„Femínistar vara við ábyrgum feðrum“ er fyrirsögn fréttar á DV um ályktun Femínistafélags Íslands gegn Félagi um Foreldrajafnrétti.
Þetta er sennilega ein besta fyrirsögn sem ég hef séð lengi sem tengist Femínistafélagi Íslands. Hún er eitthvað svo lýsandi um hinn sanna tilgang þessa félagsskapar. Lengi vel hefur félagið talið landsmönnum trú um að það sé að berjast fyrir jafnrétti en fleiri og fleiri eru að átta sig á að félagið er að berjast hörðum höndum að forréttindum til handa konum og ekkert annað. Eða hvað annað ætti svosem að skýra ályktun félagsins gegn foreldrajafnrétti? Hvernig getur jafnréttissinni verið á móti foreldrajafnrétti eða bara einhverju öðru jafnrétti?
Ég veitti því einmitt athygli þegar ég sá tilkynningu á póstlista Femínistafélagsins um desemberhittið svokallaða þar sem fengnir voru tveir frummælendur sem báðir eru þekktir andstæðingar foreldrajafnréttis – þ.e. að feður og börn öðlist eðlilegan rétt í syfjalögum í stað þess að mæður hefðu ákvörðunarvald t.d. um umgengni. Ég spurði mig, myndi félagsskapur sem ynni að því markmiði að stuðla að jafnrétti ekki leitast við að fá fulltrúa beggja sjónarmiða á opinn málfund sem þennan?
Hvað svosem segja má um Parental Alianation Syndrome (PAS) sem er sérstaklega tiltekið í ályktuninni þá er það nú alls ekki svo að það málefni sé afgreitt á einum málfundi í Hafnarstrætinu. Hvað þá þegar annar frummælandinn á beinlínis harma að hefna gagnvart þeim félagsskap sem hann talar gegn. Það er til aragrúi fagfólks hér heima og erlendis sem viðurkennir PAS sem raunverulegt vandamál í umgengnismálum og þetta hefur verið innleitt í löggjöf m.a. í Frakklandi og Ástralíu.
Þar sem téð yfirlýsing Femínistafélagsins er svo ansi vel lýsandi fyrir hinn raunverulega málsstað og tilgang félagsins skal yfirlýsingin birt hér í heild sinni eins og hún var birt á DV.is:
„Femínistafélag Íslands ályktar gegn boðskap Félags um foreldrajafnrétti, áður Ábyrgir feður, sem felur í sér þá kenningu (PAS-kenningin) að forsjárforeldri, oftast mæður, ali börn sín á hatri gegn barnsföður. Femínistar segja þrýsting frá ábyrgum feðrum, þess efnis að beita kenningunni í forsjár- og umgengnismálum hérlendis, farinn að skila sér í samfélaginu og vara við þeirri þróun.
Vegna umræðu undanfarið um forræðismál hélt Femínistafélagið málfund í vikunni. Þar kom fram í máli sérfræðinga, þeirra Elísabetar Gísladóttur lögfræðings og Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings, að annars vegar sé lítið tillit tekið til þess í forsjármálum að barn hafi verið beitt ofbeldi á heimilinu og hins vegar séu afleiðingar PAS-kenningarinnar skelfilegar fyrir börn. Femínistar segja fátt sem réttmæti kenningarinnar og benda á að bandarískir dómstólar hafi alfarið vísar henni frá dómi.
Í yfirlýsingu félagsins segir: „Femínistafélag Íslands skorar á barnaverndaryfirvöld og stjórnvöld í landinu að læra af biturri reynslu Bandaríkjamanna. Félagið krefst endurskoðunar á verklagsreglum og löggjöf í umgengnis- og forsjármálum. Ofbeldi er alvarlegt mál og skal aldrei þaggað – börn verða að njóta vafans ef grunur um slíkt er til staðar. Hagur og velferð barna skal ávallt vera í fyrirrúmi, þeirra rödd og mannréttindi ber að virða.“
Það er varla nokkur tilviljun að þessi ályktun komi núna þegar Félag um Foreldrajafnrétti er loks farið að ná árangri í baráttu sinni. Þetta var fyrirsjáanlegt rétt eins og það er fyrirsjáanlegt að starfsemi Femínistafélagsins mun í auknum mæli fara að snúast um að sporna gegn eðlilegri jafnréttisþróun á þeim sviðum sem hallar á karlmenn á næstu misserum.
SJ
5.12.2009
Blogg