Hér hefur áður verið skrifað um Höllu Tómasdóttur, stjórnarformann og einn stofnenda Auðar Capital, og þá kynrembu hennar að ætla karlmönnum að hafa komið efnahagslífi Íslands á vonarvöl sakir eðlislægra ágalla sinna. Ágalla sem konur hafa að sjálfsögðu ekki að hennar mati enda á einhvern hátt körlum betri og æðri af náttúrunnar hendi.
Hún heldur áfram að reyna að telja sjálfri sér og öðrum trú um þetta og nú á TED. Þetta er í sjálfu sér kannski ágætt af henni. Nú höfum við þessa heimild um kynrembu Höllu vísa en hér gerir hún þessum hugrenningum sínum ítarlegri skil en hún hefur áður gert. Fyrir áhugasama má horfa á upptökuna hér.
Sú breyting virðist vera orðin á málflutningi hennar að nú leggur hún mikla áherslu á að hún sé í raun vel meinandi og ekki ætti að túlka orð hennar sem svo að karlmenn séu verri eða óæskilegri en konur – bara „öðruvísi“. Þá segist hún vilja sjá meira af því að kynin vinni saman. Þessi fyrirvari gengur náttúrulega ekki upp og er enda sami fyrirvari og oft má heyra í málflutningi fólks sem vill sannfæra sjálft sig og aðra að um að það sé á einhvern hátt æðra öðrum þjóðfélagshópum eða kynþáttum. Mér hefur a.m.k. oftar en einu sinni verið sagt af rasista að hann hafi í raun ekkert á móti blökkumönnum, svo lengi sem þeir séu bara heima hjá sér og margoft hefur verið reynt að sýna mér fram á náttúrulega mun milli hvíta kynstofnsins og annara undir því yfirskyni að við séum einfaldlega bara „öðruvísi“ þegar allt kemur til alls.
Þessi tilraun Höllu setur hana í mótsögn við sjálfa sig eins og glögglega má sjá í erindi hennar enda getur umræða sem ætlað er að upphefja konur og „kvenleg gildi“ án þess að gera lítið úr „óæðra kyninu“ ekki endað öðruvísi.
Erindi Höllu er á ensku og ber yfirskriftina „A feminine response to Iceland’s financial crash“ sem gefur óneitanlega vísbendingu um inntakið. Í erindinu telur Halla upp þau kvenlegu gildi sem hún segir aðgreina konur frá körlum. Þau eru:
- Risk awareness (Áhættumeðvitund)
- Straight talking (Hreinskilni)
- Emotional capital (Tilfinningalegt fjármagn)
- Profit with principles (Hagnaður ásamt einhverskonar samfélagslegum gildum, væntanlega góðum)
- Sustainability (Sjálfbærni sem Halla vísar lauslega til sem eins hinna kvenlegu gilda)
Gott og vel. Ef ofangreint telst til kvenlegra gilda – sérstaklega – þá hljóta hin karllægu gildi að vera einhverskonar andstæður þeirra. Þetta er óhjákvæmilegt ef þessi gildi eru á annað borð kvenleg en ekki bara eitthvað sem er öllum eða flestum eiginlegt, þ.m.t. karlmönnum, alveg eins og konum. Af því leiðir að tilgáta Höllu hlýtur að ganga út frá því að karlmenn séu upp til hópa:
- Ó-áhættumeðvitaðir
- Óhreinskilnir
- Tilfinningalausir þegar kemur að fjárfestingum
- Hugsi um hagnað án tillits til félagslegra afleiðinga
- Ósjálfbærir
Við skulum vona að fallið af þeim háa stalli sem Halla talar til okkar af verði ekki sársaukafullt þegar þar að kemur. Á meðan við bíðum getum við velt fyrir okkur hvað hefði orðið um karlmann úr viðskiptalífinu sem myndi á opinberum vettvangi dylgja með svipuðum hætti að því að konur væru körlum óæðri.
SJ
8.3.2011
Blogg