Mennta- og menningarmálaráðuneytið neitar að gefa upp útgjöld til jafnréttismála

28.6.2011

Blogg

Ég hef um nokkurra mánaða skeið verið að vinna að rannsókn á því hve mikið fé er fært úr vösum skattborgara og ofan í vasa aðstandenda jafnréttisiðnaðarins. Ég hef grun um að útgjöld til jafnréttisiðnaðarins hlaupi á fleiri hundruðum milljóna en þá horfi ég aðeins til beinna útgjalda ríkis og sveitarfélaga.

Þannig reka ríki og sveitarfélög stofnanir sem hafa þann eina tilgang að vinna að jafnréttismálum auk þess að hafa launaða starfsmenn sem eingöngu sinna jafnréttismálum, s.s. jafnréttisfulltrúa. Þá má ætla að talsverðu fé sé varið í aðkeypta þjónustu og ráðgjöf auk þess sem starfsmönnum ríkis og bæja, sem ekki endilega hafa þann eina starfa að vinna að jafnréttismálum, starfi að hluta að jafnréttismálum.

Ef jafnréttisiðnaðurinn væri kynhlutlaus, þ.e. ynni að jafnrétti til handa körlum og konum en ekki bara konum, væri hugsanlega hægt að segja að jafnréttisiðnaður gæti verið réttlætanlegt fyrirbæri. Það er hinsvegar ekki raunin eins og allir vita heldur er jafnréttisiðnaðinum aðeins umhugað um eitt; að fórnarlambavæða helming samfélagsins og hafa af því atvinnu.

Til að glöggva mig á stöðu mála sendi ég öllum ráðuneytum auk stærstu sveitarfélaga erindi og óskaði upplýsinga um útgjöld til jafnréttismála. Þann 29. mars sendi ég erindi til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem ég ítrekaði svo þann 10. júní sl. Erindið var svohljóðandi:

„Til þess er málið varðar,

Mig langar að vita hver eru heildarútgjöld íslenska ríkis og sveitarfélaga til jafnréttismála. Í þessu sambandi vil ég beina eftirfarandi fyrirspurn til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins:

  1. Hve hárri fjárhæð var varið til jafnréttismála af ráðuneytinu árin 2008, 2009 og 2010?
  2. Hve hárri fjárhæð ætlar ráðuneytið að verja til jafnréttismála árið 2011?
  3. Treystir ráðuneytið sér til að áætla óbeinan kostnað til jafréttismála fyrir sömu tímabil, þ.e. hve mikill kostnaður hefur fallið til við störf tengd jafnréttismálum innan nefnda, ráða og vinnuhópa, utan þeirra sem hafa þann eina tilgang að vinna að jafnréttismálum?

 Til skýringa er hér átt við nefndir, ráð, stöðugildi, störf, vinnuhópa, aðkeyptar skýrslur og sérfræðiaðstoð, gerð skýrslna og úttekta í þágu jafnréttis innan ráðuneytis sem utan, framlög til jafnréttismála til stofnana og samtaka og allt það er lýtur að rannsóknum, útfærslu eftirliti og eftirfylgni með stefnu stjórnvalda í jafnréttismálum í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 2008.

Virðingarfyllst,
Sigurður Jónsson“

Ráðuneytið svaraði mér loks þann 15. júní sl:

„Sæll Sigurður

Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á þeirri töf er orðið hefur á því að svara fyrirspurn um upplýsingar um heildarútgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins til jafnréttismála árin 2008, 2009 og 2010 og áætlaða upphæð árið 2011.

Ráðuneytið vill taka fram að engin skjöl eru til eða hafa verið útbúin í ráðuneytinu sem beinlínis varða þá samantekt er fyrirspurnin lýtur að. Upplýsingaréttur samkvæmt upplýsingalögum nr. 50/1996, tekur ekki til þess að stjórnvöld útbúi ný skjöl eða gögn með tilteknu efni, jafnvel þótt upplýsingarnar megi finna í tilteknum skrám þess. Þær upplýsingar sem beiðnin lýtur að eru að finna í bókhaldi og málaskrá ráðuneytisins en leggja þyrfti í umtalsverða vinnu til greina þær og taka þær saman. Er því ekki eins og hér hagar til unnt að verða við beiðni yðar.

Til upplýsinga þá er ráðuneytið þátttakandi í sérstöku tilraunaverkefni um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð á vegum fjármálaráðuneytisins, en verkefnistjóri þess verkefnis er Katrín Anna Guðmundsdóttir á starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.

Virðingarfyllst“

Nú á tímum greiðir hinn almenni skattborgari rúmlega helming launa sinna í skatt. Skattþiggjendunum hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu finnst það greinilega sjálfsagt mál og algjör óþarfi að upplýsa sótsvartan almúgann um það í hvað peningum hans sé varið.

SJ

One Comment á “Mennta- og menningarmálaráðuneytið neitar að gefa upp útgjöld til jafnréttismála”

  1. Páll Says:

    Bendi þér í þessu sambandi á fína grein sem birtist nýlega á Vísi.is þar sem talað var um að kostnaðurinn við kynjaða fjárlagagerð gæti innan tíðar numið milljarði króna: http://www.visir.is/kynjud-stada-verdur-til/article/2011110429234

    Ég held að þetta sé varlega áætlað hjá þér með heildarkostnað við jafnréttisiðnaðinn sem fer ört vaxandi einmitt núna.

    Kv. Páll

%d bloggurum líkar þetta: