Kynremba

15.6.2010

Blogg

Flest það efni sem ég les um jafnréttismál og femínisma er á enskri tungu enda ekki mikið til af aðgengilegu og gagnlegu efni á íslensku þar sem orðræðan hér stafar frá konum sem tala um kvenréttindi fremur en endilega jafnrétti.

Eitt af algengari hugtökum orðræðunnar er orðið „sexist“ en það er notað um viðhorf sem álitin eru lýsa fordómum í garð annaðhvort karla eða kvenna. Svipað og karlremba og kvenremba gera í íslenskri tungu en þó í sama orðinu.

Jafnréttisstofa heldur m.a. úti orðabók yfir jafnréttishugtök en þangað leitaði ég að hentugu íslensku orði sem hefði sömu þýðingu og enska orðið „sexist“. Mér til undrunar komst ég að því að orðið sexist er ekki að finna í orðabók Jafnréttisstofu. Ég sendi því póst og spurði í stuttu máli hvort Jafnréttisstofa lumaði á íslenskri þýðingu orðsins.

Svarið lét ekki á sér standa og sagði starfsmaður mér í svari að orðið sexist þýddi karlremba og lét fylgja með orðabókarskýringu á orðinu karlremba þ.e:

„karlmaður sem þykist vera konum fremri sökum kynferðis, en einnig: sú skoðun að karlmenn séu konum fremri sökum kynferðis“.

Af þessu að dæma er ekkert til sem heitir kvenremba og starfsmenn Jafnréttisstofu féllu þarna í þá gildru að ganga út frá því að aðeins gæti verið um karlrembu að ræða en ekki kynrembu.  

Ég legg því hér með til orðið kynremba sem sameinar kven- og karlrembu og lýsir ágætlega viðhorfum upphefðar annarshvors kynsins yfir hitt.

SJ

,

Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: