín Hjálmtýsdóttir, forstöðumaður Alþjóðasviðs Viðskiptaráðs Íslands tjáir sig um áhættumeðvitund í Kastljósþætti sem síðan er vitnað til á vefnum kvennslóðir.is:

„Áhættumeðvitund og langtímasýn eru eiginleikar sem konur hafa yfirleitt í meira mæli en flestir karlar og í þeirri stöðu sem íslenskt efnahagslíf er í eru þetta eftirsóknarverðir eiginleikar.  Kristín Hjálmtýsdóttir segir að í raun sé ákjósanlegast fyrir þá sem ráðnir eru til að stýra nýju bönkunum að hugsa eins og konur“

Femínistafélag Íslands lætur ekki sitt eftir liggja þegar kemur að því að breiða út karlfyrirlitningu og segir í ályktun sem félagið sendi fjölmiðlum, og lesa má á mbl.is, m.a:

„Fjarvera kvenna í efnahagsmálum hefur lengi verið áberandi, enda hafa áherslur kvenna ekki þótt eftirsóknarverðar. Áhættumeðvitund, áherslur á langtímaávinning og samfélagslegan ávinning og gagnsæi þóttu of hamlandi viðhorf á útrásartíma“

Annarsstaðar í sömu ályktun segir svo:

„Forræði hinna karllægu gilda með gróðasjónarmið, fífldirfsku, eiginhagsmunasemi að leiðarljósi verður að linna enda eru þau komin í þrot“

Það er athyglisvert að velta fyrir sér þeirri karlfyrirlitningu sem kemur fram í ofangreindum ummælum. Með því að tala um áhættumeðvitund sem kvenlægt gildi er sú sem það gerir um leið óhjákvæmilega að segja að karllæg andstæða þess sé áhættumeðvitundarleysi eða í það minnsta ónóg áhættumeðvitund. Ef við drögum fram allar andstæðurnar í ummælunum má segja að konurnar tvær og Femínistafélag Íslands sé á þeirri skoðun að karlar séu, náttúru sinnar vegna, almennt skammsýnir, eigingjarnir og beri takmarkað skynbragð á áhættu og þar með óhæfir til að stjórna fjármálafyrirtækjum.

Allt er þetta borið fram með þeim rökum að það hafi verið karlar sem stjórnuðu hér öllu og hrun efnahagslífsins – undir þeirra stjórn – sé þar af leiðandi fullgild sönnun þess að karlar sé óhæfir. Með slíkri hundalógík mætti allt eins segja að skortur á fulltrúum hvaða þjóðfélagshóps sem er sé ástæða hrunsins. Það blasir þó við hverjum sem er að það eru hápólitískar ástæður fyrir því að kvenrembur og forréttindafemínistar ákveða að líta svona á málin því allt snýst þetta á endanum um aukin völd og forréttindi.

Það góða við þessi ummæli og önnur svipuð frá forréttindafemínistum er að það ætti bráðlega að verða öllum ljóst hvaða „dyggðir“ drífa baráttu þessarar hreyfingar.

SJ

, ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: