Þetta er góð spurning sem Dr. Warren Farrell – annar höfundur bókarinnar hefur lengi velt fyrir sér. Bókin er sett upp sem rökræða sem leggur út frá spurningunni mismunar femínismi körlum?
Warren til andsvars er Dr. James P. Sterba femínisti og prófessor í heimspeki við Háskólann í Notre Dame. Warren þekkja líklega flestir lesendur bloggsins sem einn helsta og ötulasta talsmann karlréttinda í heiminum í dag.
Í bókinni er velt upp hinum ýmsu þáttum mannlífsins í kynjuðu samhengi og höfundar rökræða hvort og þá hvernig þessir þættir sýni fram á að körlum sé mismunað í samfélaginu og hvaða áhrif það hefur á tilvistarrétt femínisma sem slíks. Skoðuð eru svið eins og skilgreining femínisma á valdi, herþjónusta og herskylda í kynjuðu tilliti, heimilsofbeldi, kynferðisofbeldi og karl- og kvenfyrirlitning í poppkúltúr samtímans. Bókin hefur að geyma tilvísanir í margar helstu rannsóknir á þessu sviði.
Það er ekkert launungarmál að sá sem hér skrifar er hlutdrægur og litar það auðvitað afstöðu mína til niðurstöðu rökræðunnar sem slíkrar. Ég get þó illa staðist þá freistingu að taka fram að mér þótti athyglisvert að sjá hve oft kaflar Sterba byrjuðu á dæmum um kvennakúgun allt upp í mörg þúsund árum aftur fyrir okkar tíma á meðan dæmi Warren eru flest úr okkar samtíma.
Góð bók og gagnleg öllum þeim sem hafa áhuga á gagnrökum forréttindafemínista við ábendingum karlahreyfingarinnar um að heimsmynd femínista hafi bjagast eitthvað örlítið í óvarlegri beitingu þeirra á kynjagleraugunum sínum. Ekki þó síst gott og uppfært yfirlit yfir kenningar Warren Farrell.
Útgáfuár: 2007
Síðufjöldi: 272
SJ
2.3.2010
Bækur