VR, áður Verslunarmannafélag Reykjavíkur er stéttarfélag sem segir tilgang sinn vera að vinna að bættum kjörum og auknum réttindum félagsmanna. Kynjaskipting félagsmanna er c.a. 60% konur og 40% karlar svo félagið getur varla talist kvenfélag í neinum skilningi nema hvað konur eru í yfirgnæfandi meirihluta félagsmanna á höfuðborgarsvæðinu.
Það kom mér því nokkuð á óvart að rekast á grein í VR blaðinu, 5. tbl. 31. árgangur, nóvember 2009, sem var full af karlfyrirlitningu og femínísku froðusnakki.
Greinin ber titilinn „Er tími kvennanna kominn?“ en í henni fær greinarhöfundur, Snæfríður Ingadóttir, þrjár konur í lið með sér til að velta þessari spurningu fyrir sér. Þetta eru þær Silja Bára Ómarsdóttir, stjórmálafræðingur, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff á á Íslandi og formaður Samtaka verslunar og þjónustu.
Greinin er vægast sagt sneisafull af kvenrembu sem er svo mjög í tísku um þessar mundir og gengur út frá því að kreppan sé körlum að kenna og að henni hefði mátt afstýra ef konur hefðu verið við stjórnvölinn. Dylgjað er að því að konur hafi eðlislæga yfirburði yfir karla til að stjórna fyrirtækjum og samfélögum og að eitthvað sé til sem heiti kvenlæg gildi sem almennt séu góð og karlarlæg gildi sem almennt séu vond.
Þessi grein er ómetanlegur minnisvarði um kvenrembu og forréttindafemínisma sem inniheldur mörg óborganleg ummæli sem vert er að halda til haga. Hún er þó um leið áfellisdómur yfir VR en það hlýtur að sæta furðu að VR skuli kjósa að gefa þetta efni út opinberlega í sínu nafni ef félagið ætlar að álíta sig stéttarfélag fyrir konur og karla en ekki bara konur. Greinin og opinber birting hennar er líka í hróplegu ósamræmi við 7. gr. draga að siðareglum VR sem nálgast má á vefsíðu VR en þar segir: „Við höfum jafnrétti að leiðarljósi og vinnum gegn fordómum og mismunun, t.d.vegna kyns, þjóðernis, trúarbragða, aldurs, kynferðis, skoðana, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti“
Við skulum kitla hláturtaugarnar með nokkrum vel völdum tilvitnunum sem dæma sig nú eiginlega sjálfar:
„Krafa almennings um aukin völd kvenna í viðskpitalífinu hefur aldrei verið jafn hávær og eftir efnahagshrunið. Margir vilja meina að skellurinn hefði orðið minni, ef þá nokkur ef þær hefðu haldið um stjórnartauma fjármálafyrirtækja“
Getur verið að þessi skoðun sé kannski bara mest áberandi innan hreyfingar forréttindafemínista?
„Rannsóknir sýna að þegar áföll á borð við stríð, kreppur eða gjaldþrot dynja yfir eru konur líklegri til þess að komast til valda. Þeim er hinsvegar oftar en ekki ýtt til hliðar þegar allt er aftur fallið í ljúfa löð. Það má því velta fyrir sér hvort það sér virkilega eftirsóknarvert fyrir konur að komast í toppstöður núna svo að segja einungis til þess að þrífa upp skítinn“
Æ greyin … óborganlegt.
„Hvort það er hinsvegar eftirsóknarvert að taka við öllum skítnum er annað mál. Eigum við að viðhalda því að karlarnir venjist því að þeir geti rústað öllu og svo komi konurnar og sópi upp? Þegar húsið er komið í horf fá karlarnir svo að taka við aftur og halda næsta partí?“
Já mamma.
„Þrátt fyrir að ekki sjáist þess skýr merki að konur séu að komast til meiri valda í viðskiptalífinu hér á Íslandi spá hagfræðingar heimsins því að það verði þær sem komi heimsbyggðinni út úr kreppunni. Þannig mátti t.d. nýlega lesa í Times þá spá að konur verði hið leiðandi afl sem stýra muni heiminum út úr hinni efnahagslegu lægð, ekki með áhrifum sínum á pólitík heldur á efnahagslífið“
Já já, jafngilda nú einhver leiðaraskrif í Times „hagfræðingum heimsins“?
„Í þessu sambandi hefur mikið verðið rætt um „kvenlæg gildi” og fyrirtæki hvött til þess að gefa slíkum gildum aukið vægi í rekstri sínum. Þetta eru áherslur á borð við vingjarnleika, sköpun, samvinnu, áhættumeðvitund, langtímaávinning og samfélagslegan ávinning. Andstæðan við þessi kvenlægu gildi eru t.d. gróðasjónarmið, fíldirfska og eiginhagsmunasemi, gildi sem kölluð hafa verið karlæg“
Æ takk, ég þarf ekki að telja upp andstæðurnar við hin dásamlegu kvenlegu gildi- þið gerðuð það fyrir mig!
Já, við þökkum þessum sómakonum fyrir að hafa gert okkur þann greiða að setja þessa froðu á prent. Það hlýtur að vera góð tilfinning að finna svona til sín.
Vissir þú að VR stendur fyrir Virðing og Réttlæti?
SJ
22.5.2010
Blogg