Söguleg skuld

16.3.2010

Blogg

Ef maður les um forréttindafemínisma að einhverju marki sér maður fljótt að innbyggð í hugmyndafræði forréttindafemínisma er sú skoðun að karlmenn skuldi konum fyrir þá mismunun sem konur hafa orðið fyrir í fortíðinni. M.ö.o. að misrétti í fortíð réttlæti misrétti í nútíð og framtíð – svo lengi sem misréttið bitni á karlmönnum eftirleiðis þar sem það er í ljósi sögunnar réttlætanlegt misrétti – eins furðulega og það nú hljómar.

Reynsla mín er að það fæst enginn forréttindafemínisti til að viðurkenna þetta enda er hreyfingin ágætlega meðvituð um það hve slæm ímyndarleg áhrif það hefði fyrir baráttu forréttindafemínista ef þessi þáttur hugmyndafræði þeirra væri uppi á borðinu.

Það var því kærkomið að sjá Kvenréttindafélag Íslands koma út úr skápnum með þessa skoðun sína í ályktun sem birt var á vef KÍ, krfi.is. Þar má sjá yfirlýsingu frá stjórn kvenréttindafélagsins um að hún fagni forvalsreglum VG í Reykjavík. Þar segir:

„Stjórn Kvenréttindafélags Íslands fagnar því ákvæði í forvalsreglum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor, sem kveður á um að ef hallar á konur í niðurstöðum forvals á sex fyrstu sætum lista, skuli uppröðun leiðrétt með fléttulista.

Ákvæði þetta er í samræmi við kvenfrelsisstefnu VG og er til þess fallið að leiðrétta kynjahallann sem hefur verið við lýði í gegnum tíðina. Þótt einungis eigi þetta við um VG í Reykjavík er innborgun hreyfingarinnar á hina sögulegu skuld kærkomið skref í átt að meira jafnræði kynjanna á sveitarstjórnarstigi“

Til að gæta fyllstu sanngirni og vera viss um að ég skildi rétt það sem stjórn Kvenréttindafélags Íslands er að meina með þessu orðalagi sendi ég póst og  bað um skýringu á hvað meint væri með orðalaginu „söguleg skuld“. Svarið lét ekki á sér standa en í því segir Halldóra Traustadóttir, framkvæmdastjóri Kvenréttindafélags Íslands m.a:

„Þar vísum við í hina sögulegu staðreynd að konur hafi ekki verið við völd að miklu marki – í þessu tilviki á sveitarstjórnarstiginu – undanfarna áratugi. Það má því segja að samfélagið skuldi konum mikið á þeim reikningi

Þar höfum við það svart á hvítu. Stjórn Kvenréttindafélags Íslands er á þeirri skoðun að karlkynið hafi í fortíð efnt til sögulegrar skuldar sem nú þurfi að greiða upp. Gjaldmiðillinn sem greiða skal skuldina upp með er misrétti gegn körlum.

SJ

, , ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: