Kynjakvótar: Kvenfyrirlitning

10.5.2009

Blogg

Er það virkilega?

Er það virkilega?

Krafan um kynjakvóta er líklega það sem skilgreinir muninn á Forréttindafemínisma og Jafnréttisfemínisma hvað skýrast. Forréttindafemínistar segja okkur að setning jafnréttislaga – sem bannar mismunun á grundvelli kynferðis – sé hvergi nærri nóg þegar kemur að því að ná fram jafnrétti. Týndar eru til tölur sem sýna fram á laka þátttaka kvenna í t.d. stjórnum fyrirtækja, stjórnunarstöðum, stjórnmálum  og fleiru þessháttar fíneríi og okkur sagt að það endurspegli kúgun kvenna. Fimlega er skautað fram hjá því sem þykir ekki eins fínt eða þeim sviðum þar sem konur hafa tryggt sér völd þegar. Þannig heyrast forréttindafemínistar heima eða erlendis aldrei benda á nauðsyn þess að fjölga körlum sem fari með forsjá yfir börnum sínum, fækka konum eða auka þátttöku karla í framhalds- og háskólum, fjölga konum í byggingariðnaði, herjum, stóriðju eða fangelsum o.s.fv. Merkilegt nokk.

Afneitun á afrekskonum

Ein neivæðasta hlið þessarar villutrúar er svo tilhneyging forréttindafemínista til að afneita og jafnvel lasta núlifandi afreks- og athafnakonur. Látið er að því liggja að konur sem eru í áhrifastöðum í dag séu þar af einhverjum annarlegum ástæðum. Greinarhöfundur hefur þannig m.a. setið kvennaþing þar sem þeirri skoðun var lýst úr ræðupúlti að núverandi forstjóri Alcan á íslandi hefði verið valin á grundvelli kynferðis til að bæta ímynd fyrirtækisins frekar en að hennar eigin kostir hefði ráðið þar einhverju um. Þetta er ósköp eðlileg afleiðing kröfunnar um kynjakvóta sem beinlínis byggir á því að konum sé kerfisbundið haldið frá stjórnunarstöðum af karlaklíkum. Hvernig ætti annars að skýra árangur þessara kvenna án þess að kippa um leið stoðunum undan þeirri brothættu röksemdarfærslu sem liggur að baki kröfunni um kynjakvóta?

Glerþak?

Hið ímyndaða glerþak

Glerþakið

Brothætt, vel á minnst. Það vill nefninlega svo til að afar fáir virðast skilja ástæðurnar fyrir því að það þurfi að bera konur yfir þá þröskulda sem allir metnaðarfullir einstaklingar þurfa að fara yfir á leið sinni til metorða. Til að fylla upp í tómarúm þessarar kenningar hafa forréttindafemínistar nefninlega kynnt til sögunnar hugtakið „glerþak“. Gler með tilvísun í ósýnileika vandamálsins – a.m.k. með augum karlmannsins – og þak með tilvísun í þá hindrun sem okkur er sagt að konur mæti á leið sinni upp skipuritin. Þannig er okkur sagt að bara konur sjái og finni þegar þær reka sig í glerþakið sem lagt hefur verið af áðurnefndum karlaklíkum. Gallinn við þessa röksemdarfærslu er bara sá að nánast allir einstaklingar upplifa nákvæmlega það sama á vegferð sinni. Hver vill ekki hærri laun, betri stöður, meiri hlunnindi og almennt meira fínerí? Verðum við þá ekki að segja að allt þetta fólk sé komið upp undir sitt „glerþak“? jafnvel bara móttökuritarinn (karl eða kona) sem sóttist eftir starfi bókara en fékk ekki?

Jákvæð mismunun?

Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja og stjórnunarstöðum er lágt. Það sýna opinberar tölur en til að það geti talist óeðlilegt verður veruleikinn að vera sá að nákvæmlega jafnmargar og jafnhæfar konur og karlar séu á höttunum eftir þeim stöðum sem um ræðir. Hvað þá ef þessu á að breyta með valdboði. Það hlýtur að teljast afar ólíklegt að nokkur fyrirtækiseigandi hafni hæfri konu einvörðungu vegna þess að hún er kona og fyrirgeri þannig sínum eigin hagsmunum. Það að meina eiganda fyrirtækis að skipa stjórn fyrirtækis eftir eigin höfði er grafalvarlegt mál. Ef raunveruleikinn er sá að bara 5 konur á móti 10 körlum eiga sér þann draum að verða stjórnendur eða stjórnarmenn í fyrirtæki þá yrði kynjakvóti sem skyldaði jafnt hlutfall kynjanna auðvitað ekkert annað en mismunun gagnvart körlum – konurnar fimm í þessu dæmi yrðu að hafa miklu minna fyrir stöðunum sem þær sækjast eftir heldur en karlarnir. Forréttindafemínistar hafa reyndar lýst því yfir að þeir hafa ekkert á móti slíkri mismunun – kalla þetta jákvæða mismunun.

Mögulegar skýringar

Bent hefur verið á fjölmargar mögulegar skýringar á því hversvegna þátttaka kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum er minni en karla. Týndar hafa verið til skýringar eins og þær að til að komast í stjórnunarsöður – sérstaklega hjá stórum fyrirtækjum – þarf háan starfsaldur og mikla reynslu sem konur hafa einfaldlega minna af þar sem almenn atvinnuþátttaka kvenna hófst ekki fyrr en fyrir nokkrum áratugum. Einnig má nefna að mikilvægt er fyrir starfsframa að ferill sé samfelldur og það hjálpar ekki að taka allt að nokkur ár í barneignarfrí ef stefnt er á toppinn í atvinnulífinu. Svo eru nokkrir augljósir áhrifaþættir eins og einfaldlega bara mikil vinna, bæði kvöld og helgar og gríðarlegar fórnir á öðrum sviðum lífsins sem afskaplega lítið hlutfall fólks virðist tilbúið til að færa.

Á hverjum degi heltist fólk úr lestinni kapphlaupinu um hærri laun og aukin frama. Menn og konur sem unnið hafa á yfirsnúningi breyta um áherslur af margskonar ástæðum. Löngun til að eyða meiri tíma með fjölskyldu, knýjandi heilsufarsvandamál og einhver hinna fjölmörgu kvilla vinnutengdrar streitu svo eitthvað sé nefnt.

Ég held að konur þurfi ekki á kynjakvótum að halda. Ég held að konur sem vilja ná langt og færa fórnirnar geti einfaldlega náð langt, alveg eins og karlar. Ég held að konur sem ná langt kæri sig ekki um að starfa undir þeim grun að hafa kannski bara verið ráðnar af því að  þær eru konur. Mér finnst hugmyndir um að konur þurfi opinbera aðstoð við að sækja um störf bera vott um kvenfyrirlitningu og séu líklegar til að ala á kvenfyrirlitningu. Ímyndum okkar bara viðhorf komandi kynslóða sem eldust mögulega upp við að það hvíldi lagaskylda á fyrirtækjum að ráða konur í stjórnunarstöður? Ætli það myndi ekki vekja spurningar um andlega getu kvenna sem þyrftu slíka forgjöf?

Ég held líka að það sem helst skýri minni þátttöku kvenna í stjórnum og stjórnunarstörfum sé ekkert svo flókið – ég held að konum sé einfaldlega innrætt betri sjálfsvirðing í uppeldi og hafi þar af leiðandi minni áhuga á þeim fórnum sem frami og há laun hafa í för með sér. Í öllu falli er ég sannfærður um að kynjakvótar séu engum til framdráttar nema lötum forréttindafemínistum, hvorki konum né körlum.

SJ

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: