Svar Dóms- og mannréttindaráðuneytis vegna Barnalaganefndar

1.3.2010

Blogg

Fyrir ekki margt löngu skrifaði ég um þá furðulegu staðreynd að nefnd sem skipuð var til að gera tillögur að nýjum barnalögum væri einungis skipuð konum. Sjá hér og hér.

Mér lék forvitni á að vita hvernig Dóms- og menntamálaráðuneytið rættlætti þetta misrétti og sendi þeim því eftirfarandi fyrirspurn:

„Til þess er málið varðar,
 
Á dögunum voru sagðar fréttir af frumvarpi til nýrra barnalaga sem nefnd á vegum Dóms- og mannréttindaráðuneytisins vann. Í sömu frétt kom fram að Dómsmálaráðuneytið tilnefndi fulltrúa í nefndina ásamt Sálfræðingafélagi Íslands og Dómarafélagi Íslands.
 
Nefndin var skipuð þremur konum en engum karli. Aðspurð að því hversvegna nefndin væri bara skipuð konum sagðir aðstoðarmaður ráðherra, Ása Ólafsdóttir, í viðtali á Bylgjunni þann 12. jan. sl. að einungis hefðu verið tilnefndar konur í nefndina.
 
Í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla frá 2008 segir í 15. grein:
„Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.
 
Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.
 
Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef undanþáguheimild 2. mgr. á við“

Í þessu ljósi langar mig að beina eftirfarandi fyrirspurn til Dóms- og mannréttindaráðuneytisins: Hversvegna var eingöngu tilnefnd kona frá ráðuneytinu og hvaða hlutlægu ástæður lágu fyrir sem réttlættu það að vikið væri frá ákvæði 1. mgr. 15. gr. laganna, ef einhverjar?
 
Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Svarið barst loks tæpum mánuði eftir að ég sendi það og þá aðeins eftir að hafa sent ítrekun. Það hljóðar svo:

„Sæll Sigurður

Vísað er til fyrirspurnar til ráðuneytisins, dags. 31. janúar, sbr. og tölvupóst frá því fyrr í dag, um tilnefningar í nefnd, sem skipuð var í desember 2008, til að endurskoða ákvæði barnalaga um forsjá barna, búsetu og umgengni.

Fyrrverandi ráðherra skipaði formann nefndarinnar án tilnefningar og var álitið óhjákvæmilegt að formaðurinn væri lögfræðingur og sérfræðingur á sviði barnaréttar. Ástæða þess var ekki síst sú að gert var ráð fyrir að nefndin skilaði áliti sínu í formi fullbúins frumvarps með athugasemdum. Nafn Hrefnu Friðriksdóttur lögfræðings kom mjög fljótlega upp við undirbúning málsins, þar sem hún hefur mikla reynslu í þessum málaflokki og er einn helsti fræðimaður og sérfræðingur okkar í barnarétti. Val fyrrverandi ráðherra á formanni nefndarinnar var því grundvallað á hæfni og sérþekkingu viðkomandi.

Að því er varðar aðra nefndarmenn var ákveðið að óska eftir tilnefningum frá Sálfræðingafélaginu og Dómarafélaginu. Af hálfu beggja var kona tilnefnd sem aðalmaður og var farið að þeim tilnefningum.

Með kveðju
Jóhanna Gunnarsdóttir“

Þetta er athyglisvert og ætti að reynast karlmönnum, sem sótt er að á grundvelli jafnréttislaga gagnlegar upplýsingar. Það þarf semsagt ekkert að fara eftir þessum lögum þó látið sé eins og þess þurfi í þeim tilvikum sem hallar á konur.

SJ

, ,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: