Eins og það er nú gaman að vera ekki kreppubloggari þá kemur hér eitt kreppublogg – svona hálfvegis að minnsta kosti.
Frá því að bankahrunið dundi yfir þjóðina með tilheyrandi afleiðingum hafa ófáir sérfræðingarnir stigið fram og reynt að skýra orsakir hrunsins. Þessir sérfræðingar hafa tiltekið mýmargar ástæður fyrir hruninu. Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna, Seðlabankann, Davíð Oddsson, Útrásarvíkinga, Regluverki ESB og svo mætti lengi telja. Menn eru ekki á eitt sáttir.
Halla Tómasdóttir hjá Auði Capital er ein þessara sérfræðinga en hún er ekki í nokkrum vafa um hvað olli hruninu. Í viðtali við vefútgáfu þýska blaðisins Der Spiegel segir hún einfaldlega að kreppan sé karlmönnum að kenna. Fréttavefurinn AMX.is birtir þýðingu á ummælum Höllu:
„Krísan er körlum að kenna“ er haft eftir Höllu. „Þetta eru alltaf sömu gaurarnir. 99% gengu í sama skóla, óku eins bílum, voru eins klæddir og höfðu sömu framkomu. Þeir komu okkur í þessa stöðu – og þeir skemmtu sér vel við það,“ segir hún við blaðamanninn. Hún gagnrýnir kerfi, sem byggist á sem mestum skyndigróða án tillits til áhættu og segir: „Þetta er dæmigerð karlahegðun,“ segir Halla, sem líkir þessu við „penis competition“ að sögn þýska blaðamannsins, það er hver hafi lengstan getnaðarlim“.
Þar höfum við það. Að mati Höllu Tómasdóttur rekstrarhagfræðings og Framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands á árunum 2005 – 2007) þurfum við ekki að leita frekari skýringa. Þetta var bara einhver typpakeppni sem fór úr böndunum.
Halla starfar í dag fyrir Auði Capital og talar ótt og títt um að stýra fjárfestingum af einhverju sem hún kallar áhættumeðvitund, sem felur að sjálfsögðu í sér að aðrir fjárfestingarbankar (karlarnir) hljóti að vera áhættiómeðvitaðir eða hvað?
Það þarf sjálfsagt ekki að hjálpa lesendum að sjá hvað þessi ummæli eru hjákátleg í sjálfu sér auk þess að lýsa hreinni og klárri karlfyrirlitningu. Á það má samt benda að Halla getur varla talist stikkfrí sem framkvæmdastjóri viðskiptaráðs á þeim tíma sem bólan var um það bil að springa. Undir hennar stjórn vann Viðskiptaráð Íslands einmitt að því að bæta ímynd bankanna á erledri grundu og svo fréttist nú af henni í baugs-svallveislum á erlendri grundu þar sem hún peppaði mannskapinn á milli söngatriða Tinu Turner.
Þetta er nú með því fyndnara sem sést hefur lengi.
SJ
1.5.2009
Blogg